Kertalogi er til kominn vegna bruna kertavaxins í kertinu. Bruni efnis felst í því að viðkomandi efni gengur í efnasamband við súrefni andrúmsloftsins. Við það rofna súrefnissameindir sem og sameindir vaxins og mynda óstöðug lítil sameindabrot. Rofnun þessi veldur því að það myndast orka sem kemur fram með tvennum hætti, sem ljósorka og varmaorka. Mismunandi ljósorku skynjar mannsaugað sem mismunandi liti, svo sem blátt (orkuríkt) og gult (orkuminna). Varmaorkuna skynjum við í formi aukins hita sem stafar frá loganum. Sameindabrotin sem þessu valda leita upp frá loganum og sameinast á nýjan leik og mynda stöðugar sameindir í formi vatnsgufu og sem lofttegundir á borð við koltvíildi og koleinildi. Einnig geta kolefnisfrumeindir sameinast og raðast á margbreytilegan hátt og mynda þá sót. Hlutföll hinna ýmsu sameindabrota sem og lokamyndefna ræðst af hlutfallslegu magni súrefnis og kertavax í efnabreytingunni. Ef magn súrefnis er hlutfallslega lítið borið saman við vaxið er litur logans áberandi gulur, minni varmaorka stafar frá honum og sót getur myndast. Í því tilviki er talað um að kertið ósi. Ef hins vegar nægilegt súrefni er til staðar ber meira á bláa litnum í loganum, hann verður heitari og óverulegt sót myndast. Þá myndast þeim mun meira af koltvíildi (sjá mynd 1). Kertavax er efni sem búið er til úr sameindum sem innihalda einkum kolefnis- (C) og vetnisfumeindir (H) í mismunandi hlutföllum. Sameindir vaxins má því tákna með efnaformúlunni CnHm, þar sem n og m tákna tölur sem segja til um hlutfallsfjölda viðkomandi frumeinda. Bruni vaxins svarar til efnahvarfs viðkomandi sameinda við súrefnissameindir, sem samanstanda af tveimur súrefnisfrumeindum (þ.e. O2). Við það geta myndast efnin vatn (H2O) og CO2 eða CO eða Cn, háð hlutfallslegu magni hvarfefna, eins og frá er greint hér að ofan. Þetta má setja fram með eftirfarandi hætti:
Upphafshvarfefni | -> | lokamyndefni |
CnHm + O2 | -> | H2O + CO2(loft); ofgnótt O2 |
-> | H2O + CO(loft); miðlungsmagn O2 | |
-> | H2O + Cn(sót); takmarkað O2 |
Heimildir: [1] Ritgerðir nemenda við Háskóla Íslands: a) Ljómunarróf bútangasloga með og án íbætts CFC gass; ritgerð vegna sérverkefnis við efnafræðiskor H.Í., 1997; Árni Hr. Haraldsson. b) Ljómunarróf bútangasloga með og án íbætiefna; ritgerð vegna sérverkefnis við efnafræðiskor H.Í., 1998; Ómar Gústafsson. [2] John W. Lyons, Fire, Scientific American Library, 1985.