Efnislega er lögbók Hammúrabís athyglisverð fyrir þær sakir að hún mælir fyrir um lög og reglur á flestum sviðum samfélagsins en einnig fyrir hve grimmilegar refsingar kveðið er á um. Hefndin leikur stórt hlutverk og oft hlýtur afbrotamaðurinn sambærileg örlög og fórnarlambið. Lögmálið úr Mósebók um „auga fyrir auga, tönn fyrir tönn“ kemur fyrir, annars vegar í 196. grein laganna sem segir að taki maður auga úr öðrum manni, skuli taka hans eigið auga og hins vegar í 200. grein þar sem segir að ef maður kýli tennur úr jafningja sínum skuli berja tennurnar úr honum sjálfum. Algengt er í eldri lögbókum og í eldri lagatexta að reglur séu atviksbundnar og lýsi tilteknum aðstæðum eða ákveðnu athæfi og hvernig taka skuli á því í stað þess að mæla fyrir um almennar reglur, sem er svo unnt að heimfæra einstök atvik undir. Lögbók Hammúrabís er skrifuð í þessum anda þar sem flestar reglurnar eru fortakslausar og gera ekki ráð fyrir því að aðstæður eða málsatvik séu metin sérstaklega en á því er þó undantekning í 2. grein lögbókarinnar. Þar er vísað í töframátt Efrat-árinnar til þess að leysa úr málum en í greininni segir að ásaki maður annan mann, og hinn ásakaði fari að ánni, stökkvi í hana og sökkvi skuli sá sem setti fram ásökunina eignast hús hans. En sanni áin að hin ásakaði er saklaus og hann sleppur ómeiddur, skal sá sem setti fram ásökunina vera tekinn af lífi og hinn ásakaði eignast hús hans. Alls eru 282 reglur í lögbókinni en á köflum er textinn svo óskýr að ekki er unnt að ráða í hann. Langflestar reglurnar eru þó skýrar og hefur tekist að lesa og greina merkingu þeirra. Lögbókin hefst á inngangi frá Hammúrabí sjálfum þar sem hann segir meðal annars að guðirnir hafi falið honum það hlutverk að skrifa þessa lögbók til þess að sigrast á hinu illa og setja sanngjörn og réttlát lög fyrir þjóðina. Reglurnar veita ákveðna innsýn í samfélagsgerðina. Ágreiningsmál átti að leiða fyrir dómstóla þar sem dómarar dæmdu í málum. Aftur á móti var dómurum ekki sýnd mikil þolinmæði í starfi, því samkvæmt 5. grein skal sá dómari sem verður uppvís að röngum dómi vera sektaður og útilokaður til framtíðar frá því að dæma. Konur eru á allan hátt lægra settar en karlar og sést það vel á viðurlögum við árásum á konur. Sá sem ræðst á konu er gert að greiða skaðabætur og sama gildir ef konan er ólétt og fóstrið andast við árásina. Deyi kona eftir árás karlmanns, skal dóttir árásarmannsins tekin af lífi, en ekki árásarmaðurinn sjálfur. Þá finnast í lögbókinni dæmi um samfélagslega hugsun og tillit, til dæmis er kveðið á um að þegar mannrán á sér stað skal samfélagið greiða ættingjum þess eða þeirra sem var rænt bætur. Á Íslandi urðu fyrstu lögin til fljótlega í kjölfar landnáms. Fljótlega upp úr 900 var farið að huga að þeim möguleika að koma upp þingi og nokkru fyrir árið 930 ákváðu höfðingjar landsins að senda mann að nafni Úlfljót til Noregs til þess að kynna sér lög og reglur þess tíma. Hann sneri aftur og eru fyrstu lögin sem sögð voru á Þingvöllum kennd við Úlfljót. Á Þingvöllum var Lögrétta æðsta stofnun þingsins á þjóðveldisöld og fór með löggjafarvald, skar úr ágreiningi, setti ný lög og veitti undanþágur frá lögum. Lögsögumaður stýrði fundum í Lögréttu en í henni sátu 48 goðar á miðpallinum en með tvo ráðgjafa hver, annan fyrir framan og hinn fyrir aftan. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvernig verða lög til? eftir Magnús Viðar Skúlason
- Hvenær er talið að siðmenning eins og við þekkjum hana hafi byrjað? eftir Harald Ólafsson
- Paris Pictures. Sótt 28.5.2009.