Fljótlega eftir að Einmana-Georg fannst var hann fluttur í Darwin-rannsóknastöðina (Charles Darwin research station) á eyjunni Santa Cruz. Í fjóra áratugi reyndu vísindamenn „björgunartilraun“ á deilitegundinni en Georg hafði ekki mikinn áhuga á þeim kvendýrum af öðrum deilitegundum sem hann hafði samneyti við. Þó fundust í einhver skipti egg sem Georg fjóvgaði en þau náðu því miður aldrei að klekjast út. Þar sem Einmana-Georg var eini fulltrúi undirtegundar sinnar byggja upplýsingar um stærð og líkamsgerð tegundarinnar á honum. Georg vóg um 90 kg og skjöldurinn á honum var um metri í þvermál. Vitað er að einstaklingar af öðrum deilitegundum Geochelone nigra geta orðið meira en 200 kg en algengt er að skjaldbökurnar séu um 150 kg. Vísindamenn eru ekki vissir um hversu gamall Georg var en telja að hann hafi verið um eða yfir 100 ára þegar hann dó. Ekki liggur ljóst fyrir hversu gamlar Pinta-skjaldbökur gátu orðið en talið er að einhverjar deilitegundir af risaskjaldbökum á Galapagoseyjum geti náð allt að 150 ára aldri. Heimildir og mynd:
- Ernst, C.H. og Roger W. Barbour. 1989. Turtles of the World. The Smithsonian Institution Press.
- Halliday, T. og Dr. Kraig Adler. 1986. The Encyclopedia of Reptiles and Amphibians. Facts on File, Inc.
- Pinta giant tortoise á Charles Darwin Foundation. Skoðað 10. nóvember 2008.
- Galapagos giant tortoise á Galapagos Conservation Trust. Skoðað 10. nóvember 2008.
- Alonso Soto. Lonesome George may end bachelor days on Galapagos. Reuters, 22. júlí 2008. Skoðað 10. nóvember 2008.
- Mynd: Futura-Environnement. Upphaflega frá Chelonian Research Foudation. Sótt 11. nóvember 2008.
Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Hvað getur Pinta-skjaldbakan orðið stór? Hvar fannst hún og hvar er hún geymd? Og hvað getur hún orðið gömul?
Þetta svar birtist upprunalega 12.11.2008 en var uppfært 29.6.2012.