Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getur þú sagt mér um þvottabirni?

Jón Már Halldórsson

Þvottabirnir (Procyon lotor, e. raccoon eða racoon) eru rándýr af ætt hálfbjarna (Procyonidae). Þeir eru kraftaleg og digur rándýr sem minna um margt á lítil bjarndýr. Þvottabirnir eru yfirleitt 60-100 cm á lengd og er skottið oft tæpur helmingur af lengd dýrsins. Höfuðið er breiðleitt en trýnið er stutt og mjótt. Fætur þvottabjarna eru ekki áberandi þó þeir séu nokkuð lappalangir en vegna þess hve síðhærð dýrin eru leynast lappirnar undir feldinum. Neðsti hluti fótanna er algerlega hárlaus og ákaflega snertinæmur.



Mörg mismunandi litaafbrigði eru þekkt meðal þvottabjarna, allt frá steingráum lit yfir í gulan, rauðbrúnan og kastaníubrúnan. Dýrin eru ljósari að neðanverðu en andlitið er með einhvers konar svarta grímu sem gengur aftur með kinnunum. Skottið er ákaflega loðið, oftast gráleitt með hvítum hringjum.

Upprunaleg heimkynni þvottabjarna eru á víðfeðmu svæði í Norður-Ameríku, frá suðurhluta Kanada til Norður-Mexíkó. Lengi vel voru þeir vinsæl veiðidýr í álfunni. Þvottabirnir voru fluttir til Evrópu til ræktunar en tókst, líkt og ameríska minknum, að sleppa frá loðdýrabúum. Einnig voru flutt inn dýr frá Ameríku sem var sleppt lausum á ákveðnum svæðum til þess að hægt væri að veiða þau. Slíkt var meðal annars gert víða í gömlu Sovétríkjunum svo sem í Hvíta-Rússlandi, á Kákasussvæðinu og allt austur til Síberíu og Ússúrí í Kína, fyrir norðan Changbaifjöll. Þvottabirnir náðu góðri fótfestu á flestum þessara svæða nema í Ússúrí þar sem þeir féllu ekki alveg að vistkerfinu og dóu fljótt út. Nú eru þvottabirnir nokkuð algengir víða í sveitum og skógum Evrópu.

Ástæðan fyrir velgengni þvottabjarna í Evrópu er sú að þeir hafa staðist samkeppni við helstu rándýr sem fyrir voru, rauðref og víslu. Þeir eru fjölhæfir og virðast ekki hræðast það að lifa í nágrenni við menn og eru óhræddir við að stela sér mat í görðum og sorphaugum bæja og borga.

Kjörlendi þvottabjarna er í röku skóglendi nærri tjörnum og vötnum, mýrlendi eða fenjasvæði þar sem þeir geta leitað sér að æti. Fæðuleit þvottabjarna er ákaflega sérstök. Ólíkt öðrum rándýrum sem beita þefskyni, heyrn eða sjón við fæðuleit, nota þvottabirnir gjarnan snertiskynið. Þeir stinga framlöppunum á kaf í vatn og þreifa á steinum sem þar eru, velta þeim um og hræra í mölinni þangað til þeir finna einhverja lífveru sem hægt er að éta, svo sem vatnarækjur, vatnaskordýr, orma, snigla eða froskdýr. Af þessu háttalagi dregur þvottabjörninn nafn sitt, en hann minnir mjög á þvottakonu við iðju sína.



En þvottabirnir éta einnig fæðu sem þeir finna á þurru landi svo sem ber, hnetur, korn, fugla og lítil spendýr eins og mýs. Eins og kom fram hér að ofan þá leita þeir sér matar í sorpi ef þeir eru í nábýli við menn. Þeir eru því langt frá því að vera matvandir.

Mökunarferli þvottabjarna er að mörgu leyti sérstakt. Hjá langflestum spendýrum verður egglos á fengitíma kvendýrsins, en svo er ekki meðal þvottabjarna. Þar verður egglosið ekki af sjálfu sér heldur við ákveðið líkamlegt áreiti sem verður við mökun. Á máli dýrafræðinnar nefnist slíkt örvunaregglos. Það gerir það að verkum að kvendýrið er frjótt og móttækilegt hvar sem er og hvenær sem er. Til þess að koma egglosi af stað er svokallað göndulbein á kynfærum karldýranna og harðir beinkenndir kantar aftan á limhettunni. Við mökun festast kynin saman og er athöfnin mjög sársaukafull fyrir kvendýrið og minnir helst á grófa nauðgun. Þau sterku taugaviðbrögð sem mökunin framkallar hjá kvendýrinu leiðir til eggloss og frjóvgunar í framhaldinu.

