Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var fyrsti kvikmyndaleikstjórinn?

Björn Ægir Norðfjörð

Þessu er ekki auðsvarað því að í spurningunni er fólgin önnur vandmeðfarin spurning: Hvað er kvikmyndaleikstjóri? Það er alveg ljóst að þeir sem stýrðu kvikmyndatökuvélunum í fyrstu kvikmyndunum sem gerðar voru litu ekki á sig sem leikstjóra í þeirri merkingu sem við leggjum í orðið í dag. Þeir voru fyrst og fremst ljósmyndarar og/eða uppfinningamenn, á borð við Auguste og Louis Lumière-bræður í Frakklandi og W. K. L. Dickson, starfsmann Thomas Edisons, í Bandaríkjunum, sem voru einfaldlega að prufukeyra þau tækniundur sem þeir voru að þróa. En jafnvel þótt þessir einstaklingar hafi ekki litið á sig sem kvikmyndaleikstjóra mátti fljótt greina ólíkt handbragð á myndum þeirra. Það kemur skýrast fram með því að setja hlið við hlið raunsæi Lumière-bræðra og fantasíuheim landa þeirra Georges Méliès – þetta eru listamenn sem beita miðlinum með mjög ólíkum hætti. Í því ljósi mætti kannski kalla þá leikstjóra en viðmið þeirra eiga sér rætur í öðrum miðlum en kvikmyndum – ljósmyndum hjá Lumière-bræðrum en leikhúsinu og töfrabrögðum hjá Méliès.

Þótt að þáttur hans í kvikmyndasögunni kunni að vera ofmetinn hlýtur Bandaríkjamaðurinn D. W. Griffith að teljast fyrsti óumdeildi kvikmyndaleikstjóri sögunnar. Hin fræga mynd hans The Birth of a Nation (1915) átti stóran þátt í hefja kvikmyndagerð til vegs og virðingar í líkingu við aðrar listir og var ljóslega stýrt af leikstjóra með einstaka sýn á kvikmyndamiðilinn. Í myndinni kom aftur á móti fram afar vafasöm hugmyndafræði. Ku Klux Klan samtökin voru hafin til skýjanna og til umfjöllunar var barátta þeirra gegn ímynduðum yfirgangi blökkumanna í suðurríkjum Bandaríkjanna. Griffith var forviða á gagnrýninni sem kynþáttapólitík myndarinnar hlaut og svaraði henni með einhverri metnaðarfyllstu mynd sem nokkru sinni hefur verið gerð, Intolerance (1916). Í þeirri mynd er flakkað á milli fjögurra sögulegra tímabili í þematískri útleggingu á umburðarleysi. Leikstjórinn birtist því ekki aðeins í handbragði kvikmyndagerðarmannsins Griffith heldur einnig í því sem hann hefur að segja.

Í kjölfar Griffith voru fjölmargir leikstjórar hafnir til vegs og virðingar bæði í Bandaríkjunum og Evrópu, til dæmis Cecil B. De Mille, Charlie Chaplin, Abel Gance, Fritz Lang og Sergei Eisenstein, og hefur í því sambandi verið rætt um gullöld þöglu myndarinnar. Með tilkomu talmyndarinnar undir lok þriðja áratugarins minnkaði frelsi kvikmyndaleikstjóra nokkuð og kvikmyndagerð tók meira mið af leikhúsi en áður.

Óhætt er að segja að í engri annarri listgrein séu átök iðnaðar og einstaklinga jafn áberandi og í kvikmyndagerð. Sérstaklega þóttu kvikmyndir gerðar í Hollywood formúlukenndar og ólistrænar. Á þessu sjónarmiði varð nokkur breyting á 6. áratugnum fyrir tilstuðlan ungra franskra gagnrýnenda á borð við François Truffaut, Jean-Luc Godard, Claude Chabrol og Eric Rohmer sem fjölluðu um kvikmyndir í hinu virta tímariti Cahiers du cinéma og áttu síðar eftir að verða virtir og frægir leikstjórar. Sem gagnrýnendur hömpuðu þeir leikstjórum á borð við John Ford og Alfred Hitchcock sem ljáðu myndum sínum persónuleg einkenni jafnvel þótt að þeir störfuðu í Hollywood-iðnaðinum, og kölluðu þá „auteurs“ eða kvikmyndahöfunda. Mörgum þykja þetta vera hinir eiginlegu kvikmyndaleikstjórar. Skör lægra skipuðu þeir leikstjórum mynda sem báru ekki sérstök einkenni höfundar síns jafnvel þótt myndirnar sjálfar gætu verið stórgóðar (líkt og Casablanca í leikstjórn Michael Curtiz).

