Mjúkar snertilinsur eru flokkaðar eftir efni en einnig oft eftir vatnsinnihaldi, það er hve mikill hluti (%) linsunnar er plast og hve mikill hluti vatn. Plastefnin draga í sig táravökva eða geymsluvökva og eru því nánast eins og hlaup eða gel sem liggur framan á augunum við notkun. Eftir því sem vatnsinnihald er meira þeim mun lengur er hægt að vera með linsurnar í einni lotu, jafnvel sofa með þær yfir nótt. En svokölluð langtímanotkun, það er að vera með linsurnar dögum saman, ef til vill í eina til tvær vikur, er mjög varasöm og getur aukið líkurnar á alvarlegum fylgikvillum allt að 10-15 falt. Nú eru linsurnar oftast flokkaðar eftir því hve lengi þær endast við notkun og er þá talað um eins dags linsur, 30 daga linsur, tveggja mánaða linsur, sex mánaða linsur og svo árslinsur („hefðbundnar linsur“). Eins dags til þriggja eða fjögurra mánaða linsur eru oft nefndar skammtímalinsur og eru þær mest notaðar í dag en fyrir 10-15 árum (og fyrr) voru árslinsurnar svo til einráðar. Helsti munurinn á þessum linsutegundum er að skammtímalinsurnar eru gerðar úr ódýrari plastefnum sem endast skemur, en árslinsurnar eru gerðar úr vandaðri og dýrari plastefnum sem óhreinindi loða síður við og endast þær því lengur. Annar og mikilvægur munur er að yfirleitt er ekki ætlast til þess að skammtímalinsurnar (til dæmis eins til tveggja mánaða linsur) séu þvegnar, það er nuddaðar eftir hverja notkun með sérstakri linsusápu eða sótthreinsiefni. Árslinsur og jafnvel fjögurra til sex mánaða linsur þarf hins vegar að þvo eftir hverja notkun. Mörgum finnst það tímafrekt og hættir til að trassa það eða gleyma og eru þá ef til vill betur settir með skammtímalinsur. Séu venjulegar snertilinsur notaðar eins og framleiðandinn ætlast til og reglur segja til um eru þær mjög sjaldan skaðlegar eða hættulegar fyrir augun. Mesta og alvarlegasta hættan við notkun snertilinsa eru sýkingar, oftast af bakteríum en stöku sinnum af öðrum sýklum (til dæmis frumdýrum og sveppum). Þess vegna er sótthreinsunin langmikilvægasta atriðið varðandi linsunotkun, það er að geyma linsurnar alltaf í sótthreinsivökva („geymsluvökva“) yfir nóttina eða þegar þær eru ekki í augunum. Aldrei má geyma linsurnar í venjulegu kranavatni eða saltvatni því þar eru oft sýklar. Eins geta vökvarnir fyllst bakteríum og fúlnað jafnvel á nokkrum klukkustundum og eru þá linsurnar stórhættulegar fyrir augun. Ofnotkun linsanna eru önnur mistök og jafnframt þau algengustu sem linsunotendur gera. Margir halda að það sé sjálfsagt að unnt sé að nota linsurnar allan vökutímann, 16 klukkustundir á dag, alla daga vikunnar og svo árum skiptir. Svo er þó alls ekki, því miður. Þol fólks fyrir snertilinsum er mjög misjafnt og eru augnlæknar einkum færir til að segja til um það. Því ættu allir sem nota linsur að einhverju ráði að fara í eftirlit hjá augnlækni árlega.
Flestir þola 8-10 klukkustunda notkun á dag en sumir verða að láta sér nægja svokallaða frítímanotkun eða 4-6 klukkustundir þrisvar til fjórum sinnum í viku en það nægir oftast til þess að fólk geti notað linsurnar í íþróttum, útivist og á mannamótum. Nauðsynlegt er fyrir alla linsunotendur að eiga líka gleraugu til að geta hvílt sig á linsunum og notað í stað þeirra ef einhver vandamál koma upp með notkunina til dæmis vanþol, ofnæmi, bólgur eða sýkingar. Linsur þolast best úti við þar sem er meiri raki og betri táraframleiðsla, en síður innanhúss og síst við ýmsa nærvinnu til dæmis langvarandi lestur, tölvuvinnu, sjónvarp og þess háttar. Þá hættir fólki til að depla augunum mun sjaldnar sem hefur í för með sér minni táramyndun, augun og linsurnar verða þurr og þolið verra. Það er því oft betra að nota gleraugu við þessar aðstæður og hvíla augun á linsunum. Jafnvel þótt linsunotendur virði hið ofanritaða eru alltaf einhverjir sem fá vanþol fyrir linsunum með tímanum. Þá er oftast um að ræða langvarandi (króníska) slímhimnubólgu undir efri augnalokum („risahnúða-slímhimnubólga“, GPC-syndrom) sem nánast ógjörningur er að lækna nema viðkomandi minnki verulega linsunotkun eða hætti alveg. Þetta er talið gerast hjá um 10% linsunotenda eftir eins árs „rétta“ notkun. Þessi bólga er ekki hættuleg fyrir augun eða sjónina en gerir frekari linsunotkun erfiða eða ómögulega, jafnvel ævilangt. Þess vegna er svo mikilvægt að fara varlega í linsunotkunina, einkum í fyrstu, hlífa augunum eins og unnt er og hvíla þau á linsunum með því að nota gleraugu með. Umfram allt þarf að gæta hreinlætis við meðferð linsanna og láta aldrei bregðast að sótthreinsa þær eftir hverja notkun. Myndir: EyeSearch.com