Af hverju eru skjóttir íslenskir hestar sjaldgæfari en einlitir íslenskir hestar?Í eftirfarandi töflu er sýnt hve algengir 10 litir í íslenskur hrossum eru, en þessar prósentur sýna skiptingu í litum á 64.089 hrossum árið 1998, í rannsókn sem Þorvaldur Árnason og Ágúst Sigurðsson gerðu.
Litur | Tíðni (%) |
Rautt | 31,7 |
Brúnt | 30,1 |
Jarpt | 16,3 |
Grátt | 7,6 |
Bleikálótt | 5,3 |
Leirljóst | 3,0 |
Móálótt | 3,0 |
Vindótt | 1,7 |
Moldótt | 1,2 |
Hvítingjar | 0,1 |
Fjöldi skjóttra hrossa í landinu fer eftir því hve mörg skjótt folöld eru látin lifa á hverju ári. Það er ekki auðvelt að útskýra hvað ræður því, en hugsanlega liggur skýringin að hluta til í því að telja má líklegt að menn sem eru vanir að eiga skjótta hesta vilji gjarnan halda áfram að eiga einhverja hesta með þeim lit. Þeir sem aldrei hafa átt skjótt hross sækjast sennilega ekki mikið eftir að eignast þau. Þess vegna er líklegt að fjöldi skjóttra hesta haldist lítið breyttur í landinu frá ári til árs. Það getur þó komið fyrir að skjóttum hestum fjölgi af því að upp hafa komið fyrir tilviljun hross sem hafa annars vegar orðið skjótt og hins vegar fengið að erfðum mikla kosti sem reiðhross. Þá getur skjóttum hrossum fjölgað tímabundið af því að þau hafa þennan lit og eru um leið eftirsóknarverð reiðhross. Lesa má um erfðir á hrossalitum í bókinni Íslenski hesturinn - litir og erfðir eftir Stefán Aðalsteinsson með myndum Friðþjófs Þorkelssonar og teikningum Péturs Behrens, sem út kom hjá Ormstungu 2001. Mynd: Friðþjófur Þorkelsson: Hestalitir - folöld.