Hér má sjá eitt af musterunum í borginni TulaStaða Tolteka milli Mayafólksins og Azteka er óljós og fornleifafræðinga greinir á um ýmislegt í því sambandi. Mayamenningin var glæsileg en hnignaði vegna ytri og innri aðstæðna. Toltekar voru herskáir og lögðu undir sig lendur Maya, en urðu fyrir miklum áhrifum frá menningu þeirra, ekki síst byggingarlist og myndlist.
Helsti guð þeirra var hinn fiðraði Quetzalcoatl. Mannfórnir voru algengar og ganga sögur um að jafnvel hundruðum eða þúsundum manna hafi verið fórnað á einum degi.
Yfirráð þeirra á hásléttu Mexíkó stóðu ekki nema í fáar aldir, kannski aðeins tvær. Þá komu Aztekar til sögunnar úr norðurátt. Um 1150 að okkar tímatali hófst síðan hin glæsta menning Azteka og Toltekar hurfu úr sögunni sem ráðandi afl í landinu.
Höfuðstaður Azteka var þar sem nú er Mexico City, höfuðborg Mexíkó. Sagan segir að þeir hafi séð hvítan örn sitja á kaktustré og talið það tákna að þar skyldu þeir setjast að. Örninn á kaktusnum er síðan eins konar skjaldarmerki landsins, eins og landvættirnir eru hjá okkur Íslendingum.
Toltekar voru fremur þiggjendur en gefendur í menningarefnum, en myndlist þeirra hefur þótt harla merkileg og byggingar þeirra standast samanburð við hið besta sem gert var í Mið-Ameríku á öldunum fyrir innrásir Spánverja á sextándu öld. Myndir:
- Tula og Quetzalcoatl