Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getið þið sagt mér um flóðsvín?

Jón Már Halldórsson

Lengi vel áttu fræðimenn erfitt með að trúa því að flóðsvín (Hydrochoerus hydrochaeris) væru nagdýr, enda eru þau um 60 cm á herðakamb og vega um 50 kg. Fyrst í stað vildu þeir flokka þau í sömu ætt og fíla en eftir ítarlegar samanburðarrannsóknir virtust þau líkjast villinaggrísum í Suður-Ameríku og þess vegna sett í undirætt naggrísa. Frekari rannsóknir á steingervingum hafa sýnt að flóðsvín eiga sér langa sögu sem aðskilur þau frá naggrísum og hafa þau nú verið sett í sjálfstæða ætt, Hydrochoeridae. Áður fyrr var þessi ætt nokkuð tegundaauðug en nú eru flóðsvínin eini fulltrúi ættarinnar.

Latneska heitið á flóðsvíni er hydrochaeris sem þýðir vatnasvín, enda eru dýrin sérhæfð í vatnalífi. Alþýðlegt heiti dýrsins er capybara sem er spænsk afbökun skógarindjána í Amazonskóginum á heitinu capugna, sem merkir "höfðingi vatna og stranda", enda er kjörlendi flóðsvína kjarr og þéttur lággróður umhverfis vötn, fenjar og stórar ár þar sem þau éta ógrynni af vatnaplöntum, aldin og nýsprota af trjám.

Fenjasvínin virðast samt sem áður búa yfir talsverðri aðlögunarhæfni sem einkennir flestar tegundir nagdýraættbálksins. Sérstaklega hefur þeim tekist að laga sig að bithögum í nánd við mannabústaði.



Flóðsvín í dýragarðinum í Álaborg.

Flóðsvín eru rólyndisskepnur sem liggja langdvölum saman í vatni. Þau eru flugsynd og eiga auðvelt með að synda yfir straumharðar ár til að komast í námunda við betri bithaga. Þegar þeim er ógnað reyna þau að komast í vatn enda eiga þau ekki mikla möguleika gagnvart helsta óvini sínum, jagúarnum (Panthera onca) á þurru landi. Aðrir óvinir flóðsvína eru stórar kyrkislöngur á Amazonsvæðinu til dæmis anakonda.

Flóðsvín geta verið silaleg í hreyfingum á þurru landi en ef ógn steðjar að stökkva þau eins og hross í burtu, oftast í átt að vatni. Flóðsvín verjast einnig af hörku ef jagúar ræðst á þau og reyna að bíta óvinin með óárennilegum nagdýratönnunum sem geta skilið eftir sig djúp bitför.

Ólíkt langflestum öðrum nagdýrum grafa flóðsvínin sér ekki holur til að búa í heldur gera þau sér bæli í mestu hitunum yfir daginn í lággróðri. Þau þola illa mikinn hita og njóta þess oft að fara í leðjubað líkt og svín og fílar. Þau eru í eðli sínu dagdýr en í nánd við mannabyggðir hafa þau tileinkað sér næturlíf.

Flóðsvín halda til í smáum hópum (20-30 dýr) en svo virðist sem samskiptin innan hópsins séu afar losaraleg. Þau leika sér aldrei saman heldur eru "hvert í sínu horni" á beit eða í afslöppun. Eftir mökun fer gyltan að búa sér til bæli og fóðra það að innan með þurrum plöntuhlutum til dæmis grasi. Meðgöngutíminn er tiltölulega langur miðað við stærð, eða allt að 18 vikur. Got er einu sinni á ári og er gotstærðin vanalega 2-8 ungar. Þeir eru tiltölulega vel þroskaðir, sjáandi og hærðir og vega um eitt kíló. Fimm daga gamlir eru þeir komnir á beit með fullorðnu dýrunum. Þeir fylgja móður sinni eftir og eru að læra listina að lifa af, flýja, synda og kafa og ná sér í fæðu.



Flóðsvín og grísir.

Afar auðvelt er að halda flóðsvín þó ekki sé vitað til þess að þau hafi eignast afkvæmi í umsjón manna. Auðvelt er að fóðra þau, þau ganga allt að sjálfala í kringum bæi og á túnum og lifa á fersku grasi, berki og jafnvel berki varnsmelóna. Sem húsdýr reyna þau sjaldan að strjúka burt og eru því í alla staði afar auðveld viðfangs og skapgóð með afbrigðum og skynsöm. Auðvelt hefur reynst að kenna þeim. Í dýragörðum þekkja þau fólk í sundur á rödd eftir mjög skamman tíma og hlýða þegar þeim er sagt að koma eða jafnvel setjast eins og hundar.

Heimildir:

  • Nowak, R.M. and J.L. Paradiso. 1983. Walker's Mammals of the World, 4th edition. The Johns Hopkins University Press, Baltimore.
  • MacDonald, David (ritstjóri). 1993. The Encyclopedia of Mammals. Andromeda Oxford Limited.

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

12.5.2005

Spyrjandi

Ásgrímur Þ.

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um flóðsvín?“ Vísindavefurinn, 12. maí 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4997.

