Eru 50% líkur á því að kona sem á pabba sem er blæðari og mömmu sem er arfberi verði blæðari eða eru konur alltaf arfberar?Ef faðir er blæðari og móðir arfberi eru helmings líkur á að stúlkufóstur verði arfhreint um X-tengt dreyrasýkigen. Aftur á móti fæðast ekki slík stúlkubörn og er talið að ástæðan sé sú að stúlkufóstur sem eru arfhrein um þetta gallaða gen deyi á fósturskeiði. Þess má einnig geta að stúlka sem er arfberi um dreyrasýkigen getur verið með milda gerð af dreyrasýki, þótt hún verði ekki blæðari á sama hátt og piltur. Til eru ýmsar gerðir af dreyrasýki en þær eiga það allar sameiginlegt að gen fyrir tiltekið blóðstorkuprótín er gallað vegna stökkbreytingar. Algengustu gerðirnar eru A-dreyrasýki í um 90% tilfella og B-dreyrasýki í um 9% en þá eru genin fyrir blóðstorkuþátt XIII eða IX gölluð. Báðar þessar gerðir eru X-tengdar, það er genin eru á X-litningi. Hin tilfellin (1%) sem ekki falla undir þessar gerðir eru vegna stökkbreytinga í öðrum blóðstorkugenum. Tíðni dreyrasýki er um 1 af hverjum 4.000 karlmönnum en er mun sjaldgæfari og mildari í konum. Nánar má lesa um dreyrasýki í svari Páls Torfa Önundarsonar við spurningunni Er til lækning við dreyrasýki? og í svari Sifjar Jónsdóttur við spurningunni Hver eru tengsl dreyrasýki og erfða? Heimildir:
Geta konur verið með dreyrasýki eða eru þær alltaf bara arfberar?
Útgáfudagur
12.5.2005
Spyrjandi
Bylgja Sigurbjörnsdóttir, f. 1986
Tilvísun
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Geta konur verið með dreyrasýki eða eru þær alltaf bara arfberar?“ Vísindavefurinn, 12. maí 2005, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4998.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2005, 12. maí). Geta konur verið með dreyrasýki eða eru þær alltaf bara arfberar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4998
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Geta konur verið með dreyrasýki eða eru þær alltaf bara arfberar?“ Vísindavefurinn. 12. maí. 2005. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4998>.