Þar sem umferð er stjórnað af lögreglu eða með umferðarljósum má einungis ganga yfir akbraut þegar grænt ljós er fyrir umferð gangandi vegfarenda eða lögreglan gefur til kynna með merkjagjöf að umferð gangandi sé heimil.Það er því bannað með lögum að ganga yfir akbraut þar sem umferð er stjórnað af umferðarljósum, nema þegar grænt ljós er fyrir umferð gangandi vegfarenda. Það að ganga yfir götu á rauðu ljósi er því lögbrot. Við þessu lögbroti liggur hins vegar engin refsing. Samkvæmt 100. gr. umferðarlaganna varða brot gegn lögunum sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Um sektir er kveðið á í reglugerð nr. 930/2006, en þar er ekkert að finna um sektir við broti á 12. gr. umferðarlaganna.
En þá má auðvitað spyrja, til hvers eru sett lög sem engin viðurlög eru við? Áður fyrr héldu sumir fræðimenn því fram að munurinn á lögum og öðrum reglum samfélagsins væri sá að við lagareglunum væru viðurlög, til dæmis sektir eða refsing. Þannig væri unnt að greina lög frá til dæmis siðferðis- og trúarreglum. Þetta fær þó ekki staðist, enda er stór hluti gildandi laga ekki bundinn neinum viðurlögum. Sum lög eru sett til þess að vernda borgarana og halda uppi skipulagi í samfélaginu. Það er mikilvægt að fara eftir slíkum lögum, jafnvel þó að ekki séu nein sérstök viðurlög við broti gegn þeim. Umferðarlögin eru gott dæmi um lög af þessu tagi. Þau eru sett til að greiða fyrir umferð og til þess að koma í veg fyrir árekstra og slys. Það gefur auga leið að það getur verið hættulegt að ganga yfir götu á rauði ljósa, enda logar þá væntanlega grænt ljós fyrir umferð vélknúinna ökutækja. Það er því mjög mikilvægt að virða þessi lög, þrátt fyrir að maður eigi ekki á hættu að vera sektaður eða settur í fangelsi ef gengið er yfir á rauðu ljósi Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Getur lögreglan handtekið einstakling fyrir öll þau brot sem varða við lög? eftir Árna Helgason
- Garðar Gíslason: Eru lög nauðsynleg? Orator 1991.
- Sigurður Líndal, Um lög og lögfræði. Hið íslenzka bókmenntafélag 2002.