Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í eðlisfræðitextum merkir danska orðið 'fart' sama og 'ferð' á íslensku og 'speed' á ensku, en 'hastighed' merkir sama og 'hraði' og 'velocity'. Orðið 'ferð' merkir í þessu samhengi sama og orðasambandið 'stærð hraða' sem er líka stundum notað í textum.
Aðalatriðið er að 'hraði' (hastighed, velocity) í eðlisfræði hefur bæði stærð og stefnu; hann er vigur eins og það heitir á máli stærðfræðinnar. 'Ferðin' eða 'stærð hraðans' er hins vegar aðeins ein einföld tala sem við getum til dæmis lesið af svokölluðum hraðamæli í bíl.
Hugsum okkur bát sem er staddur úti á miðju Þingvallavatni og okkur er sagt að ferð hans sé 20 km/h (kílómetrar á klukkustund). Það segir okkur hins vegar ekkert um það hvar hann kemur að landi, því að við vitum þá ekkert um stefnuna. Raunar erum við líka nokkurn veginn jafnnær um það hvenær hann lendir því að fjarlægðin til lands fer eftir því í hvaða stefnu hann fer.
Ef við segjum á hinn bóginn að báturinn stefni til norðausturs (45° frá norðri) með hraðanum 20 km/h, þá höfum við tilgreint hraða hans sem vigur, og til þess þurftum við einmitt tvær tölur, stærð hraðans og stefnuhorn hans. Ef við gerum ráð fyrir að báturinn haldi óbreyttum hraða (bæði stærð og stefnu), þá getum við síðan reiknað út bæði hvar hann lendir og hvenær.
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hver er munurinn á hugtökunum fart og hastighed, og hvernig eru þau þýdd á íslensku?“ Vísindavefurinn, 11. maí 2004, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4248.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2004, 11. maí). Hver er munurinn á hugtökunum fart og hastighed, og hvernig eru þau þýdd á íslensku? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4248
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hver er munurinn á hugtökunum fart og hastighed, og hvernig eru þau þýdd á íslensku?“ Vísindavefurinn. 11. maí. 2004. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4248>.