Fyrst Vestur-Nílarveiran getur borist með moskítóflugum, hvað kemur þá í veg fyrir að HIV-veiran geti borist með sama hætti?Þekktar smitleiðir fyrir alnæmi eru kynmök, samnýting sprautunála meðal fíkniefnaneytenda og blóðgjafir eða gjöf afurða úr blóði (mjög sjaldgæft). Einnig geta börn smitaðra mæðra smitast fyrir eða við fæðingu eða við brjóstagjöf. Aðrar smitleiðir eru ekki kunnar. Strax í upphafi alnæmisfaraldursins óttuðust menn mjög að skordýr sem sjúga blóð gætu borið smit á milli manna. Þessi möguleiki hefur verið rannsakaður á ýmsan hátt og menn telja nú fullvíst að engin slík hætta sé fyrir hendi. Algengasta skordýrið sem sýgur blóð er moskítóflugan en hún ber sjúkdóma eins og malaríu á milli einstaklinga. Malaríusýkillinn lifir og fjölgar sér í munnvatnskirtlum flugunnar og þegar hún stingur sprautar hún svolitlu munnvatni inn í fórnarlambið til að blóðið renni betur. Þannig kemst sýkillinn í nýjan hýsil.
Alnæmisveiran lifir ekki nema stutta stund í flugunni. Veiruna er ekki að finna í munnvatni hennar og venjulega líður langur tími frá því að flugan sýgur blóð úr einum einstaklingi og þar til næsta fórnarlamb verður fyrir barðinu á henni. Svipað gildir um önnur skordýr sem sjúga blóð eins og höfuðlýs, veggjalýs og flær. Hægt er að lesa umfjöllun um þetta efni víða á erlendum vefum:Mynd: