Með skautun er í stuttu máli átt við það að miðja jákvæðu hleðslunnar er þá ekki sú sama og miðja neikvæðu hleðslunnar. Ef rafeindirnar hafa til dæmis meiri tilhneigingu til að vera öðrum megin í sameindinni en hinum megin, þá raskast hleðsludreifingin og önnur hliðin fær svolitla jákvæða hleðslu en hin hliðin, með rafeindunum, fær neikvæða hleðslu. Þannig verður sameindin skautuð og myndar svokallað tvískaut (e. dipole).
Sameindir eins og F2 (flúor), I2 (joð) og fjöldi lífrænna sameinda eru hins vegar óskautaðar. Miðja jákvæðu hleðslunnar og miðja neikvæðu hleðslunnar eru þá einn og sami punkturinn. Myndin hér á eftir táknar samhverfa, óskautaða sameind.
Kraftar sem verka milli sameinda eru rafkraftar. Aðalatriðið er að hleðslur með gagnstæðu formerki (-+ eða +-) laðast hver að annarri en hleðslur með sama formerki (++ eða --) hrinda hvor annarri frá sér.
Rafeindirnar sem tilheyra tiltekinni sameind eru á stöðugri hreyfingu og mynda einskonar rafeindaský. Í óskautaðri sameind eru talsverðar líkur á að hleðslujafnvægið milli enda sameindarinnar raskist í örskamma stund þó að dreifing rafeindanna sé að meðaltali í jafnvægi. Þetta þýðir að sameindin getur skautast tímabundið þó að hún sé að jafnaði óskautuð.
Skautaða sameindin skapar rafsvið í kringum sig og veldur skautun í nálægri sameind sem er upphaflega óskautuð, og þannig koll af kolli.
Þessir kraftar sem verka milli óskautaðra sameinda kallast ýmist London-kraftar eða kraftar van der Waals sem eru kenndir við Hollendinginn Johannes Diederik van der Waals (1837-1923). Menn höfðu á hans dögum tekið eftir ýmsu sem kom á óvart í hegðun lofttegunda eða gasa, þar á meðal því að öll gös virtust taka hamskiptum við kólnun og breytast í vökva og síðan í storku. Van der Waals setti fram þá skýringu á þessu árið 1873 að veikir aðdráttarkraftar væru milli allra sameinda vegna skautunar.
Það var hins vegar ekki fyrr en árið 1930 sem þýsk-bandaríski eðlisfræðingurinn Fritz Wolfgang London (1900-1954) setti fram eðlisfræðilega skýringu á aðdráttarkraftinum milli óskautaðra sameinda. Til að lýsa kraftinum rétt notaði hann eðlisfræðikenningu sem þá var ný af nálinni og nefnist skammtafræði, en hún er oft nauðsynleg til að lýsa smáum hlutum eins og sameindum, rafeindum og atómkjörnum.
London-kraftar verka ekki aðeins milli sameinda heldur geta þeir einnig verkað milli stakra atóma. Þannig eiga þeir þátt í því að eðalgös (frumefnin í dálkinum lengst til hægri í lotukerfinu) geta myndað sameindir við lágt hitastig.
Hluti skýringarmynda er fenginn af síðunni chemguide.