Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þar sem nytjahænur hafa latínuheitið Gallus Domesticus, hefur þá „gamla“ íslenska hænan eitthvert annað nafn, til dæmis Gallus Domesticus Islandicus?
Nytjahænsni nútímans eru komin af svonefndum bankívahænsnum (Gallus gallus) en það er ein fjögurra tegunda innan ættkvíslar kambhænsna (Gallus). Hinar tegundirnar sem teljast til kambhænsna eru seylonhænsni (Gallus lafayetii) leppahæna (Gallus sonneratii) og jövuhæna (Gallus varius).
Nytjahænsnin eru flokkuð sem deilitegund frá Gallus gallus í Gallus gallus domesticus og þaðan í fjölmörg ræktunarafbrigði. Eitt þeirra er hin íslenska landnámshæna. Hún hefur ekki neitt sérstakt fræðilegt flokkunarheiti frekar en til dæmis íslenski fjárhundurinn sem ber aðeins tegundarheitið Canis familiaris líkt og önnur hundakyn heims.
Íslensku landnámshænsnin eru smávaxin, dökk eða dröfnótt. Rannsóknir á vefjaflokkagerð þeirra hafa sýnt að þau eru ólík öllu sem nú gerist á Norðurlöndum nema gömlum norskum hænsnum. Þetta er því líklega sami stofninn og landnámsmenn komu með.
Íslenska landnámshænan hefur ekki sérstakt fræðilegt flokkunarheiti. Nytjahænsn eru flokkuð sem deilitegund frá Gallus gallus í Gallus gallus domesticus.
Ekki er ljóst hvenær menn fóru fyrst að rækta hænsni en vitað er að í Grikklandi til forna og í Rómaveldi var umtalsverð hænsnarækt. Mátu Rómverjar hænsni svo mikils að þeir tengdu þau jafnvel trúarbrögðum og ræktuðu í hofum sínum heilög hænsni. Þau voru notuðu sem spásagnardýr og var fórnað fyrir stórorrustur. Hænsni voru meðal annars flutt í búrum með stórfylkjum Rómarhersins hvert sem var bæði til spáiðkunar og einnig til að fá ferskt fuglakjöt handa hermönnum. Nytjahænur dreifðust þannig um hið víðfeðma Rómarveldi.
Nytjahænsni bárust meðal annars til Provence í Frakklandi sem á tímum Rómverja tilheyrði Gallíu. Þar náði hænsnarækt að festa sterkar rætur og er það svæði enn þann dag í dag eitt mesta hænsnaræktarsvæði heims. Haninn varð þjóðartákn Galla og smám saman þróaðist sú hugmynd að hænsnin væru upprunnin í Gallíu. Á miðöldum var talað um Gallíufugla og eimir enn eftir af þessum hugmyndum í vísindaheitinu Gallus.
En villtu bankívahænsnin eru þó ekki evrópsk að uppruna heldur asísk. Rætur þeirra liggja á austanverðu Indlandi, Búrma og Indókína og þaðan bárust þau vestur á bóginn. Vitað er að fyrir um 3.500 árum voru alihænsni í Mesópótamíu og Persíu og að þau bárust til Miðjarðarhafsins um 700 fyrir Krist.
Þessi asíski upprunni varð Evrópumönnum ekki ljós fyrr en þeir komu til Indlands og tóku að rannsaka skóga landsins. Þar fundu þeir felugjarna hænsnfugla sem voru nákvæmlega eins og evrópsku hænurnar. Menn áttu í fyrstu erfitt með að trúa því að þessar hænur væru þær „upprunalegu“ og héldu að þær hefðu einhvern tímann verið fluttar frá Evrópu og sleppt lausum á Indlandi. Við rannsóknir kom síðan í ljós að svo reyndist ekki vera.
Hænsnarækt barst til Norður-Evrópu löngu áður en Ísland var numið en barst hingað til lands með landnámsmönnum. Víða í fornum sögnum og ritum koma hænsn við sögu, til dæmis má lesa um hanana Fjalar og Gullinkamb í Völuspá. Í Íslendingasögum er eitthvað minnst á hænur og má þar helst nefna Hænsna-Þóri sem ræktaði og seldi slíkan fiðurfénað.
Fáum sögum fer af hænsnarækt fyrr á tímum en í Ferðabók Eggerts og Bjarna frá ofanverðri 18. öld er minnst á sérkennilegt svart hænsnakyn. Þetta kyn hélst í einangrun í Öræfum en þegar dr. Stefán Aðalsteinsson tók að safna saman þessum hænsnfuglum árið 1974 til að tryggja varðveislu þeirra var engin slík hæna þar en nokkrar á afskekktum stöðum á Austfjörðum.
Íslenska hænan þótti ekki henta sem varphæna og um miðja síðustu öld hófst markviss ræktun erlendra tegunda. Sú tegund sem aðallega gefur okkur egg og kjöt í dag er upprunnin við Miðjarðarhafið og kallast hvítur Ítali.
Fyrir nokkrum árum stofnuðu eigendur og ræktendur landnámshænsna ræktunarfélag enda var íslenska landnámshænan þá fremur sjaldgæf sjón.
Heimildir:
Jón Már Halldórsson. „Hefur íslenska landnámshænan sérstakt fræðiheiti?“ Vísindavefurinn, 16. júlí 2004, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4410.
Jón Már Halldórsson. (2004, 16. júlí). Hefur íslenska landnámshænan sérstakt fræðiheiti? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4410
Jón Már Halldórsson. „Hefur íslenska landnámshænan sérstakt fræðiheiti?“ Vísindavefurinn. 16. júl. 2004. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4410>.