Meðgöngutími þvottabjarna er í um 64 dagar. Birnan gýtur frá einum og upp í sjö ungum og benda rannsóknir til að ungafjöldinn fari eftir árferði. Kvendýrið gerir sér oftast bæli uppi í trjám þar sem hægt er að tryggja ungunum öryggi fyrir öðrum rándýrum, svo sem refum og fjallaljónum. Þar eru ungarnir í 6-9 vikur en þá tekur móðirin þá í skoltinn hvern á fætur öðrum og ber þá niður á jafnsléttu. Eftir 60 daga eru þeir vandir af spena og verða fljótlega sjálfbjarga í fæðuöflun. Þeir eru þó með móður sinni í allt að því ár áður en þeir yfirgefa hana.



Yfir háveturinn eru þvottabirnir í einhvers konar dvala. Rannsóknir hafa sýnt að þegar hitastigið fellur niður fyrir 4°C þá halda þeir til í bæli sínu sem getur til dæmis verið holur trjábolur, klettaskora eða gjóta. Þeir leggjast þó ekki í sama djúpdvalann og bjarndýr, marðarhundar eða önnur dvalardýr þar sem efnaskiptin eða líkamshitinn fellur ekkert að ráði. Minnsta truflun getur einnig vakið þvottabirnina úr dvalanum og getur slíkt reynst hættulegt því þeir snúast þá strax til varnar. Þótt þvottabirnir séu að upplagi einfarar þá hafa nokkrir fundist sofandi saman í einni holu yfir veturinn.

Heimildir og myndir:
  • Fritzell, E.K. 1978. Aspects of raccoon (Procyon lotor) social organization. Canadian Journal of Zoology 56:260-271.
  • Gehrt, S.D., and E.K. Fritzell. 1999. Behavioral aspects of the raccoon mating system: determinants of consortship success. Animal Behavior 57:593-601.
  • Lotze, J.H., and S. Anderson. 1979. Procyon lotor. American Society of Mammalogists Mammal. Species. 119:1-8.
  • Undraveröld dýranna. Spendýr. Fjölvaútgáfan. Reykjavík. 1987.
  • Rickert's Garden
  • Nature & Wildlife Photography - Francois Bourgeot
  • Chicago Wilderness

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

17.11.2004

Spyrjandi

Tinna Hallsdóttir, f. 1989

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað getur þú sagt mér um þvottabirni?“ Vísindavefurinn, 17. nóvember 2004, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4616.

Jón Már Halldórsson. (2004, 17. nóvember). Hvað getur þú sagt mér um þvottabirni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4616

Jón Már Halldórsson. „Hvað getur þú sagt mér um þvottabirni?“ Vísindavefurinn. 17. nóv. 2004. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4616>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getur þú sagt mér um þvottabirni?
Þvottabirnir (Procyon lotor, e. raccoon eða racoon) eru rándýr af ætt hálfbjarna (Procyonidae). Þeir eru kraftaleg og digur rándýr sem minna um margt á lítil bjarndýr. Þvottabirnir eru yfirleitt 60-100 cm á lengd og er skottið oft tæpur helmingur af lengd dýrsins. Höfuðið er breiðleitt en trýnið er stutt og mjótt. Fætur þvottabjarna eru ekki áberandi þó þeir séu nokkuð lappalangir en vegna þess hve síðhærð dýrin eru leynast lappirnar undir feldinum. Neðsti hluti fótanna er algerlega hárlaus og ákaflega snertinæmur.



Mörg mismunandi litaafbrigði eru þekkt meðal þvottabjarna, allt frá steingráum lit yfir í gulan, rauðbrúnan og kastaníubrúnan. Dýrin eru ljósari að neðanverðu en andlitið er með einhvers konar svarta grímu sem gengur aftur með kinnunum. Skottið er ákaflega loðið, oftast gráleitt með hvítum hringjum.

Upprunaleg heimkynni þvottabjarna eru á víðfeðmu svæði í Norður-Ameríku, frá suðurhluta Kanada til Norður-Mexíkó. Lengi vel voru þeir vinsæl veiðidýr í álfunni. Þvottabirnir voru fluttir til Evrópu til ræktunar en tókst, líkt og ameríska minknum, að sleppa frá loðdýrabúum. Einnig voru flutt inn dýr frá Ameríku sem var sleppt lausum á ákveðnum svæðum til þess að hægt væri að veiða þau. Slíkt var meðal annars gert víða í gömlu Sovétríkjunum svo sem í Hvíta-Rússlandi, á Kákasussvæðinu og allt austur til Síberíu og Ússúrí í Kína, fyrir norðan Changbaifjöll. Þvottabirnir náðu góðri fótfestu á flestum þessara svæða nema í Ússúrí þar sem þeir féllu ekki alveg að vistkerfinu og dóu fljótt út. Nú eru þvottabirnir nokkuð algengir víða í sveitum og skógum Evrópu.

