Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Getur þú sagt mér eitthvað um kómódódreka?

Jón Már Halldórsson

Kómódódrekinn eða eyjafrýna (Varanus komodoensis, e. Komodo dragon) er kenndur við eyjuna Kómódó undan ströndum Súmötru í Indónesíu, en þar og á nokkrum nágrannaeyjum meðal annars Rinca, Padar, Flores, Gili Motang og Owadi Sami, á hann heimkynni sín. Drekinn gengur undir mörgum heitum meðal eyjaskeggja til að mynda buaja darat sem á íslensku útleggst sem landkrókódíllinn.

Kómódódrekinn er stærsta núlifandi eðla heims. Reyndar er önnur eðla af sömu ætt sem lifir á Papúa Nýju-Gíneu og nefnist á fræðimáli Varanus salvadorii (e. Papua monitor) eða sundfrýna venjulega lengri, mæld frá trýni og aftur að skotti. En líkamsþyngdin er ekki sambærileg á nokkurn hátt, kómódódrekinn er það sterklega byggður að papúadrekinn virkar ræfilslegur í samanburði.



Vestrænum náttúrufræðingum var ekki kunnugt um þessa stórvöxnu eðlu fyrr en árið 1910. Þá fékk náttúrufræðingurinn Peter Ouwens, stjórnandi dýrafræðisafnsins í Bogor á Jövu, eintak til skoðunar. Hann skrifaði ítarlega grein um niðurstöður rannsókna sinna á drekanum sem birt var í evrópskum vísindatímaritum árið 1912. Þá fyrst gat almenningur og vísindasamfélagið lesið um eðluna. Á næstu áratugum voru nokkur hundruð kómódódrekar veiddir lifandi og fluttir í dýragarða í Evrópu og Norður-Ameríku. Vistfræði hans var mönnum þó lítið kunn þangað til bandaríski vísindamaðurinn Walter Auffenberg setti upp rannsóknaraðstöðu á eyjunni Kómódó árið 1969 þar sem hann gat rannsakað kómódódrekann í sínum náttúrulegu heimkynnum.

Kómódódrekar eru mjög stórir. Fullorðin karldýr geta orðið allt að 150 kg og rúmlega 3 metrar á lengd, en venjulega eru drekarnir um 70 kg. Nýklakin ungviði eru aðeins um 100 g að þyngd og um 45 cm á lengd. Fyrstu mánuðina lifa þau í trjám þar sem fullorðin dýr hika ekki við að gleypa ungana ef til þeirra næst. Nái dýrin fullorðinsaldri geta þau orðið mjög langlíf, allt að 100 ára gömul.

Sennilega eru hræ meginuppistaða í fæðu kómódódreka en þeir veiða sér einnig til matar. Veiðiaðferðir drekans byggjast á árásum úr launsátri líkt og hjá hlébörðum og tígrisdýrum. Þeir eru sprettharðir en hafa þó afar lítið þol. Ef launsátrið rennur út í sandinn á drekinn því ekki mikla möguleika á að hlaupa bráðina uppi. En dýrið er ekki hólpið þó það nái að stinga drekann af því ef hann hefur náð að bíta það illa þá deyr það fljótlega. Lengi vel töldu menn ástæðuna fyrir því vera að bráðin fengi blóðeitrun vegna mikillar bakteríuflóru í kjafti drekanna. Nýlega hafa menn hins vegar komist að því að kómódódrekar hafa stóra eiturkirtla og eitrið í þeim kemur í veg fyrir storknun blóðs og víkkar æðar þess sem verður fyrir því.

Kómódódrekar éta bráðina óvenju hratt. Þeir geta að vísu ekki tuggið, sem er aðeins spendýrum gefið, heldur rífa þeir kjötið í sig og er snöggir að. Vísindamenn hafa orðið vitni að því að 50 kg kvendýr hafi með offorsi rifið í sig 35 kg villisvín á aðeins 17 mínútum. Kómódódrekar geta belgt sig út af kjöti og bætt á sig magni sem nemur allt að 80% af líkamsþyngd þeirra.



Kómódódrekar eru sífellt að reka tunguna út úr sér líkt og eðlur og slöngur en með því eru þeir að „smakka“ á loftinu og athuga hvort bráð sé nærri. Aðferðin er í stuttu máli sú að þeir safna lofti á tunguna, stinga henni síðan upp í sig og láta tungubroddana (því tungan er klofin) snerta skynfæri í munninum sem nefnist „líffæri Jacobsons“. Þetta skynfæri getur greint sameindir sem fljóta um loftið, til dæmis sameindir sem berast frá öðrum dýrum, og þannig geta drekarnir vitað hvort bráð er í nánd.

