Spelti er harðgert, þarf ekki mikinn áburð og krefst lítils af jarðveginum. Stór hluti speltis (um 35%) er grófgert hismi. Það verndar plöntuna fyrir ýmiss konar mengun og plöntusjúkdómum. Spelti þrífst vel við erfiðar aðstæður en gefur hins vegar ekki eins mikla uppskeru og venjulegt hveiti vegna þess að stór hluti speltisins er ekki nýttur. Hismið veldur því einnig að það er erfitt að vinna speltið. Það þarf að mala kornið tvisvar sinnum í myllunni til að losa það frá en hismi venjulegs hveitis fellur af við þreskinguna. Vinnsluferli speltis er af þessum sökum um 6-10 sinnum lengra en hjá venjulegu hveiti og öðrum skyldum tegundum. Í samkeppni við annað korn á nýliðinni öld hefur spelti því orðið að láta í minni pokann sökum þess hversu dýrt það er í framleiðslu. Þetta endurspeglast í hærra verði og minna framboði. Uppruni og saga
Deilt er um uppruna speltis en margt bendir til þess að hann sé að finna í Íran fyrir einum 8 þúsund árum. Vegna hörku hismisins þoldi speltið auðveldlega langflutninga með manninum og náði ræktun þess því um alla Evrópu þúsundum ára á undan venjulegu hveiti. Rekja má ræktunina í Evrópu með vissu aftur til 4000 f. Kr. Spelti var til að mynda í maga Grauballe-mannsins sem talinn er vera frá bronsöld og fannst í mýrlendi í Danmörku á síðustu öld. Í Biblíunni er spelti nokkrum sinnum nefnt, í 2. Mósebók 9:30, Jesaja 28:25 og Esekiel 4:9. Vitað er að spelti var mikið notað á tímum Rómverja til forna. Það er talið hafa verið ein meginuppistaðan í hinni frægu polentu Ítala áður en Kólumbus færði þeim korn frá Ameríku á 15. öld. Í riti nunnunnar, tónskáldsins og sjáandans Hildegard von Bingen (1098-1179) Physica er að finna ýtarlega umfjöllun um spelti en ritið er um nytjaplöntur og -jurtir. Spelti var meginuppistaðan í fæðu þessara sögufrægu nunnu og hún hampaði því mjög sem allra meina bót, einkum fyrir jákvæð áhrif á meltingu og andlega líðan. Í seinni tíð hefur spelti verið mikið ræktað víða um heim og náði ræktunin meðal annars vestur um haf. Á nýliðinni öld laut speltisrækt í lægra haldi fyrir öðru korni. Dýr og tímafrek framleiðsla þess þótti ekki arðbær í harðnandi samkeppni. Eftirspurn eftir lífrænni ræktun hefur aftur á móti stóraukist á undanförnum árum í kjölfar almennrar heilsuvakningar og þá hefur framleiðsla speltis margfaldast á undanförnum tveimur áratugum. Næringargildi
Endurreisn speltis má öðru fremur rekja til ýmissa næringarfræðilegra eiginleika þess sem sjá má í töflunum tveim hér fyrir neðan. Þær miðast báðar við um það bil fjórðungsbolla af spelti (56,7g):
Grunnþættir | Magn (g) | % af RDS* |
Hitaeiningar | 189 | Á ekki við |
Prótín | 8 | Á ekki við |
Kolvetni | 40 | Á ekki við |
Fita | 2 | Á ekki við |
Trefjar | 4 | 19 |
Vítamín og steinefni | Magn (mg) | % af RDS |
B1-vítamín (þíamín) | 0,37 | 34 |
B2-vítamín (ríbóflavín) | 1,30 | 118 |
B3-vítamín (níasín) | 4,80 | 34 |
Kopar | 0,35 | 14 |
Járn | 2,04 | 14 |
Mangan | 1,24 | 35 |
Zink | 1,93 | 16 |
- Bakað úr spelti: Fríða Sophía Böðvarsdóttir. PP Forlag. 2002.
- Matarást: Alfræðibók um mat og matargerð. Nanna Rögnvaldardóttir. Iðunn. 1998.
- Næring og hollusta: Elísabet S. Magnúsdóttir. Iðunn. 1992.
- Organic and Wholefoods: André Dominé (ritstj.). Könemann. 1999.
- Biochemistry: Mathews & van Holde (3ja útg.), bls. 287. The Benjamin/Cummings Publishing Comp., Inc. 1999.
- The Spelt Cookbook: Hegla Hughes, Penguin Putnam Inc.
- Fremtidens brod af fortidens korn: Jörn Ussing Larsen. Olivia.
- Henriette's plant photos.