Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Getur lögregla gert upptækar einkaeignir starfsmanna þegar hún gerir húsleit í fyrirtækjum?

Árni Helgason

Lögregla og önnur stjórnvöld, til dæmis samkeppnis- og skattayfirvöld, geta gert húsleitir hjá fyrirtækjum sem liggja undir grun um lögbrot. Við slíkar leitir er oftast lagt hald á mikið magn af gögnum sem eru notuð til að sannreyna hvort þau brot sem fyrirtækið er grunað um hafi átt sér stað. Til slíkrar leitar þarf að fá úrskurð héraðsdómara, nema sá sem í hlut á samþykki hana, sbr. 90. grein laga 19/1991 um meðferð opinberra mála. Í 2. mgr. 71. grein stjórnarskrárinnar er tekið fram að slíkur úrskurður er skilyrði þess að gera megi leit í munum manna. Það er því lykilatriði að heimild liggi fyrir þegar farið er í húsleitir.

Orðalag leitarheimildarinnar getur skipt máli varðandi hvar í fyrirtækinu megi leita. Því getur reynt á túlkun heimildarinnar og hve víðtæk hún sé þegar metið er hvort yfirvöld hafi gengið of langt í leitinni.

Í húsnæði þeirra fyrirtækja sem leitað er hjá eru starfsmenn með vinnuaðstöðu og geyma þar í mörgum tilvikum persónulega muni. Þetta geta verið áþreifanlegir hlutir, til dæmis ljósmyndir, bækur og föt en einnig gögn, ýmist á pappír eða tölvutæku formi, eins og algengara er í dag. Sú spurning vaknar því eðlilega hvort yfirvöld megi við húsleit í fyrirtæki leggja hald á hluti sem eru í einkaeign starfsmanna.

Í grunninn er svarið við þessari spurningu já, svo fremi sem heimild sé fyrir leitinni. Það að skjal eða hlutur sé í einkaeign starfsmanns takmarkar ekki heimildir yfirvalda til að leggja hald á hluti eða gögn sem gætu komið að gagni við rannsókn og úrlausn máls. Ef sú regla gilti fortakslaust að lögregla mætti ekki leggja halda á gögn í einkaeign sem eru geymd í húsnæði fyrirtækis, til dæmis skjöl inn á fartölvu í eigu starfsmanns, væri auðvelt að fara í kringum lögin og gera yfirvöldum erfitt fyrir með rannsóknina. Friðhelgi einkalífsins, sem 71. grein stjórnarskrárinnar verndar, nær til heimilis manna en ekki muna eða gagna sem þeir geyma á vinnustað.

Á hitt ber að líta að það er grundvallarregla í íslenskum rétti að yfirvöldum ber að gæta meðalhófs í athöfnum sínum. Meðalhófsreglan kemur fram í 12. grein stjórnsýslulaga 37/1993. Í henni felst að stjórnvöld mega ekki beita harðari úrræðum en nauðsynleg eru hverju sinni til að ná markmiði sínu. Í reglunni felst einnig að stjórnvöld verða að vera markviss í aðgerðum sínum. Í húsleit yfirvalda hjá fyrirtæki, sem er grunað um samkeppnisbrot, mega yfirvöld því aðeins leggja hald á gögn sem hafa þýðingu í þágu rannsóknarinnar. Leitaraðili mætti t.d ekki leggja hald á persónulega muni starfsmanns, sem skipta engu máli um rannsóknina. Til dæmis mætti ekki leggja hald á fjölskyldumyndir sem starfsmaður hefur á veggnum hjá sér eða bækur sem hann hefur á skrifstofu sinni, ef þessir hlutir skipta ekki máli. Það ber að hafa í huga að við húsleit leggja yfirvöld einkum hald á gögn, svo sem tölvupóst eða bókhaldsskrár, en sjaldgæfara er að lagt sé hald á muni starfsmanna.

Tölvupóstur eða önnur gögn sem starfsmaðurinn hefur inni á tölvunni veldur nokkrum vafa í þessu sambandi. Fjöldi slíkra gagna er yfirleitt svo mikill að það tæki óratíma að greina á milli gagna sem eru persónulegs eðlis annars vegar og þeirra sem varða vinnu starfsmannsins hins vegar. Á þetta atriði reyndi í húsleit Samkeppnisstofnunar hjá olíufélögunum í desember 2001 en þar þurftu starfsmenn stofnunarinnar að skoða mýgrút af skjölum á tölvum starfsmanna fyrirtækjanna.

