Eftir lok síðari heimsstyrjaldar á 20.öld fóru menn að nota gerviefni unnin úr jarðolíu í ilmvötn og ilmolíur. Notkun náttúrulegra efnasambanda minnkaði eftir því sem notkun jarðolíusambanda jókst. Í dag eru flest ilmvötn búin til úr gerviefnum enda eru gerviefnin ódýrari í framleiðslu en náttúruleg ilmefni. Ekki er hægt að segja að notkun jarðolíu í ilmvötn sé umhverfisvæn þar sem olían er takmörkuð auðlind sem fyrr eða síðar mun ganga til þurrðar. Þannig eru ilmvötn unnin úr olíuefnum og gerviefnum ekki jafn umhverfisvæn og þau náttúrulegu ilmvötn sem notuð voru fyrr á tímum. Til þess að finna umhverfisvænt ilmvatn þarf að finna ilmvatn sem er framleitt á sjálfbæran hátt úr náttúrulegum efnum. Reikna má með að slíkt ilmvatn sé dýrara en venjuleg ilmvötn framleidd úr gerviefnum. Vaxandi umræða er í Bandaríkjunum og Bretlandi um það hvort ilmvötn geti verið heilsuskaðleg. Fólk með fjölofnæmi getur orðið veikt af því einu að anda að sér ilmvatni sem einhver annar er að nota. Fólk er einnig mjög misviðkvæmt fyrir lykt og því getur lykt sem einum finnst góð verið öðrum til mikils ama. Það gildir því um ilmvötn eins og svo margt annað að það er best að nota þau í hófi. Ekki er æskilegt að nota sterk ilmvötn nálægt ungabörnum og hafa ber í huga að mikil ilmvatnsnotkun getur valdið ofnæmisviðbrögðum. Niðurstaðan er því sú, að rétt er að taka tillit til umhverfisins og nota ilmvötn í hófi. Heimildir og mynd:
- Kirk-Othmer. Concise Encyclopedia of Chemical Technology. 4th Edition. Volume 2. New Jersey, 2003.
- Paraquad
- June Russell's Health Facts
- Budget Stock Photo