Rannsóknir hafa sýnt að kómódódrekar nota sjónina einnig við veiðar og þeir geta séð sæmilega út frá sér. Sjónin er þó mun takmarkaðri en hjá flestum spendýrum og fuglum. Þeir styðjast sömuleiðis við heyrnina að einhverju leyti en hún takmarkast við tíðnisviðið 400-2000 Hz.

Kómódódrekar eru miklir einfarar. Fyrir utan æxlunartímann koma fullorðin dýr aðeins saman við hræ til að éta ef nóg er til skiptanna. Eftir æxlun verpir kvendýrið um það bil 20 eggjum að meðaltali og tekur útungunin um 7 mánuði.

Kómódódrekar hafa orðið illa úti á undanförnum áratugum sökum veiða en ýmsir safnarar hafa sóst hart eftir að ná eintaki af drekanum. Nú er tegundin strangfriðuð og er vel fylgst með viðgangi hennar. Eftir að alfriðun gekk í gildi hefur stofnstærðin aukist eitthvað og telur nú sennilega á bilinu 5000–6000 dýr. Flestir kómódódrekar eru á eyjunni Flores en þar eru um 2 þúsund dýr. Á Kómódó eru um 1700 dýr, um 1300 dýr á Rinca og fæstir eru drekarnir á smáeyjunni Gili Motang eða um 100 dýr.

Til að tryggja friðun hafa flest þau svæði þar sem drekarnir lifa verið gerð að verndarsvæðum. Árið 1980 var Kómódó þjóðgarðurinn stofnaður en hann nær yfir 1817 km svæði í indónesíska eyjaklasanum. Innan þjóðgarðsins eru eyjarnar Kómódó, Rinca og Padar auk fleiri smáeyja og hafsvæðis í kring. Kómódó þjóðgarðurinn er nú á heimsminjaskrá UNESCO.

Kómódódrekar geta orðið mönnum stórhættulegir þar sem þeir sýna af sér geysimikla snerpu og geta hlaupið hraðar en menn. Fjöldi ferðamanna hefur orðið fyrir árásum þessara dýra og margir hlotið sársaukafullan bana af.

Heimildir, myndir og frekari fróðleikur:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

7.10.2004

Spyrjandi

Stefán E., f. 1990

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Getur þú sagt mér eitthvað um kómódódreka?“ Vísindavefurinn, 7. október 2004, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4548.

Jón Már Halldórsson. (2004, 7. október). Getur þú sagt mér eitthvað um kómódódreka? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4548

Jón Már Halldórsson. „Getur þú sagt mér eitthvað um kómódódreka?“ Vísindavefurinn. 7. okt. 2004. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4548>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Getur þú sagt mér eitthvað um kómódódreka?
Kómódódrekinn eða eyjafrýna (Varanus komodoensis, e. Komodo dragon) er kenndur við eyjuna Kómódó undan ströndum Súmötru í Indónesíu, en þar og á nokkrum nágrannaeyjum meðal annars Rinca, Padar, Flores, Gili Motang og Owadi Sami, á hann heimkynni sín. Drekinn gengur undir mörgum heitum meðal eyjaskeggja til að mynda buaja darat sem á íslensku útleggst sem landkrókódíllinn.

Kómódódrekinn er stærsta núlifandi eðla heims. Reyndar er önnur eðla af sömu ætt sem lifir á Papúa Nýju-Gíneu og nefnist á fræðimáli Varanus salvadorii (e. Papua monitor) eða sundfrýna venjulega lengri, mæld frá trýni og aftur að skotti. En líkamsþyngdin er ekki sambærileg á nokkurn hátt, kómódódrekinn er það sterklega byggður að papúadrekinn virkar ræfilslegur í samanburði.



Vestrænum náttúrufræðingum var ekki kunnugt um þessa stórvöxnu eðlu fyrr en árið 1910. Þá fékk náttúrufræðingurinn Peter Ouwens, stjórnandi dýrafræðisafnsins í Bogor á Jövu, eintak til skoðunar. Hann skrifaði ítarlega grein um niðurstöður rannsókna sinna á drekanum sem birt var í evrópskum vísindatímaritum árið 1912. Þá fyrst gat almenningur og vísindasamfélagið lesið um eðluna. Á næstu áratugum voru nokkur hundruð kómódódrekar veiddir lifandi og fluttir í dýragarða í Evrópu og Norður-Ameríku. Vistfræði hans var mönnum þó lítið kunn þangað til bandaríski vísindamaðurinn Walter Auffenberg setti upp rannsóknaraðstöðu á eyjunni Kómódó árið 1969 þar sem hann gat rannsakað kómódódrekann í sínum náttúrulegu heimkynnum.

Kómódódrekar eru mjög stórir. Fullorðin karldýr geta orðið allt að 150 kg og rúmlega 3 metrar á lengd, en venjulega eru drekarnir um 70 kg. Nýklakin ungviði eru aðeins um 100 g að þyngd og um 45 cm á lengd. Fyrstu mánuðina lifa þau í trjám þar sem fullorðin dýr hika ekki við að gleypa ungana ef til þeirra næst. Nái dýrin fullorðinsaldri geta þau orðið mjög langlíf, allt að 100 ára gömul.

Sennilega eru hræ meginuppistaða í fæðu kómódódreka en þeir veiða sér einnig til matar. Veiðiaðferðir drekans byggjast á árásum úr launsátri líkt og hjá hlébörðum og tígrisdýrum. Þeir eru sprettharðir en hafa þó afar lítið þol. Ef launsátrið rennur út í sandinn á drekinn því ekki mikla möguleika á að hlaupa bráðina uppi. En dýrið er ekki hólpið þó það nái að stinga drekann af því ef hann hefur náð að bíta það illa þá deyr það fljótlega. Lengi vel töldu menn ástæðuna fyrir því vera að bráðin fengi blóðeitrun vegna mikillar bakteríuflóru í kjafti drekanna. Nýlega hafa menn hins vegar komist að því að kómódódrekar hafa stóra eiturkirtla og eitrið í þeim kemur í veg fyrir storknun blóðs og víkkar æðar þess sem verður fyrir því.

Kómódódrekar éta bráðina óvenju hratt. Þeir geta að vísu ekki tuggið, sem er aðeins spendýrum gefið, heldur rífa þeir kjötið í sig og er snöggir að. Vísindamenn hafa orðið vitni að því að 50 kg kvendýr hafi með offorsi rifið í sig 35 kg villisvín á aðeins 17 mínútum. Kómódódrekar geta belgt sig út af kjöti og bætt á sig magni sem nemur allt að 80% af líkamsþyngd þeirra.



Kómódódrekar eru sífellt að reka tunguna út úr sér líkt og eðlur og slöngur en með því eru þeir að „smakka“ á loftinu og athuga hvort bráð sé nærri. Aðferðin er í stuttu máli sú að þeir safna lofti á tunguna, stinga henni síðan upp í sig og láta tungubroddana (því tungan er klofin) snerta skynfæri í munninum sem nefnist „líffæri Jacobsons“. Þetta skynfæri getur greint sameindir sem fljóta um loftið, til dæmis sameindir sem berast frá öðrum dýrum, og þannig geta drekarnir vitað hvort bráð er í nánd.

Rannsóknir hafa sýnt að kómódódrekar nota sjónina einnig við veiðar og þeir geta séð sæmilega út frá sér. Sjónin er þó mun takmarkaðri en hjá flestum spendýrum og fuglum. Þeir styðjast sömuleiðis við heyrnina að einhverju leyti en hún takmarkast við tíðnisviðið 400-2000 Hz.

Kómódódrekar eru miklir einfarar. Fyrir utan æxlunartímann koma fullorðin dýr aðeins saman við hræ til að éta ef nóg er til skiptanna. Eftir æxlun verpir kvendýrið um það bil 20 eggjum að meðaltali og tekur útungunin um 7 mánuði.

Kómódódrekar hafa orðið illa úti á undanförnum áratugum sökum veiða en ýmsir safnarar hafa sóst hart eftir að ná eintaki af drekanum. Nú er tegundin strangfriðuð og er vel fylgst með viðgangi hennar. Eftir að alfriðun gekk í gildi hefur stofnstærðin aukist eitthvað og telur nú sennilega á bilinu 5000–6000 dýr. Flestir kómódódrekar eru á eyjunni Flores en þar eru um 2 þúsund dýr. Á Kómódó eru um 1700 dýr, um 1300 dýr á Rinca og fæstir eru drekarnir á smáeyjunni Gili Motang eða um 100 dýr.

Til að tryggja friðun hafa flest þau svæði þar sem drekarnir lifa verið gerð að verndarsvæðum. Árið 1980 var Kómódó þjóðgarðurinn stofnaður en hann nær yfir 1817 km svæði í indónesíska eyjaklasanum. Innan þjóðgarðsins eru eyjarnar Kómódó, Rinca og Padar auk fleiri smáeyja og hafsvæðis í kring. Kómódó þjóðgarðurinn er nú á heimsminjaskrá UNESCO.

Kómódódrekar geta orðið mönnum stórhættulegir þar sem þeir sýna af sér geysimikla snerpu og geta hlaupið hraðar en menn. Fjöldi ferðamanna hefur orðið fyrir árásum þessara dýra og margir hlotið sársaukafullan bana af.

Heimildir, myndir og frekari fróðleikur: ...