Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Lýsingarorðið óhultur merkir ‘öruggur, sá sem ekki er í hættu’ og eru elstu dæmi um það í söfnum Orðabókar Háskólans frá því á 18. öld í orðabókarhandriti Jóns Ólafssonar úr Grunnavík. Sama er að segja um lýsingarorðið hultur sem notað er í sömu merkingu. Aðeins óhultur er notað í latnesk-íslenskri orðabók Jóns Árnasonar biskups frá 1738 og hvorugt orðanna kemur fyrir í orðabók Guðmundar Andréssonar frá 1683. Eitt dæmi fannst í orðabókarhandriti frá 18. öld. Í orðabók Björns Halldórssonar, sem samin var á 18. öld en gefin út 1814, er aðeins orðið óhultur. Það virðist því sem bæði orðin hafi komið fram í málinu á 18. öld.
Orðið hultur hefur verið tengt sögninni hylja. Hultur er eitt af þeim orðum sem breyta ekki um merkingu þó að ó- sé skeytt fyrir framan það. Að vera óhultur merkir að vera öruggur og það sama má segja um orðið hultur.
Ásgeir Blöndal Magnússon tengir hultur sögninni að hylja en telur merkingar- og hljóðþróun óljósa, orðið hultur sé ef til vill komið úr eldra huldur (lh.þt. af hylja), samanber fara huldu höfði (Íslensk orðsifjabók 1989:388).
Þótt forskeytið ó- breyti yfirleitt merkingu orðs þannig að hún verður jákvæð eða neikvæð eftir atvikum (latur – ólatur, gagn – ógagn, fær – ófær) eru dæmi um að merking breytist lítið. Sem dæmi mætti nefna hljóð – óhljóð, læti – ólæti. Orðin hultur og óhultur eru dæmi um að merking breytist ekkert.
Spurningin hljóðaði upprunalega svona:
Hvað merkir lýsingarorðið óhultur? Er orðið "hultur" gamalt orð sem horfið er úr íslensku?
Guðrún Kvaran. „Hvað merkir lýsingarorðið óhultur og er líka hægt að vera hultur?“ Vísindavefurinn, 10. september 2008, sótt 12. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=48505.
Guðrún Kvaran. (2008, 10. september). Hvað merkir lýsingarorðið óhultur og er líka hægt að vera hultur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=48505
Guðrún Kvaran. „Hvað merkir lýsingarorðið óhultur og er líka hægt að vera hultur?“ Vísindavefurinn. 10. sep. 2008. Vefsíða. 12. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=48505>.