Armfætlur komu fram fyrir um 570 milljónum ára og voru meðal algengustu sjávarhryggleysingja jarðar á miðlífsöld eða allt þar til miklar hamfarir sem urðu fyrir um 250 milljón árum leiddu til þess að allt að 90% allra ættkvísla á jörðinni urðu aldauða (sjá svar við spurningunni Eru líkur á að ísöld eða annars konar hamfarir sem eyða öllu lífi á jörðu komi aftur?). Í dag eru þekktar um 300 tegundir armfætla í 80 ættkvíslum. Þær lifa aðallega á kaldsjávarsvæðum jarðar í Norður-Íshafi og í höfunum við Suðurheimsskautslandið þar sem þær eru meðal algengustu sjávarhryggleysingja. Nokkrar tegundir finnast einnig á tempruðum svæðum jarðar auk þess sem þær lifa á miklu dýpi í úthöfunum. Armfætlur eru þaktar tveimur skeljum líkt og samlokurnar en þær eru misstórar. Önnur þekur neðri hluta dýrsins og hin efri hlutann og því eru dýrin samhverf það er að segja önnur hliðin er spegilmynd hinnar, líkt og á við um hryggdýr. Flestar armfætlur eru smáar að vexti, eða undir 2,5 cm á lengd og margar tegundir eru agnasmáar eða allt niður í 1 mm að lengd. Nokkrar tegundir sem nú eru útdauðar voru þó sannkallaðir risar miðað við þær sem nú lifa, eða allt að 40 cm á lengd. Skeljarnar eru oftast hvítar eða gulleitar að lit en það er þó ekki algilt þar sem einhverjar tegundir hafa rauðleitar skeljar og skeljar tegunda af ættkvíslinni Lingula eru brúnar með dökkgrænum skellum.
Ekki er mikið vitað um æxlun armfætla en þó hefur hún eitthvað verið skoðuð hjá þremur ættkvíslum. Sæðisfrumur og egg eru losuð í möttulhol dýranna í gegnum trektlaga líffæri sem nefnist á fræðimáli nephridia. Frjóvgun á sér stað utan við skeljarnar en meðal nokkurra tegunda verður frjóvgun inni í kvendýrinu, í einhvers konar klakpoka sem er útvöxtur úr möttulholi. Úr eggjunum koma sundlirfur sem synda um í nokkra daga áður en þær setjast á botninn þar sem þær þroskast í fullorðin dýr með nokkrum millistigum. Heimildir og myndir:
- Ruppert, Edward E. og Robert D. Barnes. 1994. Invertebrate zoology, 6. útgáfa, Saunders College Publishing, Philadelphia.
- Britannica
- BIODIDAC
- Ryan Photographic