Við fyrstu sýn virðast þessar aðgerðir rökréttar en þegar nánar er að gáð var hugmyndin ekki svo góð. Segja má að félagsleg vandamál hafi hrannast upp hjá þeim hjörðum sem voru án eldri dýra þar sem félagslegt skipulag fílahjarðanna riðlaðist. Að mati dýrafræðinga sem fylgdust með atferli „ólátabelgjanna“ er orsök hegðunarvandamálanna sennilega hormónatengd og má rekja hana til svokallaðrar musth-hegðunar (e. musth behavior). Slík hegðun meðal fíla lýsir sér í mjög mikilli árásarhneigð og eru þeir þá tilbúnir að berjast við aðra tarfa um réttinn til að eðla sig við kýrnar í hjörðinni. Þeir ráðast á allt sem fyrir þeim verður hvort sem það eru önnur dýr, tré eða mannabústaði. Tarfar ganga í gegnum nokkur slík tímabil á ári og er testósteron framleiðslan í algjöru hámarki á meðan þau standa yfir. Úr getnaðarlimnum seytlar þvag og úr kirtlum milli augna og eyrna seytlar seigfljótandi vökvi. Í hjörðum afrískra fíla sem í eru bæði ungir og gamlir fílar byrja einstaklingar að ganga í gegnum þetta ástand við 25 ára aldur en indverskir fílar aðeins fyrr. Í hjörðum þar sem einungis eru ungir fílar hefst musth-hegðun hins vegar fyrr og stendur hvert tímabil lengur yfir. Vísindamenn telja að ástæðan fyrir þessum mun sé sú, að í hjörðum þar sem aldursdreifing sé eðlileg eigi sér stað einhvers konar lífeðlisfræðileg bæling eldri og þroskaðri tarfa hjarðarinnar gagnvart þeim yngri. Sambærileg vandamál hafa komið fram meðal afrískra buffala. Einnig hafa komið upp skyld vandamál meðal annarra grasbíta og prímata sem lifa í fastmótuðum hópum eins og rannsóknir prímatafræðingsins Jane Goddall hafa til dæmis sýnt fram á. En óneitanlega skortir mjög á þekkingu náttúrufræðinga á þessu tiltekna atriði meðal villtra dýra. Heimildir og myndir:
- Krebs, JR & Davies N.B. An introduction to behavioral ecology. Blackwell Science.
- Michael D. Breed: Animal Behavior - An Online Textbook
- Philologos
- Asbury Theological Seminary