Segja má að skilningur Truffaut og félaga á kvikmyndaleikstjóranum ráði ríkjum enn þann dag í dag. Allajafna lítum við á leikstjórann sem höfund kvikmyndar fremur en bæði framleiðanda (jafnvel þegar hann fer með völdin) og handritshöfund (jafnvel þótt hann semji söguna sem kvikmynduð er). Það er þó full ástæða til að velta því fyrir sér hvort framlag leikstjórans í hefðbundinni kvikmyndaframleiðslu sé að einhverju leyti ofmetið. Er til að mynda svo mikill munur á kvikmyndum vinsælustu Hollywood-leikstjóranna og myndum við þekkja kennimark Michael Bay eða Steven Spielberg ef okkur væri ekki velkunnugt um að þeir væru leikstjórar mynda sinna sakir umfangsmikillar markaðssetningar? Leikstjórar eru í dag orðnar stjörnur á borð við vinsælustu leikarana en ekki er víst að þeir hafi sömu yfirráð yfir myndum sínum og Griffith þegar hann gerði sínar þekktustu myndir fyrir rétt tæpri öld.

Heimildir:
  • François Truffaut, „Ákveðin hneigð í franskri kvikmyndagerð,“ þýð. Guðrún Jóhannesdóttir, í Áfangar í kvikmyndafræðum, ritstj. Guðni Elísson. Reykjavík: Forlagið, 2003.
  • John Caughie, ritstj. Theories of Authorship: A Reader. New York: Routledge, 1981.
  • Tom Gunning, D. W. Griffith & the Origins of American Narrative Film: The Early Years at Biograph. Chicago: Universtiy of Illinois Press, 1991.

Myndir:

Höfundur

lektor í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

16.9.2010

Spyrjandi

Egill Bjarni Vikse Helgason

Tilvísun

Björn Ægir Norðfjörð. „Hver var fyrsti kvikmyndaleikstjórinn?“ Vísindavefurinn, 16. september 2010, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=49428.

Björn Ægir Norðfjörð. (2010, 16. september). Hver var fyrsti kvikmyndaleikstjórinn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=49428

Björn Ægir Norðfjörð. „Hver var fyrsti kvikmyndaleikstjórinn?“ Vísindavefurinn. 16. sep. 2010. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=49428>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var fyrsti kvikmyndaleikstjórinn?
Þessu er ekki auðsvarað því að í spurningunni er fólgin önnur vandmeðfarin spurning: Hvað er kvikmyndaleikstjóri? Það er alveg ljóst að þeir sem stýrðu kvikmyndatökuvélunum í fyrstu kvikmyndunum sem gerðar voru litu ekki á sig sem leikstjóra í þeirri merkingu sem við leggjum í orðið í dag. Þeir voru fyrst og fremst ljósmyndarar og/eða uppfinningamenn, á borð við Auguste og Louis Lumière-bræður í Frakklandi og W. K. L. Dickson, starfsmann Thomas Edisons, í Bandaríkjunum, sem voru einfaldlega að prufukeyra þau tækniundur sem þeir voru að þróa. En jafnvel þótt þessir einstaklingar hafi ekki litið á sig sem kvikmyndaleikstjóra mátti fljótt greina ólíkt handbragð á myndum þeirra. Það kemur skýrast fram með því að setja hlið við hlið raunsæi Lumière-bræðra og fantasíuheim landa þeirra Georges Méliès – þetta eru listamenn sem beita miðlinum með mjög ólíkum hætti. Í því ljósi mætti kannski kalla þá leikstjóra en viðmið þeirra eiga sér rætur í öðrum miðlum en kvikmyndum – ljósmyndum hjá Lumière-bræðrum en leikhúsinu og töfrabrögðum hjá Méliès.

