Þekktar eru 15 deilitegundir eldsalamandra sem eru með mismunandi mynstur en allar eru þær gular og svartar á lit. Þessi áberandi svartguli litur er aðvörun til hugsanlegra afræningja en í skinni eldsalamandra eru frumur sem seyta eitruðu efnasambandi sem getur valdið þeim miklum sviða sem vogar sér að ráðast á þær. Náttúruleg heimkynni eldsalamandra eru á meginlandi Evrópu. Þær finnast allt norður til norðurhéraða Þýskalands og austur til Úkraínu. Einnig finnast þær víða á Pýreneaskaganum, um allt Frakkland, Ítalíu, Niðurlönd og um allan Balkanskaga.
Eldsalamöndrur lifa venjulega í 400-1.000 metra hæð yfir sjávarmáli og þær velja sér yfirleitt skógi vaxnar hlíðar eða fjallendi nærri vatnasvæðum til búsetu. Þó þær séu með öllu ósyndar sækja þær í raklendi eins og flestar aðrar salamöndrur. Eldsalamöndrur eru næturdýr, það er að segja þær veiða á nóttinni en hafa hægt um sig yfir daginn. Laufskógar eru algengasta búsvæði þeirra þar sem þær geta leynst yfir daginn undir rotnandi gróðri skógarbotnsins eða á öðrum felustöðum. Þegar skyggja tekur yfirgefa þær felustaði sína í leit að æti. Helsta fæða þeirra eru ýmsar tegundir landhryggleysingja svo sem köngulær, skordýr, ánamaðkar eða sniglar. Eldsalamöndrur eru óðalsdýr. Karldýrin helga sér heimasvæði sem er að meðaltali 8-9 fermetrar að stærð en kvendýrin eiga að öllu jöfnu stærra svæði, um 13 fermetra að meðaltali.
Eldsalamöndrur eru tiltölulega vinsæl gæludýr víða í Evrópu en eigendurnir þurfa að gæta þess að eðlunum verði ekki of heitt. Hitastig yfir 22°C getur reynst þeim lífshættulegt. Margir gæludýraeigendur geyma því eldsalamöndrur sínar í óupphituðum kjöllurum eða bílskúrum. Mikilvægt er að hafa búr þeirra það stór að þær geti hreyft sig um og einnig þurfa að vera fylgsni þar sem dýrin geta haldið til yfir daginn. Óþarfi er að hafa mikla raflýsingu hjá eldsalamöndrum þó þær séu í kjöllurum eða bílskúrum svo lengi sem dagsljós berst til þeirra og þær verði varar við dægursveiflu. Reynslan hefur sýnt að ef eldsalamöndrum er haldið vakandi yfir daginn sýna þær ýmis streitueinkenni og reyna að komast upp úr búrinu og eiga þá á hættu að tapa lífinu í öllum hamaganginum. Því þurfa þeir sem halda eldsalamöndrur í búri að gæta þess að leyfa þeim að hvílast yfir daginn.
Ef farið er eftir þessum ábendingum og þær fá næga fæðu og vatn, aðlagast eldsalamöndrur vel að gæludýralífi. Það hefur gefið góða raun að færa þeim reglulega á sama staðinn, til dæmis á steinhellu í búrinu, lítil skorkvikindi eða aðra dauða hryggleysingja. Eldsalamöndrum líður betur ef umhverfið er sem fjölskrúðugast með plöntum og jafnvel laufi á botninum. Síðast en ekki síst er stranglega bannað að handfjatla eldsalamöndrur, þær eru ekki gæludýr eins og til dæmis hundar, kettir og eðlur sem hægt er að taka upp og klappa. Húð salamandra, eins og annarra froskdýra, er rök og afar viðkvæm fyrir ýmsum kemískum efnum, jafnvel í örlitlu magni. Salamöndrur eru því mun móttækilegri fyrir utanaðkomandi efnum en þekkist hjá öðrum hópum hryggdýra, til dæmis efnum eins og sápum eða ýmis konar snyrtiefnum, sem geta auðveldlega skaðað þær. Skoðið einnig önnur svör um salamöndrur eftir sama höfund: Myndir: