Þessi vetrarbraut var fyrsta rannsóknarefni Chandra-röntgensjónaukans sem sendur var út í geiminn árið 1999. Stjörnufræðingar urðu ekki fyrir vonbrigðum því á röntgenmyndum sést að hún er afar virk. Frá miðju hennar, sem er okkur hulin sýnum vegna mikils ryks þvert yfir vetrarbrautinni, streymir 30.000 ljósára langur röntgenstrókur á einum hundraðasta af hraða ljóssins. Þessi strókur virðist eiga rætur að rekja til gríðarstórs svarthols í kjarnanum með milljarðfaldan massa sólar. Á myndum Chandra sést einnig fjöldi annarra röntgenuppspretta, en þar er líklega um að ræða nifteindastjörnur eða svarthol með massa á við sólina sem soga til sín efni frá fylgistjörnum sínum. Bláleiti ljóminn sem er áberandi á myndinni fyrir neðan stafar af milljón gráða heitu gasi í vetrarbrautinni.
Stjörnufræðingar telja að virkni Centaurus A megi rekja til þess atburðar er vetrarbrautin og lítil þyrilvetrarbraut rákust saman fyrir um 100 milljónum ára. Slíkur árekstur gæti hafa hrundið af stað mikilli stjörnumyndunarhrinu og aukinni virkni í kjarna vetrarbrautarinnar. Orkan sem losnar þegar vetrarbraut verður “virk” getur haft mikil áhrif á þróun vetrarbrautarinnar og nágranna hennar. Massi svartholsins getur aukist, gasforði fyrir næstu kynslóð stjarna getur tapast og rúmið milli vetrarbrautanna auðgast af þyngri frumefnum. Virkar vetrarbrautir eru venjulega í hundrað milljón eða jafnvel milljarða ljósára fjarlægð frá okkur. Virk vetrarbraut í aðeins 10 milljón ljósára fjarlægð veitir stjörnufræðingum því einstakt tækifæri til að öðlast skilning á massamiklum svartholum sem orðið hafa til við árekstra vetrarbrauta. Lesendum er bent á áhugaverða gagnvirka vefsíðu um svarthol: Space Telescope Science Institute: Black Holes: Gravity's Relentless Pull. Heimildir: Vefsíða Chandra-röntgengeimsjónaukans
Vefsíða Hubblesjónaukans