Tungumál, sem töluð eru af fáum, eiga nú, á tímum vaxandi hnattvæðingar, erfitt uppdráttar, einkum ef litlar sem engar ritheimildir eru til á málinu og ef það er í nábýli við annað sterkara mál. Lendi tungumál til dæmis í þeirri stöðu að vera nær eingöngu notað innan veggja heimilisins en á vinnustað, í skólum og í opinberum samskiptum er notað annað mál er hætt við að móðurmálið smám saman bíði lægri hlut. Virðing þjóðar fyrir tungumáli sínu og rækt hennar við málið skiptir sköpum í varðveislu málsins. Ef móðurmálið er notað á öllum sviðum daglegs lífs, það á bæði vandað rit- og talmál, stendur því engin hætta af utanaðkomandi málum þótt sterk séu. Um leið og gefið er eftir og talað um að ,,léttara“ sé að notast við erlenda tungu vegna samskipta við útlönd getur farið að hrikta í stoðunum. Mikilvægt er að halda þessu tvennu aðgreindu, móðurmálinu og hinu erlenda máli, vanda sig í notkun beggja málanna en láta ekki erlenda málið þröngva sér inn í móðurmálið. Þá er engin hætta á ferðum. Það er algerlega undir Íslendingum sjálfum komið hver örlög íslenskunnar verða. Hún stendur sterkt nú en vissulega þarf að styðja hana og styrkja gegn utanaðkomandi ágangi. Sjá einnig svör sama höfundar við spurningunum:
- Hvers vegna er ekki bara eitt tungumál í heiminum?
- Hverjir eru kostir og gallar þess að gera ensku að tungumáli mannkynsins?
- Hvaða tungumál er mest talað í heiminum í dag?
- Hvert er elsta tungumál sem enn er talað og hvert er elsta tungumál sem vitað er um?
- Hvaða tungumál ætli Nói og niðjar hans hafi talað?
- Hvert er það tungumál í heimi sem fæstir tala?
Í heild hljóðaði spurningin svona:
Ég las það í Lifandi vísindum að mörg tungumál í heiminum væru að deyja út eða væru þegar gleymd. Eru einhverjar líkur á því að íslenska eigi eftir að deyja út og hversu langt væri þá í það?