- Hvað borða maríubjöllur?
- Hvar finn ég upplýsingar um maríubjöllu á netinu?
- Eru maríuhænur á Íslandi?
a) Lirfa mexíkósku baunabjöllunnar (Epilachna varivestis).
b) Fullorðin bjalla sömu tegundar. Tvær tegundir maríubjallna lifa hér á landi, maríuhæna (Coccinella undecimpunctata) og maríutítla (Scymus limonii). Nokkrar aðrar tegundir hafa fundist hér en þær hafa sjálfsagt borist með vörum erlendis frá og lifa hér ekki að staðaldri. Maríuhæna er um 4 mm á lengd með svart höfuð og á skjaldvængjum eru ellefu svartir dílar eins og tegundaheitið undecimpunctata vísar til. Reyndar eru blettirnir undantekningalaust færri hjá íslenskum maríuhænum þar sem þeir hafa runnið saman með þeim afleiðingum að það eru stórar og óreglulegar svartar skellur á skjaldvængjunum. Maríuhænur í norðanverðri Skandinavíu hafa einnig samvaxnar skellur og hafa menn fært rök fyrir því að samband sé á milli litaafbrigða og veðurfars. Þetta á einnig við um önnur dýr með misheitt blóð en talið er að dýr á suðlægum breiddargráðum séu ljósari en einstaklingar sömu tegundar á norðlægari svæðum þar sem svartur litur gleypir betur sólarljós og sólarljósið er mun takmarkaðra því lengra sem farið er frá miðbaug. Íslenskar maríuhænur eru venjulega á ferli frá því snemma á vorin (apríl) og fram í september. Þær verpa fyrri hluta sumars og lirfurnar eru fullvaxnar og púpa sig í ágúst. Bjöllurnar skríða úr púpu snemma hausts og leggjast síðan í dvala þegar kólna tekur. Maríuhænur finnast víða í gróðurlendi hér á landi en eru þó algengastar í skóglendi. Þær leita mjög í birki og veiða blaðlýs. Maríutítla er mun minni en maríuhæna eða aðeins um 2 mm á lengd og með einn aflangan rauðan flekk á hvorum skjaldvæng. Hún finnst á láglendi um allt land. Á veraldarvefnum er mikill fjöldi síðna um maríubjöllur, bæði þar sem fjallað er almennt um ættina og eins um bjöllur á einstökum svæðum. Heppilegustu leitarorðin eru annað hvort Coccinellidae sem er ættarheitið yfir maríubjöllur eða enska heitið ladybird beetle. Hér fyrir neðan eru tilgreindar tvær síður en áhugasömum lesendum er látið eftir að finna aðrar.
- Coleoptera: Coccinellidae - University of Florida, Dept of Entomology & Nematology
- Ladybird Beetles - FAMILY COCCINELLIDAE - Brisbane Insects and Spiders Home Page
- Erling Ólafsson 1991. Íslenskt skordýratal. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar.
- Erling Ólafsson. 1976. "Maríudeplugengdar í NV-Evrópu verður vart á Íslandi". Náttúrufræðingurinn, 46 (3).
- James Castner, University of Florida
- Cotton Insect Corner