Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Viðskiptabankar og aðrar innlánsstofnanir lána yfirleitt jafnharðan aftur út stóran hluta þess fjár sem þeir fá sem innlán. Útlánin eru yfirleitt til nokkurs tíma en innlánin að mestu óbundin. Þetta þýðir því óhjákvæmilega að bankarnir liggja ekki með nægilega sjóði til að endurgreiða öll innlán ef stór hluti þeirra sem hafa lagt fé inn krefst þess að fá féð aftur með skömmum fyrirvara. Þetta er á ensku kallað fractional reserve banking og vísar til þess að bankarnir liggja einungis með lítinn hluta innlána sem laust fé. Þetta er viðskiptavenja um allan heim, það er reglan í bankarekstri.
Undir venjulegum kringumstæðum gengur þetta upp. Sé banki vel rekinn og þyki traustur þá hafa innstæðueigendur enga ástæðu til að koma allir í einu og heimta innstæðurnar sínar.
Áhlaup á breska bankann Northern Rock árið 2007.
Lendi banki hins vegar í vandræðum, þannig að vafi leikur á að hann eigi fyrir skuldbindingum sínum getur hann orðið fyrir svokölluðu áhlaupi (e. bank run). Þá koma innstæðueigendur unnvörpum og taka út fé sitt. Þá getur gengið hratt á laust fé viðkomandi banka. Hann getur alla jafna ekki krafist þess að þeir sem fengið hafa lán í bankanum greiði þau upp í snatri og verður því að leita annað eftir lausu fé. Nái bankinn ekki að tryggja sér laust fé á markaði, til dæmis með því að taka lán í öðrum bönkum, gefa út skuldabréf eða selja eignir þá getur hann neyðst til að leita til viðkomandi seðlabanka.
Seðlabankar gegna hlutverki þrautalánveitanda (e. lender of last resort) í nútímafjármálakerfum. Þegar viðskiptabanki neyðist til að leita til seðlabanka þá metur sá síðarnefndi hvort hann eigi að koma bankanum til aðstoðar með láni eða með öðrum hætti. Önnur úrræði seðlabanka en lánveitingar eru meðal annars að leggja viðskiptabankanum til aukið eigið fé, taka yfir rekstur bankans eða að beita sér fyrir yfirtöku hans af hálfu annars banka sem er betur stæður.
Vegna þess að bankar lána mest af því fé út aftur sem inn í þá er lagt þá getur bankakerfið í heild í raun búið til peninga. Innlán eins verður að útláni til annars, sem verður fyrr eða síðar lagt aftur inn í banka. Þá er hægt að lána féð út aftur og þannig koll af kolli. Þetta er skýrt út í svari við spurningunni Hvernig eykst magn peninga í umferð í heiminum?
Dragi bankar úr útlánum af einhverjum ástæðum þá minnkar að sama skapi magn peninga í umferð í heiminum. Minni útlán til eins þýða minni innlán annars, sem þýðir aftur minni útlán og þannig koll af kolli.
Mynd:
Gylfi Magnússon. „Hvernig útskýrið þið það sem á ensku kallast „fractional reserve banking“?“ Vísindavefurinn, 2. desember 2008, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=49975.
Gylfi Magnússon. (2008, 2. desember). Hvernig útskýrið þið það sem á ensku kallast „fractional reserve banking“? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=49975
Gylfi Magnússon. „Hvernig útskýrið þið það sem á ensku kallast „fractional reserve banking“?“ Vísindavefurinn. 2. des. 2008. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=49975>.