Hvers konar andefni er um að ræða í bókinni Englar og djöflar eftir Dan Brown?Í spennusögunni Englar og djöflar segir frá dularfullu leynifélagi sem felur tæpt gramm af andefni í Vatíkaninu og hótar að sprengja Páfagarð í loft upp. Þegar líða tekur á söguna kemur í ljós .... [þeir sem vilja lesa meira um söguþráðinn geta smell á þennan hlekk]
Í sögunni takast á einfaldar andstæður trúar og hátæknivísinda. Eitt markmið leynifélagsins er að sýna fram á yfirburði trúarinnar og efla hlut hennar í flóknum nútímaheimi. Vísindunum í bókinni er bæði teflt fram sem andstæðingi trúarinnar og sem bandamanni hennar. Andefnisrannsóknirnar eru til að mynda stundaðar með mikilli leynd af kaþólskum vísindamanni sem hefur í hyggju að komast til botns í því hvernig Guð skapaði heiminn. Yfirmaður rannsóknastöðvarinnar er hins vegar "hreinræktaður" vísindamaður, andsnúinn öllu trúarlegu og minnir eflaust suma eilítið á breska vísindamanninn Stephen Hawking, því hann er lamaður og ekur um í hjólastól. Í sögunni er andefninu stolið frá Evrópsku rannsóknastöðinni í öreindafræði, CERN, en hún er skammt frá borginni Genf í Sviss. Margir vita að Veraldarvefurinn á rætur að rekja þangað en þar var fyrsta vefsíðan birt í ágúst 1991. Við höfum fjallað nokkuð um andefni á Vísindavefnum, meðal annars í svörum við spurningunum Hvað er andefni og Hvað felst mikil orka í andefni? Þar kemur fram að andefni er eins konar spegilmynd venjulegs efnis. Þegar öreind og samsvarandi andeind koma saman eyða þær hvor annarri og orkan sem fólgin var í massa þeirra losnar úr læðingi. Ef hálft gramm af andefni kæmist í snertingu við hálft gramm af venjulegu efni mundi orkan sem losnar samsvara orkunni í kjarnorkusprengjunni sem lagði Hiroshima í rúst í lok seinni heimstyrjaldar. Andefni í óvinahöndum hljómar því ekkert sérstaklega gæfulega og það er skiljanlegt að það fari hrollur um menn þegar þeir frétta af andefnisverksmiðjunni í CERN sem framleiðir andefni á hverjum degi. En það er samt engin ástæða fyrir almenning að örvænta því þótt vísindamenn séu orðnir nokkuð góðir í að framleiða andefni er afar erfitt að geyma það nema í örstutta stund. Andefnið sem um ræðir í Englum og djöflum er nákvæmlega eins og andefnið sem framleitt er í öreindahröðlum í CERN, en þeir eru geysistórir og notaðar til að skyggnast inn í smæstu eindir efnisins. Það sem er óvenjulegt í bókinni er hvernig andefnið er geymt og hvað það er í miklu magni.