Hnettinum var skipt í 24 tímabelti sem hvert um sig tekur yfir 15 lengdarbauga. Staðaltími gildir á belti sem liggur 7,5 gráður til austurs og vesturs frá núll-lengdarbaug. Grunnhugmyndin er sú að innan hvers tímabeltis sé klukkan alls staðar það sama, en í austur frá Greenwich bætist ein klukkustund við í hverju tímabelti en dregst frá sé farið í vestur frá Greenwich ... Tímabeltin fylgja þó ekki lengdarbaugunum nákvæmlega því víða fara þau eftir landamærum þannig að sami tími gildi í landinu öllu. Það er ákvörðun stjórnvalda á hverjum stað hvaða tímabelti er fylgt.Í þeim löndum sem teygja sig langt í austur/vestur og ná því yfir mörg tímabelti er þó yfirleitt farin sú leið að láta ekki sama tíma gilda í landinu öllu. Hvert tímasvæði tekur samt ekki endilega yfir nákvæmlega 15 lengdarbauga. Sem dæmi má nefna að Kanada nær yfir 6 tímabelti en tímamunurinn á milli austur- og vesturstrandarinnar eru 4 og ½ klukkustund. Rússland nær hins vegar yfir 11 tímabelti en tímamismunurinn á milli St. Pétursborgar í vestri og Andady austast í landinu eru 9 klukkustundir. Kína er fjórða stærsta land jarðar á eftir Rússlandi, Kanada og Bandaríkjunum. Það teygir sig yfir fimm tímabelti en ólíkt hinum löndunum þremur sem taka tillit til tímabelta, gildir sami tími alls staðar í Kína. Ekki tókst að finna upplýsingar um hvenær eða hvers vegna sú ákvörðun var tekin en allt Kína fylgir Peking-tíma sem er 8 klukkustundum á undan Greenwich-tíma. Þar sem Ísland fylgir Greenwich-tíma er klukkan í Kína því 20:00 hvar sem er í landinu þegar hún er 12:00 á hádegi á Íslandi.
Hvað er klukkan í Kína þegar hún er 12 á hádegi hér?
Útgáfudagur
8.12.2004
Spyrjandi
Bragi Helgason, f. 1990
Tilvísun
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvað er klukkan í Kína þegar hún er 12 á hádegi hér?“ Vísindavefurinn, 8. desember 2004, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4651.
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2004, 8. desember). Hvað er klukkan í Kína þegar hún er 12 á hádegi hér? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4651
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvað er klukkan í Kína þegar hún er 12 á hádegi hér?“ Vísindavefurinn. 8. des. 2004. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4651>.