Jón Már Halldórsson. (2005, 12. maí). Hvað getið þið sagt mér um flóðsvín? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4997

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um flóðsvín?“ Vísindavefurinn. 12. maí. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4997>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um flóðsvín?
Lengi vel áttu fræðimenn erfitt með að trúa því að flóðsvín (Hydrochoerus hydrochaeris) væru nagdýr, enda eru þau um 60 cm á herðakamb og vega um 50 kg. Fyrst í stað vildu þeir flokka þau í sömu ætt og fíla en eftir ítarlegar samanburðarrannsóknir virtust þau líkjast villinaggrísum í Suður-Ameríku og þess vegna sett í undirætt naggrísa. Frekari rannsóknir á steingervingum hafa sýnt að flóðsvín eiga sér langa sögu sem aðskilur þau frá naggrísum og hafa þau nú verið sett í sjálfstæða ætt, Hydrochoeridae. Áður fyrr var þessi ætt nokkuð tegundaauðug en nú eru flóðsvínin eini fulltrúi ættarinnar.

Latneska heitið á flóðsvíni er hydrochaeris sem þýðir vatnasvín, enda eru dýrin sérhæfð í vatnalífi. Alþýðlegt heiti dýrsins er capybara sem er spænsk afbökun skógarindjána í Amazonskóginum á heitinu capugna, sem merkir "höfðingi vatna og stranda", enda er kjörlendi flóðsvína kjarr og þéttur lággróður umhverfis vötn, fenjar og stórar ár þar sem þau éta ógrynni af vatnaplöntum, aldin og nýsprota af trjám.

Fenjasvínin virðast samt sem áður búa yfir talsverðri aðlögunarhæfni sem einkennir flestar tegundir nagdýraættbálksins. Sérstaklega hefur þeim tekist að laga sig að bithögum í nánd við mannabústaði.



Flóðsvín í dýragarðinum í Álaborg.

Flóðsvín eru rólyndisskepnur sem liggja langdvölum saman í vatni. Þau eru flugsynd og eiga auðvelt með að synda yfir straumharðar ár til að komast í námunda við betri bithaga. Þegar þeim er ógnað reyna þau að komast í vatn enda eiga þau ekki mikla möguleika gagnvart helsta óvini sínum, jagúarnum (Panthera onca) á þurru landi. Aðrir óvinir flóðsvína eru stórar kyrkislöngur á Amazonsvæðinu til dæmis anakonda.

Flóðsvín geta verið silaleg í hreyfingum á þurru landi en ef ógn steðjar að stökkva þau eins og hross í burtu, oftast í átt að vatni. Flóðsvín verjast einnig af hörku ef jagúar ræðst á þau og reyna að bíta óvinin með óárennilegum nagdýratönnunum sem geta skilið eftir sig djúp bitför.

Ólíkt langflestum öðrum nagdýrum grafa flóðsvínin sér ekki holur til að búa í heldur gera þau sér bæli í mestu hitunum yfir daginn í lággróðri. Þau þola illa mikinn hita og njóta þess oft að fara í leðjubað líkt og svín og fílar. Þau eru í eðli sínu dagdýr en í nánd við mannabyggðir hafa þau tileinkað sér næturlíf.

Flóðsvín halda til í smáum hópum (20-30 dýr) en svo virðist sem samskiptin innan hópsins séu afar losaraleg. Þau leika sér aldrei saman heldur eru "hvert í sínu horni" á beit eða í afslöppun. Eftir mökun fer gyltan að búa sér til bæli og fóðra það að innan með þurrum plöntuhlutum til dæmis grasi. Meðgöngutíminn er tiltölulega langur miðað við stærð, eða allt að 18 vikur. Got er einu sinni á ári og er gotstærðin vanalega 2-8 ungar. Þeir eru tiltölulega vel þroskaðir, sjáandi og hærðir og vega um eitt kíló. Fimm daga gamlir eru þeir komnir á beit með fullorðnu dýrunum. Þeir fylgja móður sinni eftir og eru að læra listina að lifa af, flýja, synda og kafa og ná sér í fæðu.



Flóðsvín og grísir.

Afar auðvelt er að halda flóðsvín þó ekki sé vitað til þess að þau hafi eignast afkvæmi í umsjón manna. Auðvelt er að fóðra þau, þau ganga allt að sjálfala í kringum bæi og á túnum og lifa á fersku grasi, berki og jafnvel berki varnsmelóna. Sem húsdýr reyna þau sjaldan að strjúka burt og eru því í alla staði afar auðveld viðfangs og skapgóð með afbrigðum og skynsöm. Auðvelt hefur reynst að kenna þeim. Í dýragörðum þekkja þau fólk í sundur á rödd eftir mjög skamman tíma og hlýða þegar þeim er sagt að koma eða jafnvel setjast eins og hundar.

Heimildir:

  • Nowak, R.M. and J.L. Paradiso. 1983. Walker's Mammals of the World, 4th edition. The Johns Hopkins University Press, Baltimore.
  • MacDonald, David (ritstjóri). 1993. The Encyclopedia of Mammals. Andromeda Oxford Limited.
...