Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Fyrst er þess að geta að spyrjandi skrifaði stökustað með litlum staf í upphaflegri spurningu sinni. Við höfum hins vegar leyft okkur að breyta s-inu í S með þeim rökum að munurinn á s og S heyrist sem kunnugt er ekki í framburði. Auk þess bendir allt til þess að spurningin sé hugsuð þannig að um ákveðinn stað (Stað) sé að ræða. Hins vegar skrifaði spyrjandi stökustað í einu orði þó að við getum auðvitað ekki heyrt muninn á því og 'stöku stað' í veðurfréttunum.
Við höfum gert rækilegar landfræðilegar, málfræðilegar og almennt vísindalegar rannsóknir vegna þessarar spurningar, svo sem siður er hér á bæ þegar erfiðar spurningar berast. Okkur er ljúft að greina nú frá niðurstöðum þessara athugana sem hafa tekið tæpt ár því að spurningin barst í janúar á þessu ári.
Fyrst datt okkur í hug að orðið væri kannski ekki með stórum staf og svarið við spurningunni væri því einfaldlega það að 'stökustaður' eða 'stöku staður' væri í orðabókinni. Við fórum og gáðum í Íslenska orðabók Eddu frá 2002 með eftirfarandi niðurstöðu:
Hvar er Stökustaður? - Ekki í orðabókinni.
Þess má að vísu geta neðanmáls að orðmyndin 'stöku' er sérstakt flettiorð í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals frá 1920-1924 og skýrt sem aukafall (lat. casus obliquus, e. oblique case) af nafnorðinu 'staka' eða lýsingarorðinu 'stakur'. Hins vegar höfum við ekki trú á því að 'stökustaður' geti verið kenndur við íslensku ferskeytluna þó að orðið 'stökufær' sé til í orðabókum og vísi til hennar.
Orðabækur eru skemmtileg lesning og þar má til dæmis sjá að til er sögnin 'að staka' í merkingunni að 'stjaka við, hrinda' og getur því komið fyrir að einhver staki einhverjum á stökustað. Mönnum er bent á að varast þetta ef þeir eru nálægt slíkum stað enda gæti ella komið upp velþekkt umræða um hvað sé slys og hvað ekki.
En við höfum annars komist að þeirri niðurstöðu í rannsóknum okkar að Stökustaður sé sérnafn eins og veðurfréttir og spyrjandi gefa til kynna.
Í rannsóknum okkar höfum við meðal annars kannað þá tilgátu að Stökustaður sé á veðurskipinu Líma sem var vinsælt í veðurfréttum á sínum tíma (takið eftir að þetta rímar). Við höfum orðið að hafna þessari tilgátu því að menn halda áfram að tala um Stökustað þó að þetta skip virðist nú vera úr sögunni.
Við höldum að þetta sé mynd af veðurskipinu Líma.
Okkur hefur hins vegar ekki tekist að ákvarða staðinn til fulls en við höfum getað afmarkað tiltekið svæði þannig að Stökustaður er örugglega innan þess. Þetta er svæðið fyrir austan sól og sunnan mána en um það má lesa nánar á Vísindavefnum. Við teljum "næsta víst" að Stökustaður sé einhvers staðar á því svæði þó að við vitum ekki hvar, en kannski geta lesendur hjálpað okkur með það?
Ritstjórn Vísindavefsins. „Hvar er þessi Stökustaður sem talað er um í veðurfréttum?“ Vísindavefurinn, 19. desember 2003, sótt 2. apríl 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=3923.
Ritstjórn Vísindavefsins. (2003, 19. desember). Hvar er þessi Stökustaður sem talað er um í veðurfréttum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3923
Ritstjórn Vísindavefsins. „Hvar er þessi Stökustaður sem talað er um í veðurfréttum?“ Vísindavefurinn. 19. des. 2003. Vefsíða. 2. apr. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3923>.