Skammstöfun LIBOR stendur fyrir London Interbank Offered Rate. Hún vísar til þeirra vaxta sem bjóðast á lánum á millibankamarkaði í London. Reiknaðir eru LIBOR-vextir fyrir nokkra af helstu gjaldmiðlum heims. Sem dæmi má nefna að þann 24. febrúar 2005 voru LIBOR-vextir til eins mánaðar í evrum 2,10%, í pundum 4,85% og í dollurum 2,67%. Einnig eru reiknaðir LIBOR-vextir miðað við annan lánstíma, allt frá einum degi til árs. Vextirnir eru gefnir upp á ársgrundvelli. Þótt vextirnir séu reiknaðir út miðað við kjör í London þá er stuðst við þá miklu víðar.
LIBOR-vextirnir gefa til kynna lánskjör í viðskiptum mjög traustra banka en aðrir lántakendur þurfa alla jafna að greiða hærri vexti. Þá er talað um álag á LIBOR. Álagið er reiknað í svokölluðum punktum en hver punktur er einn hundraðasti úr prósentustigi. Þannig gæti til dæmis lítill banki þurft að greiða 20 punkta álag á LIBOR-vexti. Honum stæðu þá til dæmis til boða lán í dollurum með 2,67% + 0,20% eða 2,87% vöxtum til eins mánaðar, á ársgrundvelli. Allra bestu lántakendur geta síðan jafnvel fengið lán með lægri vöxtum en LIBOR.
Á Íslandi eru stundum notaðir hliðstæðir vextir, kallaðir REIBOR. REIBOR stendur fyrir Reykjavík Interbank Offered Rate og táknar millibankavexti í krónum á Íslandi. Þann 24. febrúar 2005 voru REIBOR-vextir til eins mánaðar 8,625%.
Einnig er til viðmiðið REIBID. Það er skammstöfun fyrir Reykjavík Interbank Bid Rate. Munurinn liggur í því að REIBOR eru útlánsvextir en REIBID innlánsvextir. REIBID-vextir eru því alltaf aðeins lægri en REIBOR-vextir. Þennan sama dag voru REIBID-vextir til eins mánaðar 8,475%, það er 15 punktum (0,15%) lægri en REIBOR. Hliðstæða REIBID í London er LIBID.
Frekara lesefni um vexti á Vísindavefnum:
- Lækkar krónan ef vextir banka hækka? eftir Gylfa Magnússon
- Hvað eru flatir vextir? eftir Gylfa Magnússon
- Hvað eru stýrivextir? eftir Gylfa Magnússon