Ástæðan fyrir velgengni þvottabjarna í Evrópu er sú að þeir hafa staðist samkeppni við helstu rándýr sem fyrir voru, rauðref og víslu. Þeir eru fjölhæfir og virðast ekki hræðast það að lifa í nágrenni við menn og eru óhræddir við að stela sér mat í görðum og sorphaugum bæja og borga.

Kjörlendi þvottabjarna er í röku skóglendi nærri tjörnum og vötnum, mýrlendi eða fenjasvæði þar sem þeir geta leitað sér að æti. Fæðuleit þvottabjarna er ákaflega sérstök. Ólíkt öðrum rándýrum sem beita þefskyni, heyrn eða sjón við fæðuleit, nota þvottabirnir gjarnan snertiskynið. Þeir stinga framlöppunum á kaf í vatn og þreifa á steinum sem þar eru, velta þeim um og hræra í mölinni þangað til þeir finna einhverja lífveru sem hægt er að éta, svo sem vatnarækjur, vatnaskordýr, orma, snigla eða froskdýr. Af þessu háttalagi dregur þvottabjörninn nafn sitt, en hann minnir mjög á þvottakonu við iðju sína.



En þvottabirnir éta einnig fæðu sem þeir finna á þurru landi svo sem ber, hnetur, korn, fugla og lítil spendýr eins og mýs. Eins og kom fram hér að ofan þá leita þeir sér matar í sorpi ef þeir eru í nábýli við menn. Þeir eru því langt frá því að vera matvandir.

Mökunarferli þvottabjarna er að mörgu leyti sérstakt. Hjá langflestum spendýrum verður egglos á fengitíma kvendýrsins, en svo er ekki meðal þvottabjarna. Þar verður egglosið ekki af sjálfu sér heldur við ákveðið líkamlegt áreiti sem verður við mökun. Á máli dýrafræðinnar nefnist slíkt örvunaregglos. Það gerir það að verkum að kvendýrið er frjótt og móttækilegt hvar sem er og hvenær sem er. Til þess að koma egglosi af stað er svokallað göndulbein á kynfærum karldýranna og harðir beinkenndir kantar aftan á limhettunni. Við mökun festast kynin saman og er athöfnin mjög sársaukafull fyrir kvendýrið og minnir helst á grófa nauðgun. Þau sterku taugaviðbrögð sem mökunin framkallar hjá kvendýrinu leiðir til eggloss og frjóvgunar í framhaldinu.

Meðgöngutími þvottabjarna er í um 64 dagar. Birnan gýtur frá einum og upp í sjö ungum og benda rannsóknir til að ungafjöldinn fari eftir árferði. Kvendýrið gerir sér oftast bæli uppi í trjám þar sem hægt er að tryggja ungunum öryggi fyrir öðrum rándýrum, svo sem refum og fjallaljónum. Þar eru ungarnir í 6-9 vikur en þá tekur móðirin þá í skoltinn hvern á fætur öðrum og ber þá niður á jafnsléttu. Eftir 60 daga eru þeir vandir af spena og verða fljótlega sjálfbjarga í fæðuöflun. Þeir eru þó með móður sinni í allt að því ár áður en þeir yfirgefa hana.



Yfir háveturinn eru þvottabirnir í einhvers konar dvala. Rannsóknir hafa sýnt að þegar hitastigið fellur niður fyrir 4°C þá halda þeir til í bæli sínu sem getur til dæmis verið holur trjábolur, klettaskora eða gjóta. Þeir leggjast þó ekki í sama djúpdvalann og bjarndýr, marðarhundar eða önnur dvalardýr þar sem efnaskiptin eða líkamshitinn fellur ekkert að ráði. Minnsta truflun getur einnig vakið þvottabirnina úr dvalanum og getur slíkt reynst hættulegt því þeir snúast þá strax til varnar. Þótt þvottabirnir séu að upplagi einfarar þá hafa nokkrir fundist sofandi saman í einni holu yfir veturinn.

Heimildir og myndir:
  • Fritzell, E.K. 1978. Aspects of raccoon (Procyon lotor) social organization. Canadian Journal of Zoology 56:260-271.
  • Gehrt, S.D., and E.K. Fritzell. 1999. Behavioral aspects of the raccoon mating system: determinants of consortship success. Animal Behavior 57:593-601.
  • Lotze, J.H., and S. Anderson. 1979. Procyon lotor. American Society of Mammalogists Mammal. Species. 119:1-8.
  • Undraveröld dýranna. Spendýr. Fjölvaútgáfan. Reykjavík. 1987.
  • Rickert's Garden
  • Nature & Wildlife Photography - Francois Bourgeot
  • Chicago Wilderness
    • ...