Sólin Sólin Rís 10:20 • sest 16:07 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 15:40 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:11 • Síðdegis: 23:50 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:43 • Síðdegis: 17:39 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:20 • sest 16:07 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 15:40 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:11 • Síðdegis: 23:50 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:43 • Síðdegis: 17:39 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað aðgreinir tónlist frá hávaða?

Karólína Eiríksdóttir

Sennilega hefðu Evrópubúar 19. aldar átt mun auðveldara með að svara þessari spurningu heldur en ég árið 2004. Nútímamenn eru örugglega ekki sammála um svarið og má búast við að margir myndu svara spurningunni allt öðruvísi en ég. Árið 1850 hefði svarið væntanlega hljóðað eitthvað á þá leið að tónlist væri annaðhvort sungin eða leikin á hljóðfæri og samin eftir ákveðnum hljómfræðilögmálum innan ákveðinna forma; önnur hljóð hefðu ekkert með tónlist að gera. Væntanlega hefði hávaði verið skilgreindur sem hávær og jafnvel óþægileg hljóð. Margir nútímamenn mundu sennilega svara spurningunni nokkurn veginn eins og 19. aldar maðurinn, en ekki ég.

Hljóðheimur nútímamannsins er miklu flóknari en áður var. Alla 20. öldina voru í gangi tilraunir til að útvíkka hljóðheiminn sem nota mætti til tónsköpunar og nú eru öll hljóð gjaldgeng sem efniviður í tónlist. Strax upp úr aldamótunum 1900 fóru menn að gera tilraunir með elektrónísk hljóðfæri og á 3. áratugnum vakti elektróníska hljóðfærið theremin talsverða athygli víða um lönd, en það var rússneskur sellóleikari, Lev Sergeyevich Termen sem átti heiðurinn af þeirri uppfinningu. Stuttu seinna kom annað elektrónískt hljóðfæri, ondes martenot, til sögunnar. Það heitir einnig í höfuðið á höfundi sínum en hann hét Maurice Martenot og kynnti hljóðfærið fyrst árið 1928. Ondes martenot heyrist enn í tónleikasölum í verkum eftir Olivier Messiaen og er Turangalîla-sinfónían sennilega þeirra frægust.

Á 5. áratugnum varð hugtakið musique concrete til, en sú stefna fól í sér að taka hljóð úr umhverfinu upp á segulband og klippa þau til og nota til tónsmíða. Upp úr 1950 fóru elektrónísk tónlistarstúdíó að spretta upp í Evrópu, Bandaríkjunum og Japan. Þar fóru fram tilraunir og rannsóknir og voru þau helsti vettvangur nýjunga í tónsköpun 20. aldarinnar. Tölvurnar tóku smám saman yfir og í dag er tölvutónlist notuð jöfnum höndum í popptónlist og klassískri nútímatónlist.

Samfara þessari þróun hafa tónskáld sífellt verið að leita að nýjum hljóðum úr hefðbundnum hljóðfærum, prófað hefur verið að banka í sellókassann, ná nýjum hljóðum úr blásturshljóðfærunum, strengirnir innan í píanóinu eru plokkaðir og allavega hlutir settir inn í það. Þetta kallast á ensku prepared piano. Margir þessara 20. aldar hljóðgjafa hefðu hljómað sem argasti hávaði í eyrum tónlistarunnenda fyrri alda og gera sjálfsagt enn í eyrum sumra nútímamanna.

Hvað aðgreinir þá tónlist frá hávaða? Við skulum gefa okkur að skilgreining 19. aldar mannsins standist ekki lengur, að skilningur okkar hafi víkkað talsvert út.

Eru þá öll hljóð tónlist? Er fuglasöngur, brimhljóð og vélarhljóð tónlist? Erum við búin að brjóta öll mörk og hömlur og er allt leyfilegt? Já sennilega er allt leyfilegt, en það þýðir ekki að öll hljóð eins og þau koma fyrir í umhverfi okkar sé sjálfkrafa hægt að flokka sem tónlist. Flestir eru örugglega sammála um að fuglasöngur og brimhljóð geti látið í eyrum eins og fegursta tónlist, en tónlist er meira en hljóð. Tónlist er listform og þar með mannlegt tjáningarform og sem slíkt fullt af merkingu, ræðri og óræðri. Tónlist hefur margskonar skírskotun, hún vekur tilfinningar og höfðar til greindar mannsins. Tónlist hefur höfund og áheyranda, sem getur upplifað tónlist á margvíslegan hátt.

Niðurstaðan er því sú að öll hljóð í kringum okkur geti verið hráefni í tónlist, hvort sem hljóðið kemur úr mannsbarka, fuglsbarka, hljóðfæri, tölvu eða vél. En hljóð er ekki orðið tónlist fyrr en mannleg hugsun er búin að koma því inn í eitthvert heildarform, sem hefur merkingu fyrir höfundinn og áheyrandann.

En hvað er þá hávaði? Eflaust er mjög einstaklingsbundið hvaða hljóð hver og einn flokkar sem hávaða, en orðið hefur á sér frekar neikvæðan blæ. Desibel eru mælikvarði á styrk hljóðs og er venjulega talað um að sársaukamörkum sé náð við 120 dB styrk. Þetta þýðir að manni líður líkamlega illa þegar þessum styrk er náð. Í venjulegu daglegu umhverfi er hljóðstyrkurinn oft í kringum 60 - 70 dB og hljóð í loftpressu er um 110 dB.

Flestum líður illa í hávaða, löngu áður en sársaukamörkum er náð, en inn í mat hvers einstaklings á hávaða kemur jafnframt persónulegur smekkur á hvaða hljóð séu falleg og hver ekki. Sinfóníuhljómsveit getur til dæmis framleitt býsna mikinn hljóðstyrk, en sennilega myndu fáir nota orðið hávaði í neikvæðri merkingu orðsins um sinfóníu eftir Beethoven. Sami einstaklingur væri hins vegar vís til að flokka vélarhljóð eða ískur sem hávaða, jafnvel þó að hljóðstyrkurinn væri mun lægri en í sinfóníunni. Allir kannast við hljóðstyrkinn sem rafmögnuð rokkhljómsveit gefur frá sér, sumir forðast fyrirbærið en aðrir eru tilbúnir að borga of fjár til að upplifa það.

Svarið við spurningunni er því ekki einhlítt. Þó að hægt sé að tína til ýmsar skilgreiningar þá er matið á því hvenær hljóð flokkist sem hávaði og hvenær sem tónlist að einhverju leyti háð persónulegum smekk, menningarumhverfi og tíma.

Mynd: Vollmer W. Fries Lecture Series

Höfundur

Útgáfudagur

1.11.2004

Spyrjandi

María Markovic

Tilvísun

Karólína Eiríksdóttir. „Hvað aðgreinir tónlist frá hávaða?“ Vísindavefurinn, 1. nóvember 2004, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4586.

Karólína Eiríksdóttir. (2004, 1. nóvember). Hvað aðgreinir tónlist frá hávaða? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4586

Karólína Eiríksdóttir. „Hvað aðgreinir tónlist frá hávaða?“ Vísindavefurinn. 1. nóv. 2004. Vefsíða. 22. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4586>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað aðgreinir tónlist frá hávaða?
Sennilega hefðu Evrópubúar 19. aldar átt mun auðveldara með að svara þessari spurningu heldur en ég árið 2004. Nútímamenn eru örugglega ekki sammála um svarið og má búast við að margir myndu svara spurningunni allt öðruvísi en ég. Árið 1850 hefði svarið væntanlega hljóðað eitthvað á þá leið að tónlist væri annaðhvort sungin eða leikin á hljóðfæri og samin eftir ákveðnum hljómfræðilögmálum innan ákveðinna forma; önnur hljóð hefðu ekkert með tónlist að gera. Væntanlega hefði hávaði verið skilgreindur sem hávær og jafnvel óþægileg hljóð. Margir nútímamenn mundu sennilega svara spurningunni nokkurn veginn eins og 19. aldar maðurinn, en ekki ég.

Hljóðheimur nútímamannsins er miklu flóknari en áður var. Alla 20. öldina voru í gangi tilraunir til að útvíkka hljóðheiminn sem nota mætti til tónsköpunar og nú eru öll hljóð gjaldgeng sem efniviður í tónlist. Strax upp úr aldamótunum 1900 fóru menn að gera tilraunir með elektrónísk hljóðfæri og á 3. áratugnum vakti elektróníska hljóðfærið theremin talsverða athygli víða um lönd, en það var rússneskur sellóleikari, Lev Sergeyevich Termen sem átti heiðurinn af þeirri uppfinningu. Stuttu seinna kom annað elektrónískt hljóðfæri, ondes martenot, til sögunnar. Það heitir einnig í höfuðið á höfundi sínum en hann hét Maurice Martenot og kynnti hljóðfærið fyrst árið 1928. Ondes martenot heyrist enn í tónleikasölum í verkum eftir Olivier Messiaen og er Turangalîla-sinfónían sennilega þeirra frægust.

Á 5. áratugnum varð hugtakið musique concrete til, en sú stefna fól í sér að taka hljóð úr umhverfinu upp á segulband og klippa þau til og nota til tónsmíða. Upp úr 1950 fóru elektrónísk tónlistarstúdíó að spretta upp í Evrópu, Bandaríkjunum og Japan. Þar fóru fram tilraunir og rannsóknir og voru þau helsti vettvangur nýjunga í tónsköpun 20. aldarinnar. Tölvurnar tóku smám saman yfir og í dag er tölvutónlist notuð jöfnum höndum í popptónlist og klassískri nútímatónlist.

Samfara þessari þróun hafa tónskáld sífellt verið að leita að nýjum hljóðum úr hefðbundnum hljóðfærum, prófað hefur verið að banka í sellókassann, ná nýjum hljóðum úr blásturshljóðfærunum, strengirnir innan í píanóinu eru plokkaðir og allavega hlutir settir inn í það. Þetta kallast á ensku prepared piano. Margir þessara 20. aldar hljóðgjafa hefðu hljómað sem argasti hávaði í eyrum tónlistarunnenda fyrri alda og gera sjálfsagt enn í eyrum sumra nútímamanna.

Hvað aðgreinir þá tónlist frá hávaða? Við skulum gefa okkur að skilgreining 19. aldar mannsins standist ekki lengur, að skilningur okkar hafi víkkað talsvert út.

Eru þá öll hljóð tónlist? Er fuglasöngur, brimhljóð og vélarhljóð tónlist? Erum við búin að brjóta öll mörk og hömlur og er allt leyfilegt? Já sennilega er allt leyfilegt, en það þýðir ekki að öll hljóð eins og þau koma fyrir í umhverfi okkar sé sjálfkrafa hægt að flokka sem tónlist. Flestir eru örugglega sammála um að fuglasöngur og brimhljóð geti látið í eyrum eins og fegursta tónlist, en tónlist er meira en hljóð. Tónlist er listform og þar með mannlegt tjáningarform og sem slíkt fullt af merkingu, ræðri og óræðri. Tónlist hefur margskonar skírskotun, hún vekur tilfinningar og höfðar til greindar mannsins. Tónlist hefur höfund og áheyranda, sem getur upplifað tónlist á margvíslegan hátt.

Niðurstaðan er því sú að öll hljóð í kringum okkur geti verið hráefni í tónlist, hvort sem hljóðið kemur úr mannsbarka, fuglsbarka, hljóðfæri, tölvu eða vél. En hljóð er ekki orðið tónlist fyrr en mannleg hugsun er búin að koma því inn í eitthvert heildarform, sem hefur merkingu fyrir höfundinn og áheyrandann.

En hvað er þá hávaði? Eflaust er mjög einstaklingsbundið hvaða hljóð hver og einn flokkar sem hávaða, en orðið hefur á sér frekar neikvæðan blæ. Desibel eru mælikvarði á styrk hljóðs og er venjulega talað um að sársaukamörkum sé náð við 120 dB styrk. Þetta þýðir að manni líður líkamlega illa þegar þessum styrk er náð. Í venjulegu daglegu umhverfi er hljóðstyrkurinn oft í kringum 60 - 70 dB og hljóð í loftpressu er um 110 dB.

Flestum líður illa í hávaða, löngu áður en sársaukamörkum er náð, en inn í mat hvers einstaklings á hávaða kemur jafnframt persónulegur smekkur á hvaða hljóð séu falleg og hver ekki. Sinfóníuhljómsveit getur til dæmis framleitt býsna mikinn hljóðstyrk, en sennilega myndu fáir nota orðið hávaði í neikvæðri merkingu orðsins um sinfóníu eftir Beethoven. Sami einstaklingur væri hins vegar vís til að flokka vélarhljóð eða ískur sem hávaða, jafnvel þó að hljóðstyrkurinn væri mun lægri en í sinfóníunni. Allir kannast við hljóðstyrkinn sem rafmögnuð rokkhljómsveit gefur frá sér, sumir forðast fyrirbærið en aðrir eru tilbúnir að borga of fjár til að upplifa það.

Svarið við spurningunni er því ekki einhlítt. Þó að hægt sé að tína til ýmsar skilgreiningar þá er matið á því hvenær hljóð flokkist sem hávaði og hvenær sem tónlist að einhverju leyti háð persónulegum smekk, menningarumhverfi og tíma.

Mynd: Vollmer W. Fries Lecture Series

...