Ókyrrð í háloftum má líka finna nálægt skúraklökkum (cumulonimbus) en skýjatoppar þeirra geta náð allt upp að veðrahvörfum. Það má yfirleitt gera ráð fyrir ókyrrð í allt að 30 km fjarlægð frá skúraklökkum. Inni í sjálfum skúraklökkunum er mikil lóðrétt hreyfing. Í stað þess að lóðréttur vindhraði sé af stærðargráðunni cm/s getur lóðréttur vindhraði verið af sömu stærðargráðu og láréttur vindur, það er m/s, eða 100 sinnum meiri en utan skúraklakkans! Eins getur myndast ókyrrð yfir yfirborði sem hitnar mikið á sólríkum dögum, þá kölluð vermikvika. Þegar yfirborðið hitnar geislar það hitanum út, loftið við yfirborð hlýnar og stígur upp vegna þess að hlýtt loft er léttara en kalt. Til að ekki myndist lofttæmi verður annað loft að koma í staðinn frá hliðunum. Þetta loft hlýnar svo vegna hlýs yfirborðs og stígur og svo framvegis. Við þessar aðstæður myndast oft bólstraský (cumulus), sem er ástæðan fyrir að þau ganga líka undir nafninu góðviðrisský. Við fjöll getur myndast ókyrrð, aflkvika, við að loftið er þvingað yfir fjallið og það myndast fjallabylgjur hlémegin við fjallið. Flugkvika er samheiti yfir ókyrrð sem hefur áhrif á fluglag, það getur því verið hver af ofantöldum kvikutegundum; heiðkvika, vermikvika eða aflkvika. Flugkviku er skipt upp í fjóra flokka eftir því hve mikil hún er; lítil, miðlungs, mikil eða mjög mikil. Þessir flokkar eru ekki skilgreindir út frá nákvæmum mælingum heldur hvaða áhrif flugkvikan hefur á hreyfingar flugvéla. Frekarið fróðleikur á Vísindavefnum:
- Eru til margar gerðir skýja? eftir Sigrúnu Karlsdóttur
- Af hverju er vindur? eftir Harald Ólafsson
- University Corporation for Atmospheric Research. Höfundur: Benjamin Foster. Sótt 13. 10. 2009.
Hér er einnig svarað spurningunni:
Af hverju myndast ókyrrð í flugi? Hvers vegna myndast mikil ókyrrð í heiðskíru lofti?