Með ormagöngum er yfirleitt átt við tengingu á milli tveggja staða í okkar alheimi. Með því að fara inn um annan endann, sem væri svarthol, mætti hugsanlega koma út á öðrum stað í alheiminum eftir stutt ferðalag. Tilvist ormaganga er í samræmi við almennu afstæðiskenninguna en ef þau eru til í raun og veru er afar ólíklegt að það sé hægt að nota þau til ferðalaga. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú að þau væru svo skammlíf að ekkert, meira að segja ekki ljósið, næði að fara í gegnum þau, áður en þau féllu saman.
Það má hugsa sér alheiminn sem eins konar yfirborð blöðru sem er sífellt að þenjast úr. Ef einhver ætlaði að ferðast á hina hlið blöðrunnar gæti hann farið eftir yfirborði blöðrunnar. En svo mætti líka ímynda sér að hægt væri að fara beint í gegnum blöðruna, líkt og þegar ormur á epli étur sig í gegnum það og kemur út hinu megin. Það eru ormagöng. Frekara lesefni:
- Hvað eru ormagöng?
- Hvað er svarthol?
- Hverfur allt sem fer inn í svarthol eða kemur eitthvað út úr þeim aftur?
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.