Fyrsti Zork-leikurinn kom út árið 1980, áður en grafísk viðmót ruddu sér til rúms, og var spilaður með því að lesa lýsingar af skjá og gefa textaskipanir um næsta leik. Zork var ævintýraleikur þar sem leikmenn ráfuðu um í dýflissu, söfnuðu fjársjóðum, og reyndu að komast aftur út lifandi. Leikurinn vakti athygli fyrir góða sögumennsku og hversu vel honum tókst að skilja textaskipanir leikmanna, en þær mátti slá inn sem einfaldar setningar á ensku.
Til að bregðast við þessu datt hönnuðunum í hug að bæta skrímslum við í leikinn, og þau voru kölluð grue eftir verum úr lítt þekktum skáldsögum eftir bandaríska höfundinn John Holbrook Vance (f. 1916), sem gaf út flestar sínar bækur sem Jack Vance. Þessi skrímsli voru hryllileg martraðakvikindi sem höfðu þó þann Akkillesarhæl að vera ljósfælin. Ef leikmaður reyndi að þreifa sig áfram um illa lýst svæði voru miklar líkur á að enda í kjaftinum á einu þessara skrímsla, en ef hann var hins vegar með einhvers konar ljósgjafa með sér gat hann sloppið óhultur í gegn.
Vegna vinsælda Zork á sínum tíma eiga leikurinn og grue-skrímslin vísan stað í hjörtum margra tölvuáhugamanna af eldri kynslóðinni. Þau koma fyrir í ýmsum einkabröndurum og tilvísunum á borð við viðvörunina sem birtist þegar leikmenn reyna að ráfa um í myrkri: „Það er niðamyrkur. Líklegt er að þú verðir étinn af grue.“ Yngri áhugamenn um tölvuleiki geta þó líka fengið að ráfa um dýflissur og forðast skrímsli sem búa í myrkrinu. Vegna aldurs eru fyrstu Zork-leikirnir gefnir þeim sem vilja gegnum Netið, og vegna þess að þeir voru hannaðir fyrir talsvert aflminni vélar en eru algengar í dag hefur áhugamönnum tekist að búa til útgáfur af leikjunum sem má spila á ýmsum tegundum farsíma. Heimildir, myndir og ítarefni: