Mengun í Reykjavíkurtjörn í dag má rekja til nokkurra þátta auk athafna og umgengni manna fyrr á tímum. Helsti uppruni næringarefna- og málmmengunar nú til dags er rakin til ofanvatns sem berst í Tjörnina, einkum frá umferðargötum, og til lífrænnar ákomu frá fuglum. Saurmengun er rakin til fuglalífs og skólplosunar, sem líklega er frá flugvallarsvæðinu. Einnig er talin hætta á að mengun berist frá flugvallarsvæðinu vegna notkunar á afísingarefnum og olíu. Það er lítil prýði að Tjörninni í Reykjavík í þessu ástandi og í skýrslunni er bent á nokkur atriði sem hægt er að skoða til þess að bæta þar úr. Meðal þess sem hægt er að gera er að taka fyrir rennsli á óhreinsuðu ofanvatni af götum út í Tjörnina og ganga úr skugga um hvort saurmengað yfirborðsvatn frá flugvallarsvæðinu berist í Tjörnina. Ef það er raunin þarf að ráða bót á því með einhverjum hætti. Einnig er bent á að skoða þurfi hvort hægt sé að endurheimta síkjamara, en það er háplanta sem nú er horfin úr Tjörninni, en skiptir mjög miklu máli fyrir efnabúskap og lífríki vatna. Rauði liturinn á Rauðavatni stafar einmitt af síkjamara eins og hægt er að lesa um í svari við spurningunni Hvað er þetta rauða sem er á Rauðavatni í Reykjavík?. Þá er bent á þann möguleika að fjarlægja efstu 50–60 cm af setlagi botnsins úr Tjörninni þar sem það er mjög mengað. Loks er lagt til að Reykjavíkurborg hætti að fóðra fugla á Tjörninni þar sem brauðgjöf hangir saman við úrgangslosun frá fuglunum og ýtir undir örveruflóruna. Áhugasömum er bent á að kynna sér skýrsluna um ástand Reykjavíkurtjarnar þar sem fjallað er nánar um einstaka mengunarþætti og hvernig hægt er að bregðast við þeim. Mynd: Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:
Hvers vegna er Tjörnin í Reykjavík alltaf með kúki og pissi og öðrum óhreinindum og af hverju er það ekki hreinsað? Öndunum líður mjög illa þarna.