- Gambelia wislizenii (e. Long-nosed leopard lizard)
- Gambelia copei (e. Cope's leopard lizard)
- Gambelia sila (e. Blunt-nosed leopard lizard)
G. wislizenii finnst í vesturhluta Bandaríkjanna, frá Oregonfylki til Idaho í norðri og suður til nyrstu héraða Mexíkó. Hún er algengust á eyðimerkursvæðum þar sem gróður er lítill. Rannsóknir hafa sýnt að á svæðum þar sem þéttleiki er mestur, meðal annars á svæðum innan Nevada, getur hann verið meiri en 5 dýr á hektara. Æxlunartíminn er á vorin og verpir kvendýrið í júní eða júlí, alls 5-7 eggjum. Ungviðið verður oftast kynþroska árið eftir. Eins og aðrar tegundir ættarinnar þá leggur G. wislizenii sér til munns ýmsar smærri eðlur, skordýr eða aðra hryggleysingja sem verða á vegi hennar í eyðimörkinni. Stundum kemur það fyrir að hún veiðir smávaxin nagdýr sem hún getur ráðið við. Veiðiaðferðir hennar felast í árás úr launsátri en sjaldgæft er að hún hlaupi uppi fæðuna þar sem bráðin er oftast snarari í snúningum en hún. Ef eðlunni er ógnað stendur hún oftast grafkyrr en tekur síðan skyndilega á rás og flýr undir stein eða í runnagróður. Ef hún er króuð af hvæsir hún hátt og snýst hiklaust til varnar og bítur. Hún er ekki eitruð en fólk getur fengið alvarlegar bakteríusýkingar vegna slíkra bitsára. G. wislizenii á sér marga óvini meðal eyðimerkurdýra svo sem hauka, sléttuhunda, greifingja og eyðimerkurrefi. Gambelia copei eða Cope´s leopard eðlan er nefnd eftir frægum skriðdýrafræðingi,
G. copei lifir í suðvesturhluta Bandaríkjanna, frá San Diegosýslu í Kaliforníufylki suður að höfðasvæðinu (Cape region) við Kaliforníuflóa meðal annars á eyjunum de Cedros, Magdalena, og Santa Margarita. Búsvæði G. copei eru mun fjölbreytilegri en frænku hennar G. wislizenii svo sem kjarrlendi og skógarsvæði, ekki síður en eyðimerkur Kaliforníu. Veiðiaðferðir G. copei eru áþekkar G. wislizenii. Hún situr fyrir bráðinni og stekkur á hana og grípur með skoltinum. Fæðan er fjölbreytt en stærri hluti hennar eru hryggdýr en hjá G. wislizenii svo sem nagdýr, eðlur og litlir snákar. G. copei er mun öflugara hlaupadýr en G. wislizenii og sést oftar en ekki hlaupa á ankanalegan hátt á afturlöppunum. Gambelia sila eða Blunt-nosed leopard lizard er að öllu jöfnu minni en hinar tegundirnar tvær eða um 20 cm á lengd frá trýni og aftur á hala. Ólíkt G. wislizenii og G. copei er karldýr G. sila aðeins stærra en kvendýrið. G. sila er dekkri að lit en hinar tegundirnar tvær en líkt og frænkur hennar er kvendýrið með rauðar skellur á æxlunartímanum.
Af þeim þremur tegundum sem hér eru til umfjöllunar er G. sila í mestri útrýmingarhættu og finnst nú aðeins í San Joaquindalnum og aðliggjandi hæðum í Kaliforníu. Ástæðan fyrir því er að stórum hluta sú að búsvæði hennar hefur verið raskað með mannvirkjagerð og í tengslum við landbúnað. Helsta fæða G. sila eru skordýr, aðallega engisprettur og krybbur, en einnig leggur hún sér til munns eðlur og aðra bráð sem á vegi hennar verður og hún ræður við að éta. Ein varnaraðferð sem þekkist meðal þessara eðlna er að losa sig við skottið ef rándýr nær tökum á því. Heimildir og myndir:
- McGuire, J. A. 1996. „Phylogenetic systematics of Crotaphytid Lizards (Reptilia: Iguania: Crotaphytidae)“. Bulletin of the Carnegie Museum of Natural History 32:1-142.
- Tollestrup, K. 1983. „The social behavior of two species of closely related leopard lizards, Gambelia silus and Gambelia wislizenii“. Z. Tierpsychol. 62:307-320.
- USGS - Western Ecological Research Center
- Endangered Species Recovery Program
- Sacramento Fish & Wildlife Office
- Reptarium.cz
- Kiisa's Video and Image Gallery
- California Reptiles and Amphibians