Í flatvörpunum snertir blaðið aðeins einn punkt á hnettinum. Með þessari vörpun er í mesta lagi hægt að sýna hálfan hnöttinn í einu. Flatvörpun er til dæmis stundum valin við gerð korta af heimskautasvæðum þar sem snertipunkturinn er annar hvort póll jarðar. Þá kallast það pólarvörpun. Í keilu- og hólkvörpunum snertir blaðið línu á hnettinum en ekki aðeins einn punkt. Hægt er að hugsa þessar varpanir þannig að blað sé vafið annaðhvort eins og keila eða hólkur utan um hnöttinn, upplýsingum varpað á það og síðan slétt úr. Keiluvarpanir hafa þótt heppilegar við gerð korta af svæðum sem hafa mikla austur/vestur útbreiðslu og eins verið vinsælar við gerð korta af svæðum eða löndum í tempraða beltinu. Hólkvarpanir hafa aftur á móti þótt heppilegar við gerð sjókorta og annarra korta þar sem rétt stefna skiptir máli og eins hafa þær verið notaðar við gerða korta af löndum nálægt miðbaug svo einhver dæmi séu nefnd. Eins og fram kom í upphafi verður alltaf einhver bjögun á kortum þar sem ekki er hægt að fletja kúlu út þannig að úr henni verði heilleg og samfelld mynd heldur þarf að teygja og toga og færa til. Bjögunin eða skekkjurnar felast í því að flatarmál, fjarlægðir eða horn eru ekki í samræmi við raunveruleikann. Skekkjurnar eru mestar þegar um er að ræða kort í litlum mælikvarða, það er kort sem ná yfir stórt svæði, til dæmis heimskort en þegar notaður er stór mælikvarði, til dæmis kort sem sýna einstaka landshluta, verður skekkjan óveruleg þar sem hnattlögunin skiptir ekki miklu máli. Hvaða kortvörpun verður fyrir valinu fer eftir því hver tilgangur kortsins er þar sem á einu og sama kortinu er ekki hægt að hafa allt rétt, fjarlægðir, flatarmál og horn, heldur verður að ákveða hvað af þessu er mikilvægast hverju sinni. Ef nota á kort til að taka rétta stefnu eftir áttavita, til dæmis sjókort eða flugkort, þá þarf kortið að vera hornrétt (e. conformal). Gott dæmi um það hin velþekkta Mercatorvörpun, hólkvörpun sem kom fram á 16. öld og hefur verið mikið notuð allar götur síðan. Kort gerð með Mercatorvörpun eru hornrétt og sýna nokkuð rétt útlit landa, hins vegar gefa þau mjög rangar hugmyndir um flatarmál og stærðarhlutföll á milli svæða. Eftir því sem fjær dregur miðbaug verða svæði óeðlilega stór samanborði við raunveruleikann, þannig verður Grænland svipað stórt og Afríka en í rauninni er Afríka um 14 sinnum stærri.
Ef tilgangurinn er hins vegar að bera saman stærð landsvæði þá skiptir máli að kortið sýni innbyrðis rétt hlutfall á milli flatarmáls svæða (e. equal-area) en ekki er þörf á að það sé hornrétt og eins getur útlit landa orðið mjög fjarri raunveruleikanum. Meðal þeirra varpana sem sýna rétt stærðarhlutföll eru til dæmis Petersvörpun (hólkvörpun sem einnig gengur undir nafninu Gall-Peters projection) og Lambert-flatvörpun (e. Lambert azimuthal equal-area). Síðan eru dæmi um varpanir sem eru hvorki hornréttar né með rétt flatarmál heldur einhvers staðar þar á milli. Sem dæmi um slíkar varpanir má nefna vörpun Robinsons sem notið hefur nokkurra vinsælda og var meðal annars notuð hjá National Geogrphic Society í um áratug eða þar til kortvörpun Winkels var tekin upp á þeim bæ árið 1998. Með þessum vörpunum er farin málamiðlunarleið þar sem reynt er að nálgast bæði rétt útlit og rétt hlutföll. Með því að smella hér má sjá ágætis samantekt um ýmsar kortvarpanir. Heimildir:
- Peter Östman og fleiri. Landafræði. Maðurinn, auðlindirnar, umhverfið. Reykjavík, Mál og menning, 2000.
- Map projection á Wikipedia. Skoðað 8. 7. 2008.
- Cartographical Map Projections. Skoðað 8. 7. 2008.
- Jarðvís. Skoðað 8. 2. 2008.
- Mynd af hólkvörpun, keiluvörpun og flatvörpun: Canada Centre for Remote Sensing. Sótt 9. 7. 2008.
- Mynd af mismunandi vörpunum: GeoSTAC. Sótt 9. 7. 2008.
Hér er einnig svarað spurningunum:
- Er satt að mörg landakort gefa villandi og jafnvel ranga mynd af útliti jarðarinnar? T.d. að staðsetning landa og stærð meginlanda sé vitlaus.
- Af hverju sýna heimskort alltaf ranga stærð af Grænlandi/Ástralíu eða Afríku/S-Ameríku?