Dyngjur eru flatir og reglulegir hraunskildir úr þunnum hraunlögum, sem myndast við flæðigos, er þunnfljótandi hraunkvika streymir upp um kringlótt gosop mánuðum eða árum saman. Þó má einnig vera að slíkir hraunskildir verði til við endurtekin gos úr kringlóttu gosopi. Sennilega hafa dyngjugosin í byrjun verið sprungugos en eldvirknin færst á einn stað er á gosin leið.Hraunið sem myndaði Þeistareykjabungu rann allt úr toppgígnum, Stóravíti. Dyngjan er mjög flatvaxin (564 m) en gígbarmarnir efst eru brattir. Í gígnum hefur staðið hrauntjörn og úr henni runnið hraun ýmist út yfir barmana eða langar leiðir eftir hraunpípum.
Nokkru sunnan við Stóravíti er Litlavíti sem er svonefndur fallgígur (e. pit crater). Slík fyrirbæri eru einkennandi fyrir dyngjur og var þeim fyrst lýst á Hawaii á 19. öld þar sem fallgígar eru nokkuð algengir. Eins og íslenska nafnið bendir til, myndast þeir þegar þakið yfir hraunrás hrynur. Loks er Langavíti norðan í dyngjunni. Það er aflangur eldgígur sem frá rann hraun sem er talsvert yngra en dyngjan sjálf— liggur ofan á S-laginu svonefnda frá Öskju sem er um 10,000 ára. Um dyngjur má til dæmis lesa í grein Sigurðar Þóararinssonar: Jarðeldasvæði á nútíma (Náttúra Íslands, 2. útg., Almenna bókafél., Rvk. 1982) en um fallgíga í grein Kristjáns Geirssonar: Fallgígar (Náttúrfræðingurinn 59: 93-102, 1989). Mynd: Global Volcanism Program