Þótt að þáttur hans í kvikmyndasögunni kunni að vera ofmetinn hlýtur Bandaríkjamaðurinn D. W. Griffith að teljast fyrsti óumdeildi kvikmyndaleikstjóri sögunnar. Hin fræga mynd hans The Birth of a Nation (1915) átti stóran þátt í hefja kvikmyndagerð til vegs og virðingar í líkingu við aðrar listir og var ljóslega stýrt af leikstjóra með einstaka sýn á kvikmyndamiðilinn. Í myndinni kom aftur á móti fram afar vafasöm hugmyndafræði. Ku Klux Klan samtökin voru hafin til skýjanna og til umfjöllunar var barátta þeirra gegn ímynduðum yfirgangi blökkumanna í suðurríkjum Bandaríkjanna. Griffith var forviða á gagnrýninni sem kynþáttapólitík myndarinnar hlaut og svaraði henni með einhverri metnaðarfyllstu mynd sem nokkru sinni hefur verið gerð, Intolerance (1916). Í þeirri mynd er flakkað á milli fjögurra sögulegra tímabili í þematískri útleggingu á umburðarleysi. Leikstjórinn birtist því ekki aðeins í handbragði kvikmyndagerðarmannsins Griffith heldur einnig í því sem hann hefur að segja.

Í kjölfar Griffith voru fjölmargir leikstjórar hafnir til vegs og virðingar bæði í Bandaríkjunum og Evrópu, til dæmis Cecil B. De Mille, Charlie Chaplin, Abel Gance, Fritz Lang og Sergei Eisenstein, og hefur í því sambandi verið rætt um gullöld þöglu myndarinnar. Með tilkomu talmyndarinnar undir lok þriðja áratugarins minnkaði frelsi kvikmyndaleikstjóra nokkuð og kvikmyndagerð tók meira mið af leikhúsi en áður.

Óhætt er að segja að í engri annarri listgrein séu átök iðnaðar og einstaklinga jafn áberandi og í kvikmyndagerð. Sérstaklega þóttu kvikmyndir gerðar í Hollywood formúlukenndar og ólistrænar. Á þessu sjónarmiði varð nokkur breyting á 6. áratugnum fyrir tilstuðlan ungra franskra gagnrýnenda á borð við François Truffaut, Jean-Luc Godard, Claude Chabrol og Eric Rohmer sem fjölluðu um kvikmyndir í hinu virta tímariti Cahiers du cinéma og áttu síðar eftir að verða virtir og frægir leikstjórar. Sem gagnrýnendur hömpuðu þeir leikstjórum á borð við John Ford og Alfred Hitchcock sem ljáðu myndum sínum persónuleg einkenni jafnvel þótt að þeir störfuðu í Hollywood-iðnaðinum, og kölluðu þá „auteurs“ eða kvikmyndahöfunda. Mörgum þykja þetta vera hinir eiginlegu kvikmyndaleikstjórar. Skör lægra skipuðu þeir leikstjórum mynda sem báru ekki sérstök einkenni höfundar síns jafnvel þótt myndirnar sjálfar gætu verið stórgóðar (líkt og Casablanca í leikstjórn Michael Curtiz).

Segja má að skilningur Truffaut og félaga á kvikmyndaleikstjóranum ráði ríkjum enn þann dag í dag. Allajafna lítum við á leikstjórann sem höfund kvikmyndar fremur en bæði framleiðanda (jafnvel þegar hann fer með völdin) og handritshöfund (jafnvel þótt hann semji söguna sem kvikmynduð er). Það er þó full ástæða til að velta því fyrir sér hvort framlag leikstjórans í hefðbundinni kvikmyndaframleiðslu sé að einhverju leyti ofmetið. Er til að mynda svo mikill munur á kvikmyndum vinsælustu Hollywood-leikstjóranna og myndum við þekkja kennimark Michael Bay eða Steven Spielberg ef okkur væri ekki velkunnugt um að þeir væru leikstjórar mynda sinna sakir umfangsmikillar markaðssetningar? Leikstjórar eru í dag orðnar stjörnur á borð við vinsælustu leikarana en ekki er víst að þeir hafi sömu yfirráð yfir myndum sínum og Griffith þegar hann gerði sínar þekktustu myndir fyrir rétt tæpri öld.

Heimildir:
  • François Truffaut, „Ákveðin hneigð í franskri kvikmyndagerð,“ þýð. Guðrún Jóhannesdóttir, í Áfangar í kvikmyndafræðum, ritstj. Guðni Elísson. Reykjavík: Forlagið, 2003.
  • John Caughie, ritstj. Theories of Authorship: A Reader. New York: Routledge, 1981.
  • Tom Gunning, D. W. Griffith & the Origins of American Narrative Film: The Early Years at Biograph. Chicago: Universtiy of Illinois Press, 1991.

Myndir: