Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hversu smátt má smáaletrið vera í samningum? Mætti hafa það svo lítið að smásjá þyrfti til að lesa það?
Það er meginregla í íslenskum samningarétti að samningafrelsi ríkir. Það felur í sér að þeir sem gera samning hafa frelsi um efni hans og gerð svo fremi sem þeir gangi ekki gegn lögum. Þessi grundvallarregla felur í sér að menn geta ákveðið efni samningsins og með hvaða hætti hann er gerður. Nokkrar undantekningar um þetta eru gerðar í lögum og þess krafist að samningar séu skriflegir. Til að mynda verða víxlar að vera skriflegir, sbr. 1. og 2. gr. víxillaga 93/1933.
Að öðru leyti eru almennt ekki gerðar kröfur um form samninga. Munnlegir samningar eru til dæmis jafngildir skriflegum, svo fremi sem hægt sé að sanna þá. Í raun má fastbinda samning á hvaða hátt sem er, ef athöfnin felur í sér staðfestingu á samkomulagi á milli aðila. Athafnir eða athafnaleysi manna hafa verið taldar jafngilda því að samningur hafi komist á, þótt auðvitað verði að fara varlega í þeim efnum. Það er þó að sjálfsögðu sjaldgæft að menn geri samninga á annan hátt en skriflega, enda er það hagkvæmasta og öruggasta leiðin til að fastbinda samning.
Í samræmi við þessar meginreglur mega menn, fræðilega séð, í raun gera samning með eins litlu letri og þeim þóknast, svo fremi sem báðir séu því samþykkir. Það eitt að samningur sé með smáu letri, ógildir hann ekki, jafnvel þótt að smásjá þyrfti til að lesa letrið. Frelsi manna til að velja hvort þeir gangi að samningum eða ekki á að tryggja það að maður skrifi ekki undir samning öðru vísi en að geta lesið hann. Sá sem hins vegar notar samningafrelsi sitt til að skrifa undir samning með agnarsmáu letri ætti þá að geta staðið við það sem hann skrifaði undir.
Í framkvæmd er þetta þó ekki svo einfalt að samningsfrelsið leysi allan vanda og að sá sem riti undir samning geri það algjörlega á eigin ábyrgð. Smátt letur er talsvert notað af fyrirtækjum sem setja þar oft ýmis konar staðlaða skilmála. Að vissu leyti getur það verið hagkvæmt og til einföldunar fyrir viðskiptavininn að þurfa ekki að lesa langa súpu af skilmálum sem skipta hann litlu máli. En á móti kemur að hægt er að nota smáa letrið til að setja inn í samninginn íþyngjandi og ósanngjörn samningsákvæði og treysta því að hinn aðilinn taki ekki eftir þeim.
Samningafrelsinu eru ákveðin takmörk sett hvað þetta atriði varðar og í lögum 7/1936 um samninga hafa verið tekin upp ákvæði sem veita neytendum vernd í samskiptum sínum við fyrirtæki og atvinnurekendur hvað þetta varðar. Í 1. mgr. 36. gr. b. segir til dæmis:
Skriflegur samningur, sem atvinnurekandi gefur neytanda kost á, skal vera á skýru og skiljanlegu máli. Komi upp vafi um merkingu samnings sem nefndur er í 1. mgr. 36. gr. a skal túlka samninginn neytandanum í hag.
Smátt letur getur vel fallið undir orð ákvæðisins um að samningur skuli vera á skýru og skiljanlegu máli. Það liggur ákveðin skylda á atvinnurekendum í samskiptum sínum við neytendur að tryggja að þeir geri sér grein fyrir því hvað felst í samningnum og þá sérstaklega þeim ákvæðum sem eru íþyngjandi og neytandanum í óhag. Sé slíkt ákvæði að finna í smáa letrinu eru miklar líkar á því að dómstólar myndu dæma ákvæðið ógilt.
Auk þeirra ákvæða sem er sérstaklega ætlað að vernda neytendur eru ákvæði í samningalögunum sem fjalla almennt um samninga sem geta talist ósanngjarnir.
Í 33. grein er fjallað um samninga sem óheiðarlegt væri að bera fyrir sig. Þar segir:
Löggerning, sem ella mundi talinn gildur, getur sá maður, er við honum tók, eigi borið fyrir sig ef það yrði talið óheiðarlegt vegna atvika sem fyrir hendi voru þegar löggerningurinn kom til vitundar hans og ætla má að hann hafi haft vitneskju um.
Í 1. mgr. 36. greinar segir svo meðal annars:
Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig...
Út frá þessum ákvæðum, sem voru ekki síst sett til að koma í veg fyrir óheiðarleg vinnubrögð við samningagerð, er mjög líklegt er að samningur þar sem smátt letur væri notað til að setja inn ósanngjarna skilmála og ákvæði yrði talinn ógildur.
33. og 36. grein samningalaganna tækju þá frekar til samninga sem menn gera sín á milli en 36. gr. b. tekur á samningum sem neytandi gerir við atvinnurekenda. Í slíkum tilvikum skiptir ekki máli hversu smátt smáa letrið væri og það þyrfti alls ekki að vera svo smátt að það sæist aðeins í smásjá til að ógilda mætti samninginn. Nóg væri ef venjulegur maður ætti erfitt með að lesa það.
Árni Helgason. „Hversu smátt má smáaletrið vera í samningum?“ Vísindavefurinn, 15. nóvember 2004, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4611.
Árni Helgason. (2004, 15. nóvember). Hversu smátt má smáaletrið vera í samningum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4611
Árni Helgason. „Hversu smátt má smáaletrið vera í samningum?“ Vísindavefurinn. 15. nóv. 2004. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4611>.