Ein þessara tegunda af meiði kárna var andrakárni (Andrewsarchus) en leifar hans hafa fundist í Mongólíu og eru frá eósen-tímabilinu fyrir um 50 milljónum ára. Þessi skepna virðist hafa verið mjög stór þar sem hauskúpan var tæplega 1 metri á lengd. Andrakárnar hafa líklega étið skelfisk og fiska í flæðarmálinu en samkeppni um fæðu þar hefur ekki verið eins mikil og á landi. Þetta fjöruát hefur eflaust verið skref í átt að aðlögun að lífi í hafinu. Vísindamenn telja að það hafi tekið þessa ættgrein spendýra innan við 15 milljónir ára að aðlagast sjávarlífi að fullu. Menn byggja þá staðhæfingu á merkum steingervingafundum bandarísku vísindamannanna Philip Gingerich og Hans Thewissen á 10. áratug síðustu aldar í Pakistan. Steingervingarnir eru af löngu útdauðum skepnum af ættbálki spendýra sem nefnast á fræðimáli Pakicetus og Ambulocetus. Á beinagrindum þeirra má sjá frekari aðlögun að vatnalífi en þekkist meðal kárnanna og eru þessir steingervingar mikilvægasti hlekkurinn sem fundist hefur á milli kárna og eiginlegra hvala.
Hvalir eru einu spendýrin sem hafa slitið öll tengsl við þurrlendi og ala allan sinn aldur í vatni. Nokkur önnur spendýr lifa að stórum hluta í vatni, svo sem sækýr og selir, en þurfa þó að koma á land. Til dæmis fer æxlun sela og uppeldi kópa fram á þurrlendi. Lendi hvalur hins vegar á þurru landi eru honum allar bjargir bannaðar þar sem hann getur ekki hreyft sig vegna þyngdar sinnar. Auk þess verður öndun erfiðari þar sem beinagrindin leggst smátt og smátt saman vegna eigin þyngdar enda er hún ekki aðlöguð að því að bera uppi líkama heldur fljóta um í þyngdarleysi hafsins. Rétt eins og landdýr þurfa hvalir á súrefni úr andrúmsloftinu að halda og verða því að koma upp að yfirborðinu til að anda. Ólíkt landdýrum hafa nasir hvala færst frá andliti og aftur á höfuðið sem gerir þeim auðveldara að anda við yfirborð sjávar. Blástursgatið gegnir því lykilhlutverki í öndun en það er aðeins eitt dæmi um það hvernig líkamsgerð hvala hefur tekið breytingum til þess að létta þeim lífið í undirdjúpunum. Hvalir geta verið mun lengur í kafi en önnur spendýr, ekki vegna þess að lungu þeirra séu hlutfallslega stærri heldur vegna þess að þeir geta geymt meira súrefni í blóði og vefjum. Í töflunni hér að neðan má sjá þann tíma sem nokkur spendýr geta verið í kafi.
Maður | Homo sapiens | 1-2 mín. |
Hundur | Canis familiaris | 3 mín. |
Flóðhestur | Hippopotamus | um 15 mín. |
Ísbjörn | Ursus maritimus | um 15 mín. |
Höfrungur | Delphinidae | 5-8 mín. |
Reyðarhvalur | Balaenopteridae | 20-40 mín. |
Búrhvalur | Physeter macrocephalus | um klukkustund |
- O'Leary M.A. og Heyning J.E. 1999. „Whale Origins“. Science. 12; 283: 1641.
- Gingerich, P. o.fl., 1994. „New Whale from the Eocene of Pakistan and the Origin of Cetacean Swimming“. Nature 368: 844-847.
- BBC - Science & Nature.
- Edward T. Babinski: Cetacean Evolution (Whales, Dolphins, Porpoises).
- Giuseppe Ardito et al. (íslenskir höfundar Óskar Ingimarsson og Þorsteinn Thorarensen), Undraveröld dýranna 12, Fjölvi, Reykjavík 1988.