Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það er erfitt að meta hvaða geitungategund er hættulegust, enda ekki alveg ljóst við hvað er átt. Hér verður einfaldlega farin sú leið að fjalla um þá geitungategund sem hefur hvað flest mannslíf á “samviskunni” en það er asíski risageitungurinn (Vespa mandarinia, e. giant asian hornet). Að meðaltali deyja árlega um 40 manns af hans völdum.
Það er þó vert að gera ákveðna fyrirvara áður en lengra er haldið. Í fyrsta lagi gekk illa að finna upplýsingar um hversu mörg dauðsföll má rekja til einstakra tegunda geitunga þannig að hugsanlega eru einhverjar aðrar tegundir sem verða fleirum að bana. Í öðru lagi geta einhverjar geitungategundir verið hættulegri en aðrar þó færri menn deyji af völdum þeirra árlega. Það skiptir nefnilega máli á hversu þéttbýlum svæðum geitungategundin lifir.
Vespa mandarinia eða asíski risageitungurinn er meðal allra stærstu geitunga.
Heimkynni asíska risageitungsins eru í Austur-Asíu, nánar tiltekið í Japan, Kína, í Prímorskí-héraði Rússlands og á Kóreuskaga. Auk þess teygir hann útbreiðslu sína suðvestur eftir Asíu, í þétta skóga Indókína og Tævan. Tegundin er þó langalgengust í fjalllendi Japans.
Eins og nafnið gefur til kynna er asíski risageitungurinn stór. Þernurnar eru 25-45 mm á lengd en drottningin getur verið allt að 55 mm löng. Til samanburðar má geta þess að drottning trjágeitungs (Vespula vulgaris) sem meðal annars lifir í íslenskri náttúru, er 11-14 mm á stærð. Broddur asíska geitungsins er einnig tilkomumikill eða um 6 mm langur og geta stungurnar og ofnæmisviðbrögðin sem af þeim hljótast verið afar óþægileg. Japanskur skordýrafræðingur sem var við rannsóknir á asíska risageitungnum lenti í því að vera stunginn í löppina. Hann lýsti stungunni þannig að það væri eins og “glóandi nagli hefði verið rekinn í fótlegginn”.
Asíski risageitungurinn er rándýr og lifir meðal annars á býflugum og öðrum geitungum. Hann er mjög öflugur þegar kemur að því að ráðast á aðra. Þegar geitungur finnur býflugnabú þá merkir hann það með því að seyta út vökva úr kirtlum og laðar þannig aðra geitunga að búinu. Geri geitungarnir árás á býflugnabúið er allt eins líklegt að dagar þess séu taldir þar sem hver og einn geitungur getur drepið allt að 40 býflugur á mínútu. En það fer reyndar eftir því hvaða býflugnategund um er að ræða því þær eru misjafnlega varnarlausar gagnvart geitungnum.
Í Japan eru tvær býflugnategundir algengastar, náttúruleg tegund sem nefnist Apis cerena japonica og tegundin Apis mellifera sem er innflutt frá Evrópu. Varnir þessara tegunda eru afar ólíkar. Sú evrópska er nánast varnarlaus gagnvart árásum risageitungsins en sú japanska hefur aðlagað siga að afráni geitungsins með merkilegri varnaraðferð. Þegar geitungur kemur í búið umkringja býflugurnar hann og taka að hreyfa vængina geysilega hratt. Með því hækka þær hitann í búinu upp í 47°C sem er yfir banvænum mörkum geitungsins. Býflugurnar þola hins vegar hitann þokkalega. Efri mörk geitungsins eru 44-46°C en efri mörk býflugnanna eru um 49°C. Með þessari aðferð tekst býflugunum að drepa geitunginn með því að ofhita hann.
Þótt asíski risageitungurinn valdi nokkrum tugum dauðsfalla á hverju ári þá hafa rannsóknir sýnt að eitur hans er ekki eins banvænt og nokkurra annarra geitunga og býflugna svo sem hinnar algengu evrópsku býfluga (Apis mellifera). Til þess að meta hversu banvæn efni eru er gjarnan vísað til svokallaðs LD50 gildis (LD sendur fyrir lethal dose) en það er það magn efnis sem veldur því að 50% tilraunadýra drepast. Tilraunir á músum hafa leitt í ljós að LD50 fyrir eitur asíska risageitungsins er 4,1 mg af eitri á hvert líkamskíló músa en aðeins þarf um 2,8 mg/kg af eitri býflugunnar til þess að afleiðingarnar verði þær sömu.
Það sem gerir asíska geitunginn þó hættulegri er það að hann getur dælt stærri skammti af eitri í hverri stungu. Einnig getur hann stungið fórnarlambið oftar en einu sinni þegar hann á annað borð gerir árás. Geitungar hafa þar að auki mun minni þolinmæði gagnvart áreiti en býflugur og hunangsflugur, en þær leggja sjaldnast til atlögu nema tilneyddar eða ef farið er afar óvarlega við bú þeirra.
Heimildir og myndir:
Jón Már Halldórsson. „Hver er hættulegasta geitungategund í heimi?“ Vísindavefurinn, 5. september 2008, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=48018.
Jón Már Halldórsson. (2008, 5. september). Hver er hættulegasta geitungategund í heimi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=48018
Jón Már Halldórsson. „Hver er hættulegasta geitungategund í heimi?“ Vísindavefurinn. 5. sep. 2008. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=48018>.