Þegar sólin skín sendir hún ljósgeisla sína til okkar gegnum lofthjúp jarðar. Gastegundirnar í lofthjúpnum valda því að þeir endurkastast á mismunandi hátt og af þessu endurkasti hlýst guli liturinn á sólinni. Þannig virðist sólin gul þegar hún er hátt á lofti en rauðleit við sólarupprás eða sólsetur. Þegar sólin er lágt á lofti, eins og á myndinni hér fyrir ofan, þarf sólarljósið að ferðast í gegnum þykkara loft og dreifist meira. Sama á við um tunglið eins og Ari Ólafsson bendir á í svari við spurningunni Af hverju er himinninn blár?:
Tunglið endurvarpar til okkar sólarljósi sem á það fellur, og hefur því í meginatriðum sömu litasamsetningu. Tunglið er gulleitt hátt á lofti en rauðleitara við sjóndeildarhring þar sem lofthjúpur jarðar hefur dreift bláa litnum úr geislunum. Tunglskinið er hins vegar svo sterkt að við verðum ekki vör við blámóðuna milli okkar og ljósgjafans, enda er sól þá gjarnan sest.Frekari fróðleik um sólina má finna á Stjörnufræðivefnum. Á Vísindavefnum eru fjölmörg svör um sólina, jörðina og sólkerfið, sem lesandinn getur fundið með því að smella á efnisorðin hér fyrir neðan. Mynd: Russian-American Long-term Census of the Arctic