Farin var sú leið að taka afrit af tölvuskjölum starfsmanna olíufélaganna. Starfsmenn Samkeppnisstofnunar töldu að það fæli í sér of mikla röskun á starfsemi fyrirtækjanna ef þeir þyrftu að sitja með hverjum og einum starfsmanni á vinnustaðnum og fara yfir skjölin með þeim, enda hefði það eflaust tekið margar vikur. Því var ákveðið að afrita öll gögnin á staðnum en bjóða svo starfsmönnum að vera viðstaddir síðar þegar gögnin yrðu skoðuð og gæta þess þannig að persónuleg skjöl og tölvupóstur starfsmanna yrði ekki skoðaður að óþörfu. Þessi aðferð var talin í lagi og innan marka meðalhófsreglunnar, sbr. dóma Hæstaréttar nr. 177/2002 og 178/2002. Í þessum dómum sagði Hæstiréttur meðal annars:
...ef starfsmenn varnaraðila hafa varðveitt persónuleg gögn sín í þeim búnaði [þ.e tölvubúnaði fyrirtækisins], í stað þess að geyma slík gögn á heimili sínu eða öðrum stað, sem friðhelgi þeirra sjálfra samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar tekur til, er óhjákvæmilegt að þeir beri áhættu af því að þau komist í hendur annarra vegna lögmætra aðgerða handhafa opinbers valds í garð varnaraðila.
Húsleitir yfirvalda hjá fyrirtækjum eru íþyngjandi og umsvifamiklar aðgerðir og lúta því ströngum skilyrðum. Leyfi dómara þarf til slíkrar leitar og umfangi þessara aðgerða eru ýmis takmörk sett, eins og áður sagði. En eigi starfsmaður fyrirtækis, sem liggur undir grun, einhver þau gögn eða muni, sem máli skipta fyrir rannsókn yfirvalda, má leggja hald á þau, óháð því hvort þau eru í einkaeigu starfsmanns eða ekki.

Höfundur

Árni Helgason

lögfræðingur og fyrrverandi laganemi við HÍ

Útgáfudagur

8.11.2004

Spyrjandi

Egill Pálsson

Tilvísun

Árni Helgason. „Getur lögregla gert upptækar einkaeignir starfsmanna þegar hún gerir húsleit í fyrirtækjum?“ Vísindavefurinn, 8. nóvember 2004, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4599.

Árni Helgason. (2004, 8. nóvember). Getur lögregla gert upptækar einkaeignir starfsmanna þegar hún gerir húsleit í fyrirtækjum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4599

Árni Helgason. „Getur lögregla gert upptækar einkaeignir starfsmanna þegar hún gerir húsleit í fyrirtækjum?“ Vísindavefurinn. 8. nóv. 2004. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4599>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Getur lögregla gert upptækar einkaeignir starfsmanna þegar hún gerir húsleit í fyrirtækjum?
Lögregla og önnur stjórnvöld, til dæmis samkeppnis- og skattayfirvöld, geta gert húsleitir hjá fyrirtækjum sem liggja undir grun um lögbrot. Við slíkar leitir er oftast lagt hald á mikið magn af gögnum sem eru notuð til að sannreyna hvort þau brot sem fyrirtækið er grunað um hafi átt sér stað. Til slíkrar leitar þarf að fá úrskurð héraðsdómara, nema sá sem í hlut á samþykki hana, sbr. 90. grein laga 19/1991 um meðferð opinberra mála. Í 2. mgr. 71. grein stjórnarskrárinnar er tekið fram að slíkur úrskurður er skilyrði þess að gera megi leit í munum manna. Það er því lykilatriði að heimild liggi fyrir þegar farið er í húsleitir.

Orðalag leitarheimildarinnar getur skipt máli varðandi hvar í fyrirtækinu megi leita. Því getur reynt á túlkun heimildarinnar og hve víðtæk hún sé þegar metið er hvort yfirvöld hafi gengið of langt í leitinni.

Í húsnæði þeirra fyrirtækja sem leitað er hjá eru starfsmenn með vinnuaðstöðu og geyma þar í mörgum tilvikum persónulega muni. Þetta geta verið áþreifanlegir hlutir, til dæmis ljósmyndir, bækur og föt en einnig gögn, ýmist á pappír eða tölvutæku formi, eins og algengara er í dag. Sú spurning vaknar því eðlilega hvort yfirvöld megi við húsleit í fyrirtæki leggja hald á hluti sem eru í einkaeign starfsmanna.

Í grunninn er svarið við þessari spurningu já, svo fremi sem heimild sé fyrir leitinni. Það að skjal eða hlutur sé í einkaeign starfsmanns takmarkar ekki heimildir yfirvalda til að leggja hald á hluti eða gögn sem gætu komið að gagni við rannsókn og úrlausn máls. Ef sú regla gilti fortakslaust að lögregla mætti ekki leggja halda á gögn í einkaeign sem eru geymd í húsnæði fyrirtækis, til dæmis skjöl inn á fartölvu í eigu starfsmanns, væri auðvelt að fara í kringum lögin og gera yfirvöldum erfitt fyrir með rannsóknina. Friðhelgi einkalífsins, sem 71. grein stjórnarskrárinnar verndar, nær til heimilis manna en ekki muna eða gagna sem þeir geyma á vinnustað.

Á hitt ber að líta að það er grundvallarregla í íslenskum rétti að yfirvöldum ber að gæta meðalhófs í athöfnum sínum. Meðalhófsreglan kemur fram í 12. grein stjórnsýslulaga 37/1993. Í henni felst að stjórnvöld mega ekki beita harðari úrræðum en nauðsynleg eru hverju sinni til að ná markmiði sínu. Í reglunni felst einnig að stjórnvöld verða að vera markviss í aðgerðum sínum. Í húsleit yfirvalda hjá fyrirtæki, sem er grunað um samkeppnisbrot, mega yfirvöld því aðeins leggja hald á gögn sem hafa þýðingu í þágu rannsóknarinnar. Leitaraðili mætti t.d ekki leggja hald á persónulega muni starfsmanns, sem skipta engu máli um rannsóknina. Til dæmis mætti ekki leggja hald á fjölskyldumyndir sem starfsmaður hefur á veggnum hjá sér eða bækur sem hann hefur á skrifstofu sinni, ef þessir hlutir skipta ekki máli. Það ber að hafa í huga að við húsleit leggja yfirvöld einkum hald á gögn, svo sem tölvupóst eða bókhaldsskrár, en sjaldgæfara er að lagt sé hald á muni starfsmanna.

Tölvupóstur eða önnur gögn sem starfsmaðurinn hefur inni á tölvunni veldur nokkrum vafa í þessu sambandi. Fjöldi slíkra gagna er yfirleitt svo mikill að það tæki óratíma að greina á milli gagna sem eru persónulegs eðlis annars vegar og þeirra sem varða vinnu starfsmannsins hins vegar. Á þetta atriði reyndi í húsleit Samkeppnisstofnunar hjá olíufélögunum í desember 2001 en þar þurftu starfsmenn stofnunarinnar að skoða mýgrút af skjölum á tölvum starfsmanna fyrirtækjanna.

Farin var sú leið að taka afrit af tölvuskjölum starfsmanna olíufélaganna. Starfsmenn Samkeppnisstofnunar töldu að það fæli í sér of mikla röskun á starfsemi fyrirtækjanna ef þeir þyrftu að sitja með hverjum og einum starfsmanni á vinnustaðnum og fara yfir skjölin með þeim, enda hefði það eflaust tekið margar vikur. Því var ákveðið að afrita öll gögnin á staðnum en bjóða svo starfsmönnum að vera viðstaddir síðar þegar gögnin yrðu skoðuð og gæta þess þannig að persónuleg skjöl og tölvupóstur starfsmanna yrði ekki skoðaður að óþörfu. Þessi aðferð var talin í lagi og innan marka meðalhófsreglunnar, sbr. dóma Hæstaréttar nr. 177/2002 og 178/2002. Í þessum dómum sagði Hæstiréttur meðal annars:
...ef starfsmenn varnaraðila hafa varðveitt persónuleg gögn sín í þeim búnaði [þ.e tölvubúnaði fyrirtækisins], í stað þess að geyma slík gögn á heimili sínu eða öðrum stað, sem friðhelgi þeirra sjálfra samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar tekur til, er óhjákvæmilegt að þeir beri áhættu af því að þau komist í hendur annarra vegna lögmætra aðgerða handhafa opinbers valds í garð varnaraðila.
Húsleitir yfirvalda hjá fyrirtækjum eru íþyngjandi og umsvifamiklar aðgerðir og lúta því ströngum skilyrðum. Leyfi dómara þarf til slíkrar leitar og umfangi þessara aðgerða eru ýmis takmörk sett, eins og áður sagði. En eigi starfsmaður fyrirtækis, sem liggur undir grun, einhver þau gögn eða muni, sem máli skipta fyrir rannsókn yfirvalda, má leggja hald á þau, óháð því hvort þau eru í einkaeigu starfsmanns eða ekki.

...