Hvaðan eru hraunmyndanir Dimmuborga komnar og hvenær urðu þau eldsumbrot?Um þetta efni skrifar Kristján Sæmundsson í greininni „Jarðfræði Kröflukerfisins“ (Náttúra Mývatns, ritstj. Arnþór Garðarsson og Árni Einarsson. Hið íslenska náttúrufræðifélag, Rvk. 1991). Fyrir rúmlega 2000 árum gaus í Þrengslaborgum og Lúdentsborgum og er það mesta hraungos á Mývatnssvæðinu eftir ísöld. Gossprungan er um 12 km löng og framhald hennar, hliðrað 5 km til vesturs, er gossprungan Borgir. Samanlagt gaus á um 16,5 km langri sprungu. Hraunið nefndi Sigurður Þórarinsson Laxárhraun yngra og áætlaði hann flatarmál þess um 220 km2 en rúmmálið 2-3 km3. Hraunið myndar botn Mývatns nema Ytriflóa og hefur flætt niður Laxárdal og Aðaldal og út í sjó við Skjálfanda. Þyrpingar gervigíga eru um allt hraunið frá Dimmuborgum og Mývatni niður í Aðaldal.
Um Dimmuborgir segir Kristján:
Dimmuborgir eru nokkurs konar hraunbóla í Laxárhrauni yngra, hlaðin upp úr þunnum hraunskánum. Hraunbólan er næstum hringlaga og um 2 km í þvermál. Hún er hæst í miðju, um 20 m yfir umhverfið, og aflíðandi halli út frá. Miðsvæðis í bólunni hefur verið hrauntjörn og runnið þunnar hraunskvettur út til hliðanna. Þannig hefur bólan smám saman byggst upp. Aðfærslan að henni hefur verið niðri í hrauninu ofan frá Þrengslaborgum. Þar hefur komið að hrauntjörnin brast fram (um Borgarás). Hemað hefur yfir hana og sjást hraunskarir innanvert í tjarnarstæðinu og á gas- eða gufustrompum þar sem pústað hefur upp úr hrauntjörninni. Neðan við hraunskarirnar sjást klóruför þar sem hraunstorkan hefur strokist við í undanhlaupinu. Í Dimmuborgum finnst nokkuð af gjalli og mikið af kleprum sem bendir til að þær séu í ætt við gervigíga, þó svo að þróunin hafi orðið önnur (Kristján Sæmundsson, bls. 80-81).Því er svo við að bæta að með orðinu „hraunbóla“ er átt við lágan lokaðan hraungúl eða opinn eldgíg utan eldstöðvarinnar sjálfrar. Í fyrra tilvikinu bólgnar hraunið upp vegna þess að hraunbráð streymir að gúlnum undir storkinni skán, eða eftir hraungöngum, og lyftir þannig yfirborðinu. Jón Steingrímsson lýsti því hvernig storkið hraun bólgnaði upp í Skaftáreldum - líkt og blaðra sem blásið er í - við það að bráð streymdi að undir storknuðu hraunyfirborðinu. Þetta ferli er alþekkt -- að hraun þykkni þannig „neðan frá“.
Hraunbóla Dimmuborga var hins vegar opinn gígur eða gígtjörn, líkastur lítilli dyngju, sem bráðin barst að undir hrauninu frá Þrengslaborgum, rann út yfir barmana og hlóð upp bóluna úr þunnum lögum. Lesa má meira um jarðfræði og náttúru Mývatns og nágrennis á vefsíðum Umhverfsstofnunar og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn. Myndir: Mats: Myndagallerí © Mats Wibe Lund