Vopnin snúast nú í höndum Sælokks og tilraunir hans til að fá einhverjar bætur fara út um þúfur. Þess í stað fær hann náðarsamlegast að halda lífinu að skipan hertogans í Feneyjum. Ennfremur er ákvarðað að dóttir hans og kristinn tengdasonur muni erfa helming eigna hans og að auki er Sælokk látinn greiða sekt í ríkissjóð. Hann er einnig neyddur til að kasta trú sinni og gerast kristinn. Leikritið Kaupmaður í Feneyjum (1596-1597) hefur verið túlkað á ýmsa vegu. Fræðimenn hafa bæði fjallað um andgyðingleg viðhorf í verkinu og vinveitt viðhorf til gyðinga, sérstaklega með hliðsjón af frægustu einræðu verksins, þar sem meðal annars segir þetta á frummálinu:
I am a Jew. Hath not a Jew eyes? hath not a Jew hands, organs, dimensions, senses, affections, passions? fed with the same food, hurt with the same weapons, subject to the same diseases, healed by the same means, warmed and cooled by the same winter and summer, as a Christian is? (3.1.)Snemma á 17. öld voru um 35.000 gyðingar á Ítalíu. Þeir fluttust þangað í nokkrum mæli frá Þýskalandi á 14. og 15. öld og seinna frá Spáni og Portúgal. Gyðingar störfuðu helst við lánaviðskipti, við verslun með notuð föt, sem gullsmiðir og einnig sem læknar. Gyðingar bjuggu iðulega í sérstökum hverfum sem nefndust gettó. Frá og með upphafi 16. aldar var þeim beinlínis skylt að búa í gettóum í ítölskum borgum. Þeim var einnig gert að skera sig úr í klæðaburði, til dæmis með því að bera rauðan eða gulan hatt. Annað velþekkt leikrit frá sama tíma þar sem gyðingur er í aðalhlutverki er The Jew of Malta (um 1589) eftir Christopher Marlowe. Spurningin hljóðaði upprunalega svona:
Spurning mín er um Shylock, aðalpersónuna í leikriti Shakespeares, Kaupmaður í Feneyjum. Hann var svikinn þegar dómurinn var kveðinn upp en hver var dómurinn nákvæmlega?Heimildir og mynd:
- William Shakespere; Kaupmaður í Feneyjum, (þýð. Helgi Hálfdanarson), í Leikrit VI, Mál og menning, Reykjavík, 1991.
- William Shakespeare, Merchant of Venice
- J. R. Hale (ritstj.), The Thames and Hudson Dictionary of the Italian Renaissance, Thames and Hudson, London, 1981.
- IGN.com