Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Æxlunarmáti krossköngulóa er mjög óvenjulegur. Sæði karldýrsins er framleitt í kynkirtlum sem tengjast ekki þreifurum sem gegna hlutverki getnaðarlims. Þegar köngulærnar verða kynþroska ummyndast þreifararnir og geta þá tekið við og geymt sæði. Þreifararnir eru oft verulega flóknir að gerð og ólíkir eftir tegundum.
Karlinn lætur sæðið drjúpa í lítinn þéttriðinn vef sem hann spinnur og síðan dýfir hann þreifurunum í sæðisdropann og fyllir lítinn belg á þreifurunum af sæðinu. Þegar karlinn finnur maka, reynir hann að nálgast hann af varfærni og að afloknum flóknum og margslungnum biðilsleik stingur hann þreifurum inn í kynop kerlunnar.
Karlkönguló (til vinstri) nálgast kvenkönguló.
Biðilsleikur krossköngulóa fer þannig fram að karldýrið festir eins konar biðilsþráð við vef kvendýrsins og leikur líkt og hörpuleikari á strenginn með broddum sem eru á öðru fótaparinu. Slíkir leikir geta staðið í allt að klukkutíma áður en kvendýrið hleypir karlinum að sér.
Eftir mökun reynir karlinn að koma sér eins hratt í burtu og hægt er enda reyna kvendýr krossköngulóa að hremma karldýrið og éta það!
Sæðið sem kvendýrið fær hjá karlinum dugir henni oft ævilangt. Eggin frjóvgast um leið og hún verpir þeim og fljótlega klekjast út ungar sem eru nákvæm eftirlíking foreldra sinna en myndbreytast ekki líkt og tíðkast meðal margra skordýra. Þess í stað vaxa þau með hamskiptum þangað til þau verða kynþroska.
Líffræðingar hafa lengi velt því fyrir sér af hverju kvendýr sumra köngulóategunda éti karlanna eftir mökun, þetta þekkist meðal annars hjá mörgum tegundum íslenskra köngulóa, til dæmis krossköngulónni, en í reynd er það minnihluti köngulóa sem gera svo. Ekki er vitað af hverju köngulær gera þetta en sú kenning sem þykir líklegust er að þær éti karlanna til að fá næringu sem nauðsynleg er fyrir þroska eggjanna.
Heimild og mynd:
Jón Már Halldórsson. „Hvers vegna éta kvenkyns köngulær karldýrin eftir mökun?“ Vísindavefurinn, 13. september 2004, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4506.
Jón Már Halldórsson. (2004, 13. september). Hvers vegna éta kvenkyns köngulær karldýrin eftir mökun? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4506
Jón Már Halldórsson. „Hvers vegna éta kvenkyns köngulær karldýrin eftir mökun?“ Vísindavefurinn. 13. sep. 2004. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4506>.