Vitað er um Máríuhella (flt.) á einum öðrum stað. Það er í Kollabæ í Fljótshlíð, þar sem þrír skútar bera þetta nafn. Þar voru hafðir sauðir sem gengu að mestu úti (Örnefnaskrá). Maríuhellir er líka í Brynjudal í Kjós. Hann var fyrr á tímum gott skjól fyrir sauðfé (Árbók Ferðafélags Íslands 1985, bls. 191). Ekki er vitað hvernig nafnið Maríuhellar er til komið en líklegt er að þeir séu kenndir við Maríu guðsmóður, það hafi verið talið gott til verndar fé að kenna fjárhella við hana. Vífilsstaðir voru eign Garðakirkju á 19. öld, kirkjan var þó ekki helguð Maríu, en mynd hennar var í eigu kirkjunnar (Íslenzkt fornbréfasafn IV:107-108; Margaret Cormack, The Saints in Iceland 1994, 185). Þess má geta að til er alþýðleg bæn fyrir fé í haga, þar sem Sankti María er nefnd (Fagrar heyrði ég raddirnar 1942, bls. 11-12). María verndaði bæði fólk og fé með möttli sínum, samkvæmt finnskri trú (Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder 11:374). Kvenmannsnafnið María varð ekki algengt hér fyrr en á 18. öld en ólíklegt er að hellar þessir séu kenndir við íslenskar konur með þessu nafni. Heimildir og mynd:
- Cormack, Margaret Jean. The saints in Iceland: their veneration from the conversion to 1400. Bruxelles: Société des Bollandistes, 1994.
- Fagrar heyrði ég raddirnar: þjóðkvæði og stef. Reykjavík: Mál og menning, 1942.
- Guðlaugur Rúnar Guðmundsson. Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar. Safn til sögu Garðabæjar III. Garðabær, 2001.
- Íslenzkt fornbréfasafn IV.
- Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder 11.
- Þættir um nágrenni Reykjavíkur. Reykjavík: Ferðafélag Íslands, 1985.
- Mynd: Mats: Myndagallerí © Mats Wibe Lund