Ef upplýsingarnar sem heilinn fær samrýmast ekki finnum við fyrir ferðaveiki. Ef maður til dæmis situr í bíl og les bók senda skynfæri inneyrna boð um hreyfingu. Augun sjá aftur á móti aðeins kyrrstæða bók og senda boð í samræmi við það til heilans, það er að maður sé kyrr. Þessar upplýsingar samrýmast ekki og afleiðingin verður vanlíðan sem við þekkjum sem bílveiki. Það sama á við ef við lendum í ókyrrð í flugi. Líkaminn er þá á hreyfingu en augun senda boð um að við séum kyrr þar sem þau skynja ekki hreyfinguna. Í vægum tilfellum eru einkenni ferðaveiki órói og höfuðverkur en í alvarlegri tilfellum geta þau verið ógleði, uppköst, óeðlilega mikil svitnun og munnvatnsrennsli auk svima, kvíðatilfinningar og fölva í andliti. Kvíði fyrir ferðaveiki áður en lagt er af stað gerir illt verra. Gott er að einbeita sér að fyrirbyggjandi aðgerðum. Hér eru nokkur ráð til að draga úr líkum á að fá ferðaveiki:
- Sértu í flugvél eða skipi skaltu vera eins nálægt miðju rýmis og mögulegt er því þar er hreyfingin minnst.
- Sértu í bíl skaltu hafa augun á sjóndeildarhringnum en ekki einblína á hluti sem þeysa fram hjá. Það gæti einnig hjálpað að sitja í framsætinu.
- Snúðu fram frekar en aftur í bíl, skipi eða lest.
- Ekki sitja hjá eða tala við fólk með ferðaveiki; það eykur að öllum líkindum kvíða þinn.
- Forðastu lestur á meðan á ferðinni stendur.
- Borðaðu lítið í einu og sneiddu hjá brösuðum mat fyrir ferð og á meðan henni stendur. Ekki neyta áfengis og/eða annarra lyfja rétt fyrir eða á meðan á ferð stendur.
- Rannsóknir hafa sýnt að engifer getur dregið úr áhrifum ferðaveiki. Taktu engifertöflur eða tyggðu ferska engiferrót eða engifersælgæti. Piparmynta og te eru einnig gömul húsráð við ferðaveiki.
- Annar möguleiki er að taka andhistamínlyf. Mörg slík fást án lyfseðils. Oft þarf að taka slík lyf um klukkutíma fyrir brottför og geta þau valdið sljóleika. Slík lyf duga vel fyrir styttri ferðir.
- Lyf gegn ógleði koma einnig til greina, þar á meðal eru skópólamínplástrar. Sum þessara lyfja fást án lyfseðils. Plástrarnir eru settir bak við eyrað og geta dugað í allt að þrjá daga. Helstu aukaverkanir eru sljóleiki og munnþurrkur. Fólk með gláku og þeir sem eiga erfitt með þvaglát ættu ekki að nota slík lyf.