Hvað getið þið sagt mér um myndun mangankúlna á hafsbotni og finnast slíkar kúlur við Ísland?Í nóvember 1990 var gerður út leiðangur á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni til að kanna stuttan kafla Reykjaneshryggjar þar sem þá stóð yfir jarðskjálftahrina. Botnsýni voru tekin og í einu þeirra fundust útfellingar af manganoxíði. Leiðangrinum var fylgt eftir með öðrum, á Árna Friðrikssyni vorið 1991. Áður hafði mangangrýti komið í vörpu togara um 75 km sunnar á hryggnum. Í framhaldi af leiðöngrunum tveimur var tekin saman skýrsla, Rannsóknir á mangangrýti á Reykjaneshrygg (Hafsbotnsnefnd iðnaðarráðuneytisins, september 1992), þaðan sem texti hér á eftir er fenginn.
Manganútfellingum hefur verið skipt í fjóra flokka eftir myndunaraðstæðum:
- Útfelling úr vatni — hæg setmyndun í sjó við oxandi aðstæður.
- Jarðhitaútfelling — setmyndun úr jarðhitavökva á eldvirkum svæðum.
- Útfelling vegna efnaveðrunar.
- Útfelling vegna flakks mangans í setstafla.
Manganhnyðlingar minna á lítið eitt ílangar kúlur. Þeir eru gerðir úr örsmáum kristöllum, eru mjög misstórir og iðulega lagskiptir líkt og laukur. Í manganhnyðlingnum miðjum er ævinlega kjarni eða kím sem hann hefur byrjað að vaxa um. Vaxtarhraðinn er mjög mismunandi eftir staðsetningu, nefnilega framboði efnis, á bilinu 1 mm á milljón árum til 1 mm á ári. Manganhnyðlingar finnast í flestum höfum heims og á nánast öllu dýpi. Algengastir eru þeir þó á djúpsjávarsvæðum sem einkennast af hægri setmyndun. Efnið (mangan) getur verið af ýmsum toga, frá neðansjávarhverum (líkt og jarðhitasvæðunum á Reykjanesskaga), úr setinu sjálfu, eða það hefur losnað við efnarof á landi. Manganið á Reykjaneshrygg myndar ekki kúlur (hnyðlinga) heldur hefur það fallið út í æðum og milli korna í móbergsseti. Útfellingarnar tengjast jarðhitavirkni á hryggnum og hefur málmurinn leystst úr berglögunum og borist í sjóinn með jarðhitavökva þar sem hann oxast og fellur út. Myndir: