- Níundi áratugurinn var kallaður "eighties", hvað er þessi kallaður?
- Hvaða heitir áratugurinn sem er núna á Íslandi og í Bandaríkjunum?
- Allir vita að níundi áratugur er oft kallaður eighties og sá tíundi nineties og svo framvegis. En hvað kallar maður fyrsta áratug þessarar aldar?
Í ensku eru heiti áratuganna einföld. Þeir eru skrifaðir með tölustöfum og bókstafnum s er bætt við aftast til að tákna fleirtölu. Hér eru þeir allir skráðir og sýnt hvernig á að lesa úr þeim:
Skrifað | Lesið |
1900s | nineteen hundreds |
1910s | nineteen tens |
1920s | nineteen twenties eða twenties |
1930s | nineteen thirties eða thirties |
1940s | nineteen forties eða forties |
1950s | nineteen fifties eða fifties |
1960s | nineteen sixties eða sixties |
1970s | nineteen seventies eða seventies |
1980s | nineteen eighties eða eighties |
1990s | nineteen nineties eða nineties |
Rétt er að taka fram að sumir áratugirnir eru algengari í ræðu og riti en aðrir. Afar fátítt er til dæmis að talað sé um 'the 1900s' eða 'the 1910s' en flestir hafa líklega heyrt um 'the roaring twenties'. Á Englandi er frekar vísað til fyrsta áratugar síðustu aldar sem 'the Edwardian period' en talað sé um 'the 1900s'. Ástæðan fyrir því er að Játvarður konungur VII ríkti árin 1901-1910. Samkvæmt þessari málvenju sem hér hefur verið tíunduð er áratugurinn sem nú er, skrifaður á ensku sem '2000s' og úr því er lesið 'twenty hundreds'. Næsti áratugur er svo '2010s' sem er lesið 'twenty tens' og svo framvegis. Við höfum einnig rekist á önnur heiti yfir fyrsta áratug þessarar aldar, svo sem heitin 'the Nillies' dregið af orðinu 'nil' sem merkir ekkert eða núll og 'the 0-0s' borið fram sem 'oh-ohs'. Mynd:
- Wikipedia - List of 1920s jazz standards. (Sótt 